Orð og tunga - 2023, Page 79
70 Orð og tunga
þó ekki ein um að hafa þarna eignarfornafn, þetta er venja í öðrum
norrænum málum (d. din idiot, n. din tulling, s. din skurk, fær. tín
býttlingur, býttlingur tín) og þetta var til í fornu máli. Um þetta sérkenni
norrænna mála fjallaði Jacob Grimm nokkuð ítarlega á 19. öld. Hann
taldi þetta sjaldgæft fyrirbæri og áleit að því hefði ekki verið nægur
gaumur gefinn (Grimm 1866:271–272).
Markmið greinarinnar er að taka saman ýmislegt sem skrifað hefur
verið um efnið, sýna dæmi um þetta fyrirbæri, X þinn, og ræða notkun
þess, bæði í íslensku að fornu og nýju og í öðrum Norðurlandamálum.
Notkunin í öðrum norrænum málum er ekki algerlega sambærileg við
íslensku, á fornu máli og nýju er einnig nokkur munur. Enn fremur
verður X þinn borið saman við annað áþekkt fyrirbæri í íslensku, sem
hvorki virðast dæmi um í fornu máli né skyldmálum, orðasambönd
sem eiga það sameiginlegt með X þinn að „eign“ samsvarar „eiganda“
en eignartáknunin er önnur: helvítið á þér, helvítið á honum, skömmin á
henni. Um slík sambönd hefur ekki verið fjallað áður.
X þinn verður hér kallað mynstur en orðasambandagerð eða
konstrúksjón hefði einnig komið til greina.2 Þegar talað er hér um
mynstrið X þinn er eingöngu vísað til þeirra sambanda þar sem „eign“
samsvarar „eiganda“ (helvítið þitt, þrjóturinn þinn) en ekki annarra
sambanda sem eru formlega sambærileg (s.s. húfan þín, trefillinn þinn).
Hið sama gildir um mynstrið X á honum/henni sem einnig er hér til
umræðu; með því er eingöngu vísað til sambanda á borð við helvítið á
honum en ekki t.d. nefið á honum, bakið á henni.
Orðasambönd eru fjölskrúðugur hópur og hægt er að skilgreina
þau og flokka á margvíslegan hátt. Taylor (2012:69 o.áfr.) flokkar
orðasambönd (e. idioms) í fjórar gerðir. Skilin á milli þeirra eru þó ekki
alltaf hnífskörp. Einn flokkinn skipa setningabundin orðasambönd
(e. syntactic idioms) en innan hans eru m.a. svokölluð mynsturbundin
orðasambönd (e. constructional idioms). Dæmi sem Taylor nefnir um
slík sambönd eru Off with his head!, On with the show! og Down with
globalization! Mynsturbundin orðasambönd einkennast af mynstrum
sem eru frjó, þ.e. geta tekið við nýjum samsetningum. Frjósemi eða
virkni slíkra mynstra er þó harla misjöfn, sum eru mjög opin en önnur
lokaðri. Sambönd sem falla inn í X þinn og X á honum/henni geta talist
til mynsturbundinna orðasambanda.
Efnisskipan er þessi: Fyrst verður hugað að notkun mynstursins X
þinn í nútímamáli og hún borin saman við notkun din X, tín X í fjórum
2 Sbr. umræðu um þessi hugtök hjá Katrínu Axelsdóttur 2019:308.
tunga25.indb 70 08.06.2023 15:47:15