Orð og tunga - 2023, Qupperneq 83
74 Orð og tunga
Aasen (1864:332) nefnir að í norsku sé eignarfornafnið din notað
með nafnorðum í samhengi samúðar (fyrir utan að vera notað í
skömmum), t.d. í No frys du i Hel, ditt vesle Ting; Gakk heimatter, din
Krok.6 Þetta minnir á sum dæmi Grimms úr sænsku og einnig á dæmi
á borð við litli kjáninn þinn, þar sem segja má að heldur neikvætt orð
sé notað í gælu eða vorkunnartóni.
Aasen (1864:332) segir sambærilega notkun til með eignarfornafni
fyrstu persónu (min eða vår), samhengið er þá sjálfsásakandi eða
niðrandi: min Arming; Me, vaare Stakarar; Eg visste inkje betre min
Daare. Dæmi með min, bæði sænsk og dönsk, eru nefnd hjá Sandfeld
Jensen (1900:21). Í íslensku er til orðalag sem minnir á þetta, vesa
lingur minn.7
Í kaflanum hafa verið sýnd ýmis dæmi um mynstrið X þinn í ís
lensku og sambærileg mynstur í öðrum Norðurlandamálum. Mynstr
in eru ekki bundin við niðrandi samhengi þótt oftast komi þau fyrir
í skömmum. Samhengið getur verið ýmiss konar, gælur, vorkunn og
jafnvel mesta hrós. Um síðastnefnda samhengið eru auðfundin dæmi
í íslensku, þetta virðist sjaldséðara í öðrum norrænum málum.8
Eitt af dæmum Taylors (2012:87–88) í umræðu um setningabundin
orðasambönd er mynstur sem sambandið that idiot of a man er fulltrúi
fyrir. Þetta samband hefur að geyma neikvætt nafnorð og í mynstrinu
eru oftast slík orð; önnur dæmi sem Taylor nefnir um mynstrið eru
m.a. that clown of a teacher og that wretched old witch of a woman. En
Taylor segir mynstrið einnig koma fyrir í hrósi með jákvæðum orðum
þótt það sé sjaldgæfara: that angel of a girl; it’s one blockbuster of a film.
Það er því ekki einstakt að mynstur sem alla jafna er notað í niðrandi
tali komi einnig fyrir með hrósyrðum.
6 Hann notar orðið velvilje en hjá Cleasby (1874:738) er talað um compassion varðandi
þessi dæmi Aasens.
7 Þar er nafnorðið greinislaust, ólíkt dæmum á borð við helvítið þitt. Ef greinir er
hafður, vesalingurinn minn, er merkingin önnur því að þá vísar nafnorðið ekki til
mælandans heldur þess sem ávarpaður er.
8 Rétt er að taka fram að í norrænum málum eru eignarfornöfn (eignar falls mynd)
vissulega notuð með nafnorðum í virðingarávörpum: yðar náð, hennar hátign, hans
heilagleiki, d. Deres Majestæt, s. Ers Majestät. Þarna eru ákveðin líkindi við X þinn og
sambærileg mynstur í skyldum málum, „eigandi“ og „eign“ fer hér saman. En þetta
er þó annað, slík virðingarávörp með eignarfornafni (eignarfallsmynd) eru mjög
sérhæfð og eru þar að auki víða til (e. Your Majesty, fr. Votre Majesté), ólíkt X þinn
og sambærilegum mynstrum í grannmálunum. Í íslensku er setningafræðilegur
munur á virðingarávörpum og X þinn, í síðarnefnda mynstrinu er eignarfornafnið
eftirsett og nafnorðið verður að hafa greini. Á líkindi mynstursins X þinn og
virðingarávarpa verður aftur minnst í 4. kafla.
tunga25.indb 74 08.06.2023 15:47:15