Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1937, Blaðsíða 89
89
hafa haft ríkt í huga, er þeir völdu sjer bæjarstæði: lækur er þar
enginn nær en í rúmra 100 faðma fjarlægð. Reyndar er lind neðan-
vert í túninu, en hún mun þrjóta í miklum þurkum.
Það er víst, að um miðja 15. öld hefur verið kallað Þórunnar-
holt þar, sem nú heitir Brennistaðir, og töluvert svæði þar um kring.
í máldaga Norðtungukirkju frá 1460—70 segir, að kirkjan í Norð-
tungu eigi „tveggja mánaða beit í Þórunnarholti sauðfje á veturinn.
Hrís öll í Þórunnarholti í millum gatna“. Sjest á þessu, að um nokkuð
stórt landsvæði er að ræða, þar sem mörgu sauðf je er þar ætluð tveggja
mánaða vetrarbeit, sem ítak í landið, en slík beitarítök voru oftast
þannig, að þau voru ekki nema lítill hluti af allri beit, er á land-
svæði því mátti hafa, sem ítakið var í. Þetta svæði er ekki hægt að
ákveða, en sennilegt er, að það hafi verið mýrasundin og ásarnir
upp frá Þverá og upp með Litlu-Þverá og vestan-megin Hamarslækj-
ar, en sá lækur er nú merkjalækur milli Hamars og Arnbjargarlækj-
ar og rennur skammt frá Brennistöðum, sami lækur og áður var
minnzt á. Skógarhöggssvæðið er aptur á móti nokkuð greinilega af-
markað. Götur þær, sem átt er við í máldaganum, hljóta að vera göt-
ur þær, er skiptast nokkuð fyrir innan Arnbjargarlæk og eru kall-
aðar Hamarsgata og Norðtungugata, er liggur sunnar og um túnið
á Brennistöðum. Mynda götur þessar þríhyrning þar í ásunum, og
verður ein hlið hans Hamarslækur, því að sennilegt er, að við þann
læk hafi verið takmörk Þórunnarholts, að minnsta kosti eftir að Hamar
byggðist. Um aðrar götur en þessar gat ekki verið að ræða, og sýnir
þetta, að Brennistaðir sjálfir og svæðið þar um kring, fyrir norðan,
vestan og austan, sem enn er mjög skógi vaxið, hefur þá verið kallað
Þórunnarholt, og að þá hefur engin byggð verið á Brennistöðum. Engar
sannfærandi líkur treysti jeg mjer að færa fram fyrir nafnabreyting-
unni, sem orðið hefur á bæ Þórunnar, en ekki hefur hún orðið fyr en
seint á 15. öld, og bærinn þá kominn í eyði, því að ólíklegt er, að hann
hafi heitið annað en svæðið umhverfis. Gæti hugsazt, að nafnið væri
dregið af skógarviðnum, brenni (= eldivið).
Það er enginn vafi á því, að land Þórunnar hefur náð suður til
Þverár og þar að, sem Þórunnarhylur er, en hann hefur jafnan verið
einn allra bezti veiðihylur í ánni. Hefur hún haft þar laxveiði, og
því er hylurinn við hana kenndur.
Þá er sagt, að Þórunn hafi átt land ofan til Víðilækjar, og
hefur það jafnan verið álitið, að lækur sá hlyti að vera einhver
þeirra lækja, er renna í Þverá sunnan Arnbjargarlækjar, og þá ann-
að hvort „Keldan“ (Neðraness-lækur) eða „Landbrotið“. Enginn hef-
ur samt heyrt nafn þetta á lækjum þessum, og víðivöxtur er þar eng-