Orð og tunga - 2023, Side 96
Katrín Axelsdóttir: Að eiga það sem maður er 87
Það þarf kannski ekki að koma á óvart að mynstrið X á honum/
henni sé ekki sérlega virkt eða frjótt. Ýmsar aðrar leiðir má fara við
að hallmæla þriðja aðila (þótt vissulega sé illmögulegt eða útilokað
að segja t.d. *ófétið hans, *skömmin hennar) og sumar af þeim leiðum
eru væntanlega rótgrónari í málinu. Hér er oft notað miðstigið af
mikill: (hann er nú) meira ófétið, (hún er nú) meiri hálfvitinn. Þá er helvítis
eða annað blótsyrði oft sett á undan nafnorði með greini: helvítis
beinið, djöfuls(ins) asninn. Einnig er algengt að nota hvílíkur, þvílíkur
og óttalegur (og ýmis önnur merkingarskyld lýsingarorð) á undan
nafnorðinu sem er þá greinislaust (hvílíkt óféti, þvílíkur hálfviti, óttalegt
kvikindi). Enn ein leiðin er að hafa en sá á undan nafnorðinu: en sá
þrjótur, en það óféti og svo er hægt að bæta sá arna (eða atarna) aftan
við nafnorðið: skömmin sú arna, helvítið atarna. Sumir þessara kosta
eru einnig, og ekki síður, notaðir um annað en fólk: (þetta er nú) meiri
vitleysan, hvílík vitleysa, en sú vitleysa. Þetta kann að valda því að
umrædd mynstur eru algengari en önnur og af þeim sökum opnari.22
Þessi fjöldi leiða við að hallmæla þriðja aðila gæti varpað ljósi á
litla virkni mynstursins X á honum/henni. En hér má ekki gleyma að
sumar leiðirnar má einnig fara þegar fólk er ávarpað: (þú ert nú) meiri
hálfvitinn, hvílíkur hálfviti (sem þú ert).23 Þrátt fyrir það er X þinn afar
virkt mynstur.
Hér hefur verið talað um ýmsar leiðir við að hallmæla fólki. En
rétt er að taka fram að leiðirnar eru ekki alltaf jafnfærar. Orðið helvíti
sem skammaryrði um mann er hægt að nota í helvítið þitt, helvítið á
þér, helvítið á honum/henni og helvítið atarna. En um mann væri varla
sagt ?hvílíkt helvíti, ?meira helvítið eða ?en það helvíti. Í slíku samhengi
myndi helvíti væntanlega frekar vera skilið sem slæmur staður eða
ástand. Það þarf því e.t.v. ekki að koma á óvart að helvítið á honum/
henni sé algengast sambandanna sem fundust um X á honum/henni. En
það gæti auðvitað líka stafað af því að helvíti sé einfaldlega tiltölulega
algengt skammaryrði almennt.
6.3 Hversu þekkt eru samböndin?
Sum sambandanna níu sem dæmi fundust um innan mynstursins X
22 Við margt af þessu er gjarna bætt endemis eða einhverju öðru blótsyrði: (hann er nú)
meiri endemis þrjóturinn, (hún er nú) meiri helvítis hálfvitinn, hvílík andskotans vitleysa,
en sá djöfulsins þrjótur.
23 Hugsanlega er orðalagið en sá X einnig notað í ávörpum en það er þó mun
kunnuglegra í umræðu um þriðja aðila.
tunga25.indb 87 08.06.2023 15:47:16