Eimreiðin - 01.01.1908, Blaðsíða 53
53
hvernig hann fer aö komast að slíkri niðurstöðu, þar sem þessi
tillög aðeins ber að skoða sém vexti af höfuðstól, sem ekkert
heíir verið afborgað af. Auðvitað geta vextir á löngum tíma
numið að samtöldu eins miklu eða margfalt meiru en sjálfur höf-
uðstóllinn; en engum heilvita manni dettur þó í hug að halda
því fram, að búið sé að greíða höfuðstólinn, þó menn hafi staðið
í skilum með vextina.
I fljótu bragði getur svo virzt, sem herra Orluf hafi rétt fyrir
sér, er hann kallar það ranghermi í riti Einars Hjörleifssonar
»Frjálst sambandsland«, að þar sé um nákvæmlega sömu stefnu
að ræða eins og 1851, með því að framar í því riti er minst á
hærri fjárkröfur og sérstakan fána og sérstaka konsúla, sem ekki
var farið fram á 1851. En hér er þó í raun og veru ekki um
neitt ranghermi að ræða. Orðin »þetta er nákvæmlega sama
stefnan, sem haldið var 1851« verða sem sé eingöngu að miðast
við þá ákveðnu stefnuskrá, sem sett er fram rétt á undan þess-
um orðum (bls. 85—86, í dönsku útgáfunni bls. 76—78), og þar
er hvorki tiltekin nein fjárupphæð, né minst á sérstakan fána né
sérstaka konsúla. Þar er það tekið fram, að það sé samnings-
atriði, hver mál vér felum Dönum, og sama var líka tekið fram
1851, þótt þá væri um leið gengið út frá því, að fáninn yrði sam-
eiginlegur. Par er það líka tekið skýrt fram, »að sjálfsagt sé, að
Danir fái endurgoldinn þann kostnað, sem þeir hafa við það að
reka erindi vor, hvort þau eru nú utanríkismál, strandvarnir eða
annað«, og er því einnig í þessu efni fult samræmi við þá stefnu
þjóðfundarins 1851, að Island skyldi greiða tillag til þeirra al-
mennu ríkisþarfa, er það ætti þátt í.
Allar hnútur og ónot í grein herra Orlufs skulum vér láta
eiga sig, þótt vandalaust væri að gjalda honum í líkri mynt. En
í slíku alvörumáli sem þessu álítum vér að bláberar röksemdir
eigi betur við en hnippingar eða hnútukast, er lítt miða til að
greiða fyrir góðu samkomulagi milli Dana og Islendinga, sem þó
væri ekki vanþörf á um þessar mundir. V. G.