Orð og tunga - 2023, Page 70
Veturliði Óskarsson: Orð koma í orða stað 61
Fá dæmi hafa þó komið í ljós í varðveittum textum fram að miðri 19.
öld en dæmum fjölgar smám saman á 19. og 20. öld. Sögnin var lengst
af algengust í orðasambandinu láta eð fokka og virðist þar einkum
notuð til að gefa samhenginu kæruleysislega merkingu, yfirbragð eða
hlutverk. Snemma á 20. öld taka að birtast dæmi um fokka í áhrifslausu
hlutverki, í merkingunni ‘gaufa, dunda, drepa tímann’ og um svipað
leyti dæmi um nafnorð myndað af sögninni með samsvarandi nafn
orðamerkingu, ‘gauf, dund’.
Orðin fokka og fokk áttu vissa merkingarþætti sameiginlega með
enska orðinu fuck (sagnorð, upphrópun, nafnorð) sem tekur að skjóta
upp kollinum í íslenskum textum á 8. áratug 20. aldar eða ef til vill
aðeins fyrr og sem fljótlega tekur upp sem tökuorð sömu form og
eldri orðin. Gamla sögnin og sú nýja eiga sér einnig viss sameiginleg
orðasambandslíkindi, þ.e. sögn + forsetningarliður, fokka í + eu, fokka
við + eð, þó að merkingin sé ekki fyllilega sambærileg. Í stuttu máli
má segja að nýja erlenda orðið hafi í útliti, merkingu og hlutverki
staðið nógu nálægt eldri orðunum, sögninni og nafnorðinu, til þess
að það hafi smám saman „stolið“ plássinu. Ferlinu er ekki enn
lokið; málnotendur sem alist hafa upp við gömlu orðin eða gömlu
merkingarnar þekkja þær enn og nota kannski við og við. En smám
saman hafa þeir, ef til vill einkum yngra fólk, hætt að skynja skýrt
muninn á eldri og yngri orðunum og má þá segja að orðin hafi runnið
saman. Eins og fram hefur komið getur stundum reynst erfitt að
ákveða með vissu hvort dæmi um fokka eða fokk tilheyri eldra orðinu
eða því nýja. Í þessu sambandi má minna á það fyrirbæri sem kallað
hefur verið falsvinir (franska faux amis), sem er vel þekkt í sambandi
við máltengsl, erlend áhrif og þýðingar. Þar er um að ræða orð innan
tveggja eða fleiri (skyldra) tungumála sem eru mjög lík að formi (staf
setningu og/eða framburði) en hafa ólíka merkingu og valda þess
vegna stundum vanda meðal málnotenda og þýðenda sem ekki þekkja
glöggt þann mun sem á þeim er. Íslendingar hafa t.d. margir hverjir
einhvern tíma komist í ógöngur með íslensku orðin sæng, rúm og dýna
og dönsk orð sem líkjast þeim (og eru auðvitað af sama uppruna),
þ.e. seng ‘rúm’, rum ‘rými’ og dyne ‘sæng’. Segja má að þegar gömlu
íslensku orðin fokka og fokk og það nýja enskættaða séu runnin saman
hafi myndast eins konar falsvinir af þessum toga, en innan eins og
sama máls sem er nokkuð sérstakt.
Hér má einnig nefna það að ekki er óalgengt að sama orð (eða
nafn) berist oftar en einu sinni og á mismunandi tímum inn í sama
tungumál, stundum tvívegis úr sama tungumáli, stundum í gegnum
tunga25.indb 61 08.06.2023 15:47:15