Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1937, Blaðsíða 107
107
á tanga í, hafi ekld verið Hávaðavatn hið nyrðra, eins og hann segir
(eftir einhverjum öðrum), hefur þó vatnið með tanga þessum, sem
hann kveðst hafa sjeð, vafalaust verið til, hvort sem það nú hefur
verið Urðhæðavatn eða eitthvað annað vatn. En þar eð ekki „deilir
norðr vatnföllum til heraða" Norðlendinga, heldur renna kvíslar úr
báðum þessum vötnum suður, verður því ekki komið heim við söguna,
að nyrðra vígið hafi verið í tanga eða nesi í öðru hvoru þeirra. En
„enginn hefur getað bent mjer á vatn norðar með veginum, sem
þeir vissu til, að í væri slíkur tangi, sem hjer um ræðir“, segir Torfi,
— þ. e. slíkur tangi, sem Brynjúlfur kveðst hafa sjeð og kemur heim
við lýsinguna í sögunni að öðru leyti en því, hvert þaðan deilir vötn-
um; „en fyrir norðan þau vötn, sem jeg hjer hefi nefnt, falla öll vötn
norður“, segir hann enn fremur.
í þeirri för, er við Jón Ásbjörnsson fórum 1936, varð því ekki
komið við, að við færum norður um Tvídægru til að leita nyrðra
vígisins, enda var mest um vert að finna hið syðra, því að þar varð
bardaginn, þar gerðust heiðarvíg. Æskilegt væri þó að gera frekari
tilraun en hingað til hefir verið gerð til að finna nyrðra vígið. Verður
nú brátt auðveldara að gera slíkar athuganir á heiðinni og vötnunum
þar, er gerðir hafa verið nákvæmir uppdrættr af henni og þeim;
verður þess nú ekki lengi að bíða hjer eftir.
M. Þ.