Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1978, Blaðsíða 130
132
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
ráð sem fengin voru úr náttúrunni. Þetta er nú ekki allskostar rétt, enda þótt
vitnað sé í Sýslulýsingar frá því um miðja 18. öld, því að allt fram á þennan
dag hafa verið til grasalæknar víða um land, og eru hinir frægustu þeirra lík-
lega af tiltekinni ætt í Vesturskaftafellssýslu. En þau hafa líklega fengist meir
við lækningar á fólki.
Þá vil ég ekki fallast á það með öllu, að ráð Jesú Krists, sem getið er um á
bls. 159, þurfi að hafa verið bábilja. En svo segir í Jóhannesarguðspjalli: „Þá
er hann hafði þetta sagt, hrækti hann á jörðina, gjörði leðju úr hrákanum og
reið leðjunni á auga hans.“ Er. nú ekki hugsanlegt, að það hafi verið einhver
efni í jarðveginum, sem komið gátu að haldi?
Á bls. 310 segir: „Þó að ýmsir prestar og menntaðir leikmenn hafi þýtt sér-
kennileg dýralækningaráð úr erlendum ritum á íslensku, er enginn vitnisburður
um, að bændur hafi haft handrit þeirra til leiðbeiningar um læknisráð fyrir
iiross.“ Við þetta vildi ég gera þá athugasemd, að þögn heimilda sannar aldrei
neitt en það er a.m.k. spurning, hversvegna þó er þetta mikið til af uppskriftum
þessara þýðinga, ef þær hafa ekki verið notaðar.
Þá er aftur komið að atriðum, þar sem vikið er að frumtrúarbrögðum og
þjóðtrú eða reynslu. Þar segir t.d. svo á bls. 1:
„Fræðimenn cru sammála um, að dýralækningafræði Norðurálfubúa hafi átt
upptök sín í Egyptalandi og breiðst út baðan til Vestur-Asíu og Grikklands.
Þótt blóðtakan ætti án efa rætur í frumtrúarbrögðum og göldrum, varð aðferðin
smám saman snar þáttur hinnar grísku læknis- og dýralækningafræði. Um það
bil 500—450 f.Kr. hafnaði Hippokrates læknir trúnni um yfirnáttúrlegar or-
sakir sjúkdóma í mönnum og skepnum og tók að leita orsaka þeirra í sjálfri
náttúrunni."
Nú vil ég varpa fram þeirri spurningu, hvað eru frumtrúarbrögð? Er það
upphaflega nokkuð annað en viðleitni mannsins til að gera sér náttúruna undir-
gefna eða laga sig að henni? Getur ekki verið, að í þessum læknisráðum Egypta
hafi verið fólgin einhver reynsla?
Og svo er það önnur staðhæfing í þessari klausu, sem ég vil leyfa mér að
draga í efa, þótt það nálgist kannski helgispjöll. En það er þessi sífelldi
söngur, sem kveðið hefur við síðastliðin 2000 ár, um að nánast öll okkar menn-
ing hér á norðurslóðum hafi borist okkur frá miðjarðarhafslöndum og fyrst
og fremst frá Grikklandi og Róm.
Það er alkunna, að stórveldi reyna ekki aðeins að þröngva sinni menningu
uppá smærri þjóðir, heldur reyna þau líka að láta líta svo út í opinberum
heimildum sem allt jákvætt í menningu undirþjóðarinnar sé frá stórveldinu
komið. Grikkland var á sínum tíma stórveldi, Róm var stórveldi og katólska
kirkjan var stói-veldi.
En er nú ekki hugsanlegt, að við t.d. hér á Norðurlöndum höfum haft gáfur
og hæfileika til að finna eitthvað út af eigin rammleik. Og jafnvel að við vær-
um ekkert verr stödd menningarlega, þótt við hefðum aldrei orðið fyrir þessum
straumum að sunnan. Út af fyrir sig er ég mjög efagjam á kenningar um
menningarstrauma og erlendar fyrinnyndir. Ég álít fullt eins líklegt, að áþekk
fyrirbæri geti sprottið upp óháð hvert öðru á ýmsum stöðum, einungis ef nátt-
úrlegar ytri aðstæður eru svipaðar. A.m.k. tel ég ekki rétt að gleypa endalaust
við þessum staðhæfingum einsog heilögum sannleik án þess að hrukka a.m.k.
ennið.