Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags - 01.04.1881, Side 41
þrýsta hægt á kvið fisks, sem kominn var að goti, svo
að hrognin færu út, og taka svo strax á eptir svilfisk,
og láta fara úr honum svo mikið af svilamjólk á hrogn-
in, að mjólkurlitur kæmi á vatnið. Svo fór hann með
hrogn og fiskunga, eins og hann gat bezt tekið eptir,
að þeir hefði aðbúnað og viðurværi í fljótunum, og
alt þetta heppnaðist fyrir honum. Jacobi átti heima í
konungsríkinu Hannóver; en þó að tilraunir þessar
tækjust vel, og einstöku menn notuðuþær og færu að
klekja út fiska, þá gáfu menn þessu ekki gaum, og
hin mikilvæga uppgötvun gleymdist eptir því sem
fram liðu stundir, og það enda þótt skýrt væri frá
uppgötvun þessari í ritum.
Árið 1837 gjörði Englendingurinn Shaw tilraunir
á líkan hátt, og heppnuðust þær vel, og árið 1841
gat annar Englendingur, Boccius að nafni, komið upp
eða klakið út 120,000 silungum, sem allir voru látnir
í stöðuvatn eitt.
Enn meiri eptirtekt veittu menn samt því, að um
sama leyti reyndi ómenntaður fiskimaður Jósep Remy
í Frakklandi við Vogesafjöllin slíkt hið sama, og fann
það sjálfur, án þess hann hefði um það lesið eða heyrt
aðra um það tala. En þó að Remy væri ólærður mað-
ur, var hann mjög greindur og aðgætinn. Hann tók
eptir því, að silungarnir í fjallalækjunum fækkuðu ár
frá ári; atvinnan fyrir hann sem fiskimann rýrnaði, og
þessvegna fór hann að rannsaka, hvers vegna þetta
væri svo, og hvort ekki yrði úr því ráðið. Hann vissi,
að silungarnir í nóvembermánuði fara upp eptir fljót-
inu og á lygnustu staðina, til þess að hrygna. Svo
sá hann, að þeir aptur og aptur rendu kviðnum upp
eptir malarbotninum, og með apturhlutanum ýttu möl-
inni til hliðar og mynduðu með barmi þessum eins kon-
ar virki á móti straumnum. Svo tók hann eptir því,
að fiskarnir lögðu hrogn sín í glufur þessar, og að