Skírnir - 01.12.1911, Side 32
336
Úr hliðinni yfir mónum.
Það er haust. Laufið á birkinu er gult og laust.
Blærinn andar; laufið fellur unnvörpum til jarðar.
Þrösturinn er hættur að Syngja og lyfta sér á grein-
unum. Þó situr hann ekki kyr; hann skýst milli runna
með miklum hraða, þegjandi, skríðandi með jörðu.
Hví situr hann ekki kyr? Er þrá hans enn þá lif-
andi og rík — eins og mín eigin þrá?
Eða hví syngur hann eigi og lyftir sér? Hafa fylgj-
ur vetrarins náð tökum á taugum hans — eins og mínum
eigin taugum?--------
Getur verið.
Þó er veðrið gott; hlýr sunnanblær og sólskinsblettir
í hlíðum.
Loftið er skýjað og skýin rekin saman .í þétta flóka,
sem eru dökkgráir í miðju, en Ijósir utar með gulum
jöðrum — þar sem sólin skín. FJókarnir verða æ þéttari og
dekkri, því norðar sem dregur á himininn. Norður yfir
hafinu er samfeld, dimmgrá skýjabreiða og niður við sjó-
inn eimur líkur reyk úr hálfkuinuðum glæðum.-----------—
Eg sit í hlíðinni og horfi á laufið, sem er að detta. —
Eg horfi heim að bænum. Túnið er enn þá lítið; bær-
inn lágur; fólkið steypt í sama móti.
Og eg spyr sjálfan mig, til hvers eg hafi lifað.
Þá kemur þú heiman að, létt, eins og fugl á vori. Þú
kemur og syngur. — Hvað eg elskaði þig.-------------
Þú sest niður og leggur vangann á handlegg minn.
Svo lítur þú upp; snýr þér; horfir brosandi í augu mér.
Og eg gleymi haustinu; gleymi því að eg er tekinn að
eldast. Við stöndum á fætur og göngum með fögnuði
niður hlíðina.
En niðri á mónum eru þrír menn að skjóta rjúpur.
Einn þeirra er miðaldra maður; meðallagi hár; grann-
vaxinn; léttilegur á velli. Hann hleypur við fót, boginn
af áfergju eftir því að vera fyrstur; boginn í hnjám, bog-
inn í lendum, boginn í hálsi — eins og hann teygi höfuðið
eftir því, sem fyrir framan er. Vinstri hendinni heldur