Goðasteinn - 01.09.1967, Blaðsíða 19
hvítan hóf á afturfæti. Hefta viidi Jón gamli hestinn, þó í áhaldi
væri og góðum haga. Jarpur Erlends var þarna fyrir, af hvaða á-
stæðu man ég ekki. Jón rölti til hans og skoðaði hann lengi, æði
þungur á svipinn. Ekki lét hann nægja að teyma hann á sléttum
velli, heldur einnig upp og niður í móti. Tóku þessar athuganir
hans langan tíma, en ekki sagði hann nokkurt orð.
Um morguninn næsta býst Jón til heimferðar og biður Erlend
ganga með sér og taka hestinn. Ég fylgdist með þeim, og var það
látið afskiptalaust. Fljótlega kom Jón þeim jarpa í tal og ávítaði
Erlend af miklum þunga fyrir meðferðina á honum. Erlendur kvað
enga tilhæfu í átölum hans, og varð úr þessu hin harðasta senna á
milli þeirra. Vann Jón engan bug á Erlendi, þó að ekki yrði heldur
sagt, að hann færi halloka. Gengur nú Jón þangað, sem Jarpur
er, og rekur hann á undan sér góðan spöl, á jafnsléttu og í halla,
á fót og undan fæti. Urðu nú átölur hans allvísindalegar, þar sem
hann kvað göngulag hestsins ekki dylja þá staðreynd, að honum
hefði verið ofgert. Varð nú sókn af hálfu Jóns, örugg og óverjandi.
Allir, sem voru með Jóni Ásmundssyni í ferðalögum, höfðu á
orði, hversu snyrtilega hann bjó upp á hesta sína. Reiðskapur all-
ur vandaður sem bezt mátti verða og að engu farið flausturslega,
þegar hcstar voru tygjaðir undir bagga. Var hann því oft síð-
búnari en margir aðrir að taka sig upp í áfanga, en var þó oftast
fremstur í flokki lestamanna, er frá leið, því að tafir urðu engar við
lagfæringar, allt sat eins og frá var gengið í upphafi.
Unglingum þótti gott að vera með Jóni á Lyngum, ef eldri menn
gerðu á hlut þeirra, og eru engin dæmi þess, að hann færi halloka
í fangbrögðum við aðra. Hjörleifur Jónsson í Sandaseli hafði
minnzt snarleika Jóns eitt sinn, er hann, þá unglingur, var með hon-
um í lestaferð á Eyrarbakka. Einhvers staðar á leiðinni, þar sem
þeir höfðu áning og tóku til nestis, bar að tvo menn, sem hófu að
glettast við Hjörleif og annan ungling, sem í förinni var. Spratt
Jón þá upp skjótt, bað menn þessa að láta alla í friði, greip þá
um leið, báða í senn, og lagði við jörðu. Höfðu þeir sig burtu síð-
an án frekari áreitni.
Sigurbergur Einarsson bóndi í Kotey í Meðallandi minntist
þess, að Meðallendingar voru í fjárrétt (almenning) í Skaftártungu.
Goðasteinn
17