Goðasteinn - 01.09.1967, Blaðsíða 35
Sigurður Ðraumland:
VOR
Er blátjöldin vornætur breiða yfir grænkandi heiðar
og blómgullnir dalirnir opna faðm sinn á ný,
hvíslar ilmþrunginn blær í laufi því ljóði sem niðar
ljósstraumi unaðar, vekur himinsins ský
til flugs út í óræða fjarvídd á bak við tindinn,
er fegurri hefst móti sólspá þess miðnæturlags,
scm tindrandi vefur sinn óð um hnjúkinn og hnígur
eins og hljóðlát bæn inn í morgunregn komandi dags.
Og jörðina dreymir hvern dropa sem lausn þeirrar gleði,
er deginum flæðir í brjóst yfir vorloftin há,
og gefur þá stráunum ungu, sem geislunum unna,
en eftir þeim bíður, sólskinsstund, heit eins og þrá
mjalihvítra svana, er svífa í óttunnar friði
syngjandi hljóm þeirrar vonar, sem skjótara fer,
meðan fylkingin þokast hægt yfir húmsæla dali
og hrynjandi daggtára ljómann á vængjunum ber.
Löng var sú nótt, sem er liðin á eyðimörk vetrar,
unz ljúfari systirin töfrasprotanum brá,
og svananna flug er sem för inn í ódáinsheima,
í fyllingu tímans varð heiðríkja draumanna blá,
og dagrenning sumarsins draup yfir flýjandi rökkvann,
við dunandi strengjaspil lífsins er hörpuna sló,
hjá uppsprettulindunum innstu í sérhverju hjarta
og eilífðar vormáttinn fagnaðarsöngvunum bjó.
Goðasteinn
33