Orð og tunga - 2023, Page 100
Katrín Axelsdóttir: Að eiga það sem maður er 91
jákvætt samhengi, jafnvel hástemmt lof (snillingurinn þinn, límheilinn
þinn). Sambærileg mynstur (din X, tín X) eru til í dönsku, norsku,
sænsku og færeysku. Þau koma eins og í íslensku helst fyrir með
skammaryrðum. Jákvætt samhengi þekkist líka. En það virðist sjald
gæft og dæmi um mynstrið í hrósi eru vandfundin í þessum málum.
Í 3. kafla var litið til fyrri skrifa um fornmál og fornmálsnotkunin
borin saman við nútímamál. Notkun mynstursins var í fornu máli
miklu fjölskrúðugri en nú, nafnorðið gat verið greinislaust (mannfýla
þín), eignarfornafnið gat komið á undan nafnorðinu (þinn heljarkarl),
mynstrið mátti nota með sögn í þriðju persónu, líkt og væri verið að
tala um þriðja aðila (hvað mun þjófur þinn vita til þess = ‘hvað munt
þú, þjófurinn þinn, vita til þess’) og jafnvel í aukafalli (er eg sé þig,
frændaskömm þína). Í fornu máli hafa ekki fundist dæmi um annað en
neikvætt samhengi.
Sagt var frá nokkrum ólíkum hugmyndum um uppruna X þinn
í 4. kafla. Sú sem hér var helst hallast að snýst um að X þinn megi
bera saman við virðingarávörp á borð við yðar hátign; nafnorðið í X
þinn (sem í upphafi hafi alltaf verið óhlutstætt nafnorð) hafi ekki vísað
til persónunnar sjálfrar heldur einhvers konar eiginleika hennar, rétt
eins og nafnorð í virðingarávörpum. Síðar hafi hlutstæð orð bæst í
hóp þeirra neikvæðu orða sem gátu komið fyrir í mynstrinu.
Í 5. kafla var litið á sambandið helvítið á þér sem dæmi eru um allt
frá 19. öld. Merkingarlega er þetta sambærilegt við helvítið þitt, a.m.k.
í nútímanum, en eignartáknunin er önnur, sú sama og einna helst
má sjá með svokallaðri órjúfanlegri eign (höndin á þér). Helvítið á þér
er miklu sjaldgæfara en helvítið þitt. Í þriðju persónu er hægt að nota
samsvarandi formgerð, á með þágufalli, helvítið á honum/henni, og inn
í það mynstur, X á honum/henni, geta ýmis önnur orð en helvíti gengið
(helvítið á þér er eini fulltrúi X á þér sem fannst við þessa athugun).
Mynstur sem er setningafræðilega sambærilegt við X þinn, *helvítið
hans, *skömmin hennar, virðist hins vegar ekki vera til í þriðju persónu
í nútímamáli og fátt virðist um slíkt í eldra máli þótt finna megi dæmi.
Fjallað var nánar um mynstrið X á honum/henni í 6. kafla, með
hliðsjón af X þinn og helvítið á þér (X á þér). Mynstrið er merkingarlega
sambærilegt X þinn en ekki nærri því eins virkt; ekki fundust nema
níu nafnorð sem koma fyrir innan þess, allt skammaryrði. Flest
samböndin eru frekar lítið þekkt. Mynstur sem samsvara X á honum/
henni (eða X á þér) þekkjast ekki í grannmálunum og engin dæmi hafa
fundist um mynstrið í fornu máli. Ekki er ólíklegt að mynstrið X á
honum/henni (og helvítið á þér) hafi orðið til þegar sambærileg táknun
tunga25.indb 91 08.06.2023 15:47:16