Orð og tunga - 2023, Blaðsíða 66
Veturliði Óskarsson: Orð koma í orða stað 57
eitt er nafn bandarískrar rokkhljómsveitar, annað er í titli bandarísks
djasslags, tvö eru í þýdda viðtalinu við John Lennon sem nefnt var
að ofan. Aðeins eitt dæmi er í samhengi sem endurspeglar ekki
enskan frumtexta. Það er í ritdómi um íslenska skáldsögu þar sem
aðalpersónan er sögð ekki vita hvað „fuck me“ og „survival of the
fittest“ þýðir (Dagblaðið 1977). Sama má segja um dæmin um fucking,
flest eru þau í enskum tilvitnunum.
Ensku orðin fuck og fucking virðast því ekki hafa verið komin í
neina umtalsverða notkun sem herðandi orð eða blótsyrði á þessum
tíma, en þau eru greinilega á leið inn í tungumálið eins og sést á
smáauknum fjölda dæma um þau sem ensk orð og enskar tilvitnanir
í íslenskum texta. Á árunum 1980 til 2000 er rúmlega 200 dæmi að
finna um fuck stafsett að enskum hætti og um 190 um fucking í þeim
textum sem skoðaðir voru, mörg þeirra í beinum tilvitnunum og í
ýmsum tegundum nafna, kvikmyndatitla og þess háttar. Eftir 2000
hafa komið í ljós um 230 dæmi um fuck í textunum og um 730 um
fucking, oftast í textum á ensku eða í enskum nöfnum eins og í eldri
dæmunum.
Því má bæta við hér að engin dæmi fundust um ritmyndir/
orðmyndir á borð við *fukka eða *fucka, sem hefðu átt að geta orðið til
í íslensku út frá ritmynd ensku sagnarinnar fuck. Í sambandi við það
skal þess getið að slík sögn, fukka, hefur verið til í færeysku og notuð
sem grófyrði í merkingunni ‘hafa samræði’ (Føroysk orðabók, 1998).
Hún er skráð í orðabók J.C. Svabo frá um 1800 og virðist enn hafa
verið í notkun snemma á 20. öld.17 Í ritgerð sinni um ensk tökuorð í
færeysku telur Tórður Jóansson (1997:84) sögnina í orðabók Svabos
hafa verið „a genuine English loanword“ sem síðan hvarf en var
kynnt aftur til sögunnar „quite recently and spelt fokka or just fuck as
in English“ (Jóansson 1997:37).
3.3 Íslenskar orðmyndir
Skömmu eftir 1980 fer enska orðið fuck (sagnorð/upphrópun/nafnorð)
að birtast í blöðum og tímaritum í íslensku ritmyndunum fokka og
fokk. Þær endurspegla greinilega hina enskættuðu merkingu og notk
un, eiga sér oft beinar hliðstæður í enskum orðasamböndum og sam
setningum og það leikur því enginn vafi á því að þarna er um að ræða
17 Þessar upplýsingar á ég að þakka Zakaris Svabo Hansen, dósent við Fróð
skaparsetrið í Þórshöfn.
tunga25.indb 57 08.06.2023 15:47:15