Morgunblaðið - 23.01.2001, Síða 28
ERLENT
28 ÞRIÐJUDAGUR 23. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
„ÉG svaf afbragðsvel,“ sagði Ge-
orge W. Bush á sunnudag, eftir að
hafa varið fyrstu nóttinni í Hvíta
húsinu í Washington. Það er óhætt
að segja að helgin hafi verið anna-
söm hjá hinum nýja forseta Banda-
ríkjanna. Bush sór embættiseið á
hádegi á laugardag, sótti að því
búnu níu veislur og dansleiki, og
tók á sunnudag á móti gestum í
Hvíta húsinu – sem hafði tekið
nokkrum breytingum á þeim sólar-
hring sem liðinn var frá því Bill
Clinton flutti út.
Embættistakan fór að venju
fram á tröppum þinghússins í
Washington, en þrátt fyrir rign-
ingu og kuldalegt veður hafnaði
Bush því að athöfnin yrði færð inn í
þinghúsið. Bush hafði embættiseið-
inn eftir William Rehnquist, for-
seta hæstaréttar, og studdi hönd á
Biblíu frá árinu 1767, þá sömu og
faðir hans sór embættiseið við fyrir
tólf árum. Að embættistökunni lok-
inni faðmaði forsetinn eiginkonu
sína, Lauru, og kyssti dæturnar
tvær, Jennu og Barböru. Meðal
þeirra sem fylgdust með á tröpp-
unum voru George Bush eldri, sem
gegndi forsetaembætti frá 1989 til
1993, Bill Clinton, fráfarandi for-
seti, og Al Gore, fráfarandi vara-
forseti og keppinautur Bush í for-
setakosningunum.
Táraðist við flutning
innsetningarræðunnar
„Það er mér heiður og vekur
með mér auðmýkt að standa hér,
þar sem svo margir leiðtogar
Bandaríkjanna hafa staðið á undan
mér og svo margir munu fylgja á
eftir,“ sagði Bush í innsetningar-
ræðu sinni, sem bar merki þeirrar
„umhyggjusömu íhaldsstefnu“ sem
hann boðaði í kosningabaráttunni.
„Ríkisstjórnin ber mikla ábyrgð, á
öryggis- og heilbrigðismálum, á því
að einstaklingsréttindi og almenn
menntun séu tryggð. En umhyggja
er þrátt fyrir það í verkahring allr-
ar þjóðarinnar, ekki aðeins stjórn-
valda,“ sagði Bush, og lagði
áherslu á að trúfélög og líknar-
stofnanir hefðu
einnig hlutverki
að gegna í vel-
ferðarmálum.
Bush hét því
að tryggja varnir
landsins og gaf
til kynna að
Bandaríkin yrðu
eftir sem áður at-
kvæðamikil á al-
þjóðavettvangi.
„Óvinir frelsisins
og þjóðar okkar
þurfa ekki að
velkjast í vafa
um að Bandarík-
in munu áfram
hafa áhrif á þró-
un mála í heiminum ... Við munum
verja bandamenn okkar og hags-
muni. Við munum sýna stefnufestu
án hroka. Við munum svara árás-
um og svikum með festu og styrk.“
Forsetinn óskaði þess að borg-
ararnir væru virkir þátttakendur í
samfélaginu. „Ég bið ykkur um að
vera samborgarar. Samborgarar,
en ekki áhorfendur. Samborgarar,
en ekki þegnar.“
Að sögn The New York Times
táraðist Bush tvisvar á meðan
hann flutti ræðuna, en hann þurfti
14 sinnum að gera hlé á flutningn-
um vegna lófaklapps.
Sóttu níu dansleiki
Strax að innsetningarathöfninni
lokinni innti forsetinn fyrstu emb-
ættisverk sín af hendi, en hann gaf
meðal annars út tilskipanir um
endurskoðun og frestun gildistöku
nokkurra af síðustu reglugerðum
Clinton-stjórnarinnar.
Bush hélt þvínæst til hádegis-
verðar með helstu leiðtogum
Bandaríkjaþings. Í ávarpi sínu þar
viðurkenndi hann að vegna þess
hve mjótt var á munum í kosning-
unum teldu margir að stjórn hans
yrði ekki mikið framgengt á kjör-
tímabilinu. „En ég er hingað kom-
inn til að færa þjóðinni þau skila-
boð að málum verður hrint í
framkvæmd,“ sagði Bush.
Forsetahjónin sóttu níu dans-
leiki í tilefni embættistökunnar á
laugardag, og bandarískum fjöl-
miðlum taldist til að þau hefðu að
meðaltali dansað í 48 sekúndur á
hverjum stað. Bush gantaðist með
þetta við fréttamenn á sunnudags-
morgun og sagðist vera „úrvinda
eftir að hafa dansað svo mikið“.
Þrátt fyrir að Bush sé heimavan-
ur í Hvíta húsinu, eftir að faðir
hans gegndi forsetaembætti um
fjögurra ára skeið, fékk hann leið-
sögn um húsið á sunnudag. Ef til
vill er ekki vanþörf á, því í húsinu
eru hvorki meira né minna en 132
herbergi. Síðar um daginn sýndi
Bush 2.200 gestum Hvíta húsið, en
venja er að nýr forseti geri það
daginn eftir embættistökuna.
Breytingar gerðar
á forsetaskrifstofunni
Nýir forsetar reyna iðulega að
setja svip sinn á innviði Hvíta
hússins, og eru Bush-hjónin engin
undantekning.
Aðeins sólarhring eftir að Bill
Clinton flutti á brott með sitt
hafurtask var búið að fjarlægja
dökkbláu mottuna, sem prýddi for-
setaskrifstofuna í valdatíð hans, og
ljósbrúna teppið frá árum Ronalds
Reagans var komið í staðinn. Clin-
ton hafði röndótta silkisófa í skrif-
stofunni, en Bush valdi tvo íburð-
arminni rjómalita sófa í þeirra
stað. Brjóstmyndir af demókrata-
forsetunum Franklin D. Roosevelt
og Harry S. Truman eru einnig á
bak og burt, en strax á sunnudag
var búið að stilla upp innrammaðri
mynd af embættistöku Bush.
Sömuleiðis var búið að koma fyrir
árituðum hornaboltum, minjagrip-
um frá Texas og myndum af for-
eldrum forsetans, eiginkonu og
dætrum.
Nýi forsetinn mun þó notast við
sama skrifborð og forveri hans, en
forsetinn Rutherford Hayes fékk
það að gjöf frá Viktoríu Englands-
drottningu árið 1880. Þess má geta
að fræg mynd var tekin af John F.
Kennedy yngri, þar sem hann leik-
ur sér undir borðinu á meðan faðir
hans sinnir embættisverkum.
Laura Bush mun hafa umsjón
með breytingum á vistarverum for-
setahjónanna, en að hennar sögn
verða þær ekki umfangsmiklar þar
sem herbergin voru gerð upp fyrir
skömmu.
Að sögn Andrew Card, starfs-
mannastjóra Hvíta hússins, mun
Bush helga fyrstu viku sína í emb-
ætti umræðum um menntamál, en
forsetinn átti í gær fundi með leið-
togum repúblikana í þinginu, þar
sem hann kynnti stefnu sína þar að
lútandi. Í næstu viku mun Bush
einbeita sér að því að kynna til-
lögur sínar um að einstaklingar og
trúfélög verði hvött til að taka að
sér góðgerðarstörf, sem að öðrum
kosti myndu vera á höndum stjórn-
valda, og þriðju viku sína í embætti
mun hann helga áformum stjórn-
arinnar um skattalækkanir.
Card sagði ennfremur að líklegt
væri að fyrsta opinbera heimsókn
Bush verði til Mexíkó í næsta mán-
uði. Auk þess er búist við að forset-
inn fari til Kanada í apríl.
George W. Bush, 43. forseti Bandaríkjanna, sver embættiseið í höfuðborginni Washington
„Svaf afbragðsvel“
fyrstu nóttina
George W. Bush sver embættiseið.
Forsetahjónin taka sveiflu á einum innsetningardansleiknum.
Bush-feðgarnir takast í hendur eftir embættistökuna.
AP
AÐ lokinni embættistöku George W.
Bush á laugardag héldu Bill Clinton
og Hillary eiginkona hans til nýs
heimilis síns í Chappaqua í New
York-ríki. En forsetinn fyrrverandi
yfirgaf ekki Washington þegjandi og
hljóðalaust.
Áður en Clinton steig upp í flugvél
sína á Andrews-herflugvellinum hélt
hann ávarp að viðstöddum stuðn-
ingsmönnum og fjölmiðlafólki. Hing-
að til hafa fráfarandi forsetar hins
vegar látið lítið fyrir sér fara fyrst
eftir að þeir láta af embætti.
„Ég hef yfirgefið Hvíta húsið, en
ég er enn í fullu fjöri,“ sagði Clinton í
ávarpi sínu, sem hann flutti í þétt-
skipuðu flugskýli. „Þið veittuð mér
bestu stundir lífs míns og ég reyndi
að endurgjalda það.“ Clinton óskaði
George W. Bush velfarnaðar í starfi,
en lét jafnframt í ljós nokkurn sökn-
uð. „Því verkefni að stjórna landinu
lýkur aldrei og enginn fær heldur að
gegna því starfi endalaust.“
Svaf út á sunnudag
Um 2.000 stuðningsmenn forset-
ans fyrrverandi tóku á móti Clinton-
hjónunum er þau lentu á John F.
Kennedy-flugvellinum í New York
síðdegis á laugardag.
Að sögn The New York Times
naut Clinton þess á sunnudag að
geta sofið út og að þurfa ekki að lesa
dagblöðin og fylgjast með pólitískum
umræðuþáttum í sjónvarpinu. Eins
og hver annar óbreyttur borgari fór
hann ásamt Chelsea dóttur sinni á
matstofu í Chappaqua og keypti
kaffi og bakkelsi til að taka með
heim.
Clinton var hinn afslappaðasti og
stoppaði til að gefa eiginhandarárit-
anir og svara spurningum frétta-
manna. Hann kvaðst ætla að nota
næstu vikur til að hvíla sig vel, koma
sér fyrir á nýja heimilinu og hugleiða
bókaskrif og önnur störf.
Hillary Clinton sneri aftur til
Washington í gær til að taka sæti á
þingi, en eins og kunnugt er var hún
kjörin til setu í öldungadeildinni fyr-
ir New York-ríki. Fjölskyldan mun
þó taka sér frí saman í byrjun febrú-
ar, þegar hlé verður gert á þingstörf-
um.
Samkvæmt venju notaði Clinton
heimild forseta til að veita nokkrum
fjölda brotamanna sakaruppgjöf á
síðasta degi sínum í embætti.
Umdeildar náðanir
Meðal þeirra 140 sem hlutu sak-
aruppgjöf voru Susan McDougal,
fyrrverandi viðskiptafélagi Clinton-
hjónanna sem var sakfelld fyrir fjár-
svik í Whitewater-málinu svokallaða,
og Patty Hearst, dóttir auðkýfings-
ins Williams Randolphs Hearst, sem
gekk til liðs við hryðjuverkahóp eftir
að henni var rænt á 8. áratugnum.
Hearst var árið 1975 dæmd til sjö
ára fangelsisvistar fyrir þátttöku í
bankaráni, en Jimmy Carter veitti
henni lausn úr fangelsi árið 1979.
Clinton náðaði einnig bróður sinn,
Roger, sem hlaut dóm í fíkniefnamáli
árið 1984.
Sakaruppgjöf Marc Rich hefur
vakið mesta gagnrýni, en hann var
ákærður árið 1983 fyrir mestu skatt-
svik sem uppvíst hefur orðið um í
Bandaríkjunum. Rich flúði til Sviss
og hefur aldrei komið fyrir dóm, en
hann hefur haldið áfram að auðgast
og hefur varið milljónum dollara til
góðgerðarmála.
Athygli vakti að Clinton náðaði
ekki nokkra menn, sem líklegt þótti
að fengju sakaruppgjöf. Þeirra á
meðal eru Michael Milken, sem hlaut
dóm fyrir verðbréfasvik, Webster
Hubbel, sem starfaði með Hillary
Clinton á Rose-lögmannsstofunni í
Little Rock, og James McDougal,
fyrrverandi eiginmaður Susan
McDougal, sem var sakfelldur í
sama réttarhaldi en lést á meðan
hann afplánaði fangelsisvist.
Clinton varði sakaruppgjafirnar í
samtali við fréttamenn á sunnudag.
„[Með sakaruppgjöf] er ekki verið að
segja að þetta fólk hafi ekki framið
lögbrot, heldur að það hafi tekið út
refsingu sína og sýnt fram á að það
sé nýtir borgarar. Það ætti því að
hljóta tækifæri til að fá full borgara-
réttindi á ný,“ sagði Clinton, en í
vissum tilvikum missa brotamenn í
Bandaríkjunum kosningarétt.
Bill Clinton yfirgefur Washington og flytur til New York eftir átta ár í forsetaembættinu
Óskaði Bush
velfarnaðar
í starfi
AP
Bill Clinton, fyrrverandi forseti, heilsar stuðningsmönnum sínum sem
fögnuðu honum á John F. Kennedy-flugvelli í New York á laugardag.