Víðförli - 01.12.1952, Síða 44
106
VÍÐFÖRLI
að þau eru furðulega öruggar heimildir, allt að því smásmugu-
lega nákvæm lýsing á opinberri starfsemi Jesú og dauða.
Hver eru þá meginatriðin í ævisögu og hugsun Jesú, að skoðun
Schweitzers.
Samkvæmt ótvíræðum vitnisburði guðspjallanna er hann gagn-
tekinn af hugmyndinni um komandi Messías, sem hann nefnir,
eins og samtíðin, Mannssoninn, en það heiti er runnið frá Dan-
íelsbók, þar sem himnesk dýrðarvera, einhver, sem mannssyni lík-
ist, birtist í sýn, komandi í skýjum himins. Guðsríkið, sem Jesús
boðar frá upphafi starfsemi sinnar, er hið himneska, yfirnáttúr-
lega dýrðarríki, sem koma muni í krafti við endalok heims. Og
þau endalok eru fyrir dyrum. Jesús boðar yfirvofandi dóm, sem
skera muni úr um það, hverjir fái hlutdeild í dýrð Messíasar-rík-
isins og hverjir ekki. Þetta eru í höfuðatriðum áþekkar skoðanir
og fyrir verða meðal samtíma-Gyðinga. En ramma þessara hug-
mynda fyllir Jesús áhrifavaldi persónuleika síns, blæs sínuin vold-
uga anda og siðgæðiskrafti í þennan hjúp: Þeir, sem eiga að geta
vænzt þe.ss að tilheyra hinu komandi ríki Guðs, verða að gangast
undir altækar kröfur kærleikans. Himnaríkið er þeirra, sem eru
fátækir í anda, miskunnsamir, friðflytjendur, hjartahreinir, þeirra,
sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, sem líða þjáningu og of-
sóknir sakir guðsríkis, þeirra, sem verða eins og börnin. Þannig
var hin síðgyðinglega heimsskoðun eða hugmyndarammi eins og
eldvarpið, sem gaus báleldi hinnar eilífgildu trúar kærleikans.
Á einhverri stundu starfsemi sinnar, segir Schweitzer enn, verður
Jesú ljóst, að hann muni eiga að fórna lífi sínu til þess að ryðja
guðsríkinu veg eða greiða veginn inn í það. Skv. Schweitzer nær sú
vissa tökum á Jesú með einhverju móti, að hann verði að deyja frið-
þægingardauða fyrir aðra, til þess að þeir geti komizt inn í ríkið1).
Sú skoðun var uppi í samtíð hans, að leiðin inn í guðsríki lægi
um mikla þrengingu. Þá þrengingu vill Jesús taka á sig einan í
annarra stað. Þegar í Faðirvori, sem er bæn um komu guðsríkis-
1) Það er álit guðfræSinga nú, að iþessi sannfæring hafi mótað huga
Jesú þegar á skírnarstundu hans.