Goðasteinn - 01.06.1985, Page 38
Vestur-Skaftfellingur, í hugsun utan við alfaraveg. Vafalaust hefur
nafn hans verið Jón og kenningarnafnið krukkur hefur hann átt,
hvort það hefur verið leitt af helti eða öðru liggur milli mála. Árni
Magnússon prófessor hefði sennilega átt hægt með að greina frá
nafni þessa huldumanns. í riti sínu Chorographica Islandica
minnist hann á Skinneyjarhöfða í Hornafirði og segir að hann hafi
til forna, sérdeilis í Krukkspá, verið kallaður Mýrnamannahöfði,
og er þetta þó misskilningur hins lærða manns hvað varðar Krukks-
spá því hún á þar við Mýrnamannahöfða í Álftaveri sem nú nefnist
Mýrnahöfði.
Markvert er það að nokkur örnefni kennd við Krukk eru í Vestur-
Skaftafellssýslu og ráða því naumast eintóm áhrif frá Krukksspá.
Krukkshellir er framan í Geitafjalli í Dyrhólahreppi, lítill móbergs-
hellir niður við brekku, beint upp af bænum Norður-Garði. Sagt
var að Jón krukkur hefði dvalist í hellinum við spásagnir um ótil-
tekinn tíma og víst er hann nógu stór til þess að einn maður hefði
getað átt í honum sæmilegt hæli. Milli Krukkshellis og Loftsala-
hellis eru Krukkshausar, ofan brekkunnar. Annar Krukkshellir
hefur verið í Fagradalshömrum í Mýrdal. Um hann getur í viðauka
séra Jóns Steingrímssonar við skrif séra Jóns Salomonssonar um
Kötluhlaupið 1660: „Milli Askvíkur og Krukkshellis (hvar inni
dunar eitt vatnsfall sem framar sést ei) heita Skorbeinsflúðirj’ segir
þar. Skorbeinsflúðir eru vel þekktar. Til skamms tíma lá þjóðleið
um þær en hefur nú verið færð nokkuð suður á sandinn. Askvík er
ofan og vestan við Skorbeinsflúðir og var þar heyjað í vaillendis-
torfum frá Fagradal og heyinu komið þaðan niður á sand. Krukks-
hellir er týnt örnefni.
Mikill gapi er í hömrunum austan við Skorbeinsflúðir og gæti
verið hinn gamli Krukkshellir en öllu líklegra er þó að hann sé
horfinn í urð og grjót, enda benda orð séra Jóns fremur til þess.
Gömul sögn er að leiði Jóns krukks ætti að vera í Krukkshrauni
uppi á Arnarstakksheiði. Það er í landi Fagradals og var lítt gróið
í byrjun þessarar aldar en er nú í átt til þess að gróa upp. Sögnin
er nokkuð gömul því í draumkvæði Jóns Nikulássonar, frá fyrra
hluta 18. aldar að ætla má, segir: „Ég var staddur Arnarstakks á
heiði, á þeim reit hvar spámaðurinn deyði!’ Allajafna hefur þá lifað
36
Goðasteinn