Morgunblaðið - 10.02.2001, Qupperneq 6
FRÉTTIR
6 LAUGARDAGUR 10. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
ATHUGUN breskra yfirvalda hefur
leitt í ljós að ekki hefur verið flutt inn
kjöt- og beinamjöl til Íslands á ár-
unum 1988-1996, eins og hugsanlegt
var talið. Halldór Runólfsson yfir-
dýralæknir segir að athugunin hafi
leitt í ljós að hér sé að öllum líkindum
um þurrkað gæludýrafóður að ræða
sem hafi verið skráð undir röngu
tollaflokkanúmeri. Útilokað er að um
nautshúðir hafi verið að ræða þar
sem þær eru í allt öðrum tollaflokki
auk þess sem sá innflutningur mun
hafa lagst af 1993-1994.
Bresk tollayfirvöld hafa farið fram
á vikufrest til þess að skoða skjala-
safn sitt til að finna út hvaða vara
þetta er og hvaða fyrirtæki hafi flutt
hana út. Ekki er vitað til þess að kúa-
riða smitist í gæludýr í gegnum
mengað fóður. Hins vegar er dæmi
um að dýr af kattarkyni í dýragörð-
um hafi smitast.
Gæludýrafóð-
ur flutt inn
frá Bretlandi
HALLDÓR Björnsson, formaður
Starfsgreinasambands Íslands, seg-
ir það mat formanns Verslunar-
mannafélags Reykjavíkur, VR, ekki
hafa komið sér á óvart að forsendur
kjarasamninga héldu miðað við nú-
verandi verðbólguþróun, líkt og
greint var frá í Morgunblaðinu í gær.
Halldór bendir á að í samningum VR
væri eingöngu miðað við verðbólgu,
ekki við aðra þætti líkt og kostnaðar-
viðmiðun af öðrum samningum á
vinnumarkaði.
Halldór sagði Starfsgreinasam-
bandið og fleiri aðila, m.a. Flóa-
bandalagið, hafa skrifað bréf til end-
urskoðunarnefndar kjarasamninga,
sem skipuð er af Samtökum atvinnu-
lífsins og Alþýðusambandinu. Þar er
óskað sérstaklega eftir því að þróun
verðbólgu og gerð annarra kjara-
samninga verði skoðað gaumgæfi-
lega. Þannig er spurt hvort það
stæðist að verðbólga hafi minnkað.
Halldór sagði að með kostnaði
vegna lífeyrissjóðsgreiðslna í ný-
gerðum kjarasamningum væru for-
sendur samninga á almennum vinnu-
markaði brostnar. Hann sagðist ekki
sjá aðra niðurstöðu en líklega verði
deilt um þetta í endurskoðunarnefnd
SA og ASÍ. Halldór sagði að ef
launalið samninganna verði sagt upp
þá þurfi hvert aðildarfélag Starfs-
greinasambandsins, sem eru um 40
að tölu, að gera það fyrir sig.
Rannveig Sigurðardóttir, hag-
fræðingur ASÍ, sem á sæti í endur-
skoðunarnefndinni, vildi í gær ekki
tjá sig um það mat formanns VR að
forsendur samninga héldu, miðað við
verðbólguþróun. Hún sagði að
nefndin myndi bíða eftir næstu verð-
bólgumælingu og eftir helgi yrðu
bréf Starfsgreinasambandsins og
Flóabandalagsins tekin fyrir.
Formaður Starfsgreinasambandsins um forsendur kjarasamninga
Mat VR kemur
ekki á óvart
EMIL Magnússon,
fyrrverandi kaupmað-
ur í Grundarfirði, lést á
Hrafnistu í Hafnarfirði
á fimmtudaginn var á
áttugasta aldursári.
Emil var fæddur á
Reyðarfirði 25. júlí árið
1921. Foreldrar hans
voru hjónin Magnús
Guðmundsson verslun-
armaður þar og Rósa
Sigurðardóttir en móð-
ur sína missti hann
barn að aldri. Emil ólst
upp á Reyðarfirði til
unglingsára en fór þá
til sjós áður en hann settist á skóla-
bekk í Verslunarskólanum þaðan
sem hann lauk prófi vorið 1942.
Emil bjó á Þórshöfn frá 1945-52
þegar hann fluttist til Grundarfjarð-
ar. Fljótlega eftir það stofnaði hann í
samvinnu við aðra verslunarfélagið
Grund sem rak alhliða verslun, slát-
urhús og fleira í byggðalaginu allt til
ársins 1980 er hann lét
af störfum og fluttist
suður.
Emil starfaði tölu-
vert að félagsmálum í
Grundarfirði. Hann var
stofnandi og fyrsti for-
maður sjálfstæðis-
félagsins í Grundarfirði
og sat í sveitarstjórn
um tíma. Hann sat auk
þess í flokksráði Sjálf-
stæðisflokksins. Þá var
hann stofnandi og
fyrsti formaður stjórn-
ar Sparisjóðs Eyrar-
sveitar í Grundarfirði.
Eftirlifandi eiginkona Emils er
Ágústa Árnadóttir. Eignuðust þau
sjö börn og eru sex þeirra á lífi.
Emil var fréttaritari Morgun-
blaðsins um áratugaskeið. Morgun-
blaðið þakkar honum samstarfið og
samfylgdina á langri leið og sendir
eiginkonu, börnum og öðrum að-
standendum samúðarkveðjur.
Andlát
EMIL
MAGNÚSSON
BRYNJA María Ólafsdóttir, 17 ára
stúlka frá Ísafirði, þakkar bílbeltum
líf sitt þegar hún missti bíl sinn út af
Óshlíðarvegi á þriðjudag. Bíllinn
hafnaði í stórgrýttu fjöruborði 20
metra neðan vegar og er gjörónýtur.
Brynju Maríu tókst að komast af
sjálfsdáðum út úr bílnum og upp á
veginn þar sem hún stöðvaði öku-
mann aðvífandi bíls sem ók henni
beint á Sjúkrahúsið á Ísafirði. Hún
dvaldi tvær nætur á sjúkrahúsinu,
en er nú komin heim til sín og hvílir
sig. Í slysinu brákaðist hryggjarliður
í baki Brynju Maríu auk þess sem
hún er skrámuð og marin.
Slysið varð skömmu eftir hádegi á
þriðjudag, þegar Brynja var á leið til
Ísafjarðar frá Bolungarvík. „Það var
hálka á veginum og skyndilega fór
bíllinn að dansa, þrátt fyrir að ég
væri á lítilli ferð,“ segir Brynja
María. „Bíllinn rakst síðan á ljósta-
staur og valt niður í fjöru.“
Samkvæmt upplýsingum frá lög-
reglunni á Bolungarvík lét staurinn
undan þunga bifreiðarinnar og
steyptust bæði bifreiðin og staurinn
niður snarbratta hlíðina. „Slysið er
allt í móðu fyrir mér, en ég man eftir
því þegar ég komst upp á veginn aft-
ur. Ég var í losti og mjög hrædd, en
gat stöðvað bíl frá Vegagerðinni. Þá
hafði ég rétt misst af öðrum bíl sem
ég horfði á eftir inn til Ísafjarðar.“
Brynja María segir engan vafa
leika á mikilvægi bílbeltanna í slys-
um sem þessum og hún þakkar notk-
un þeirra líf sitt. „Beltin hafa greini-
lega bjargað lífi mínu,“ segir hún.
„Ég er með sár á maganum eftir bíl-
beltið og þakka fyrir að ég skyldi
vera í beltunum. Ég vandi mig á
notkun beltanna strax og ég fékk bíl-
próf og mun ekki víkja frá þeirri
reglu héðan í frá.“
Brynja María hyggst nú hvíla sig
vel og ná heilsu á ný. „Ég vona að
mér batni sem fyrst svo ég geti kom-
ist á ról á ný. Ég er ekki vön því að
liggja aðgerðalaus enda er ég mikill
orkubolti. Ég er í íþróttum og vinn
mikið, auk þess sem ég er í öðrum
bekk Menntaskólans á Ísafirði og
umgengst stóran hóp vina.“
„Beltin hafa greinilega
bjargað lífi mínu“
MYND Kristínar Bogadóttur, Medea, bar sigur
úr býtum í Ljósmyndasamkeppni Reykjavíkur –
menningarborgar, Morgunblaðsins og Hans Pet-
ersens sem haldin var í tilefni af menningarárinu
2000. Úrslitin voru gerð heyrinkunn við opnun
sýningar á úrvali ljósmynda, sem bárust í keppn-
ina, í Kringlunni í gær.
Í áliti dómnefndar segir: „Birtan í myndinni er
sérstaklega mögnuð og yfir henni dulúð. Mynd-
byggingin mjög góð. Andstæðir myndfletir kall-
ast á. Undir kyrrlátu yfirbragði myndarinnar
skynjar áhorfandinn spennu á milli persónanna
og stór átök.“ Verðlaun eru flug fyrir tvo og bíll
til Amsterdam.
Önnur verðlaun komu í hlut Emils Þórs Sig-
urðssonar fyrir myndina Sendibréf Erlends í
Unuhúsi opnuð og mynd Eymundar Freys Þór-
arinssonar, Baldur, hafnaði í þriðja sæti. Alls
fékk Emil Þór verðlaun fyrir þrjár myndir og
Eymundur Freyr tvær. Aðrir ljósmyndarar sem
fengu verðlaun voru Rafn Hafnfjörð, Hulda
Skógland, Hallsteinn Magnússon og Arnaldur
Halldórsson.
Í dómnefnd sátu Sigrún Valbergsdóttir frá
M-2000, Ómar Óskarsson frá Morgunblaðinu og
Egill Sigurðsson frá Hans Petersen.
Reykjavík – Menningarborg 2000, Morg-
unblaðið, Hans Petersen og Kringlan standa að
sýningunni, sem lýkur miðvikudaginn 14.
febrúar.
Verðlaunamynd Kristínar Bogadóttur, Medea.
Sigraði í ljósmyndakeppni menningarársins
BJÖRN Bjarnason menntamálaráð-
herra segist margoft áður hafa lýst
þeirri skoðun að breyta eigi rekstr-
arformi Ríkisútvarpsins og gera það
að hlutafélagi í eigu ríkisins. Hann er
jafnframt þeirrar skoðunar að af-
nema beri afnotagjöld og setja RÚV
á fjárlög ríkisins. Guðni Ágústsson
landbúnaðarráðherra, sem hefur
boðið sig fram til varaformennsku í
Framsóknarflokknum, hefur lýst því
yfir að hann vildi leggja niður lög-
bundin afnotagjöld RÚV.
Björn segist fagna því að eiga
bandamann í Guðna Ágústssyni
vegna afnotagjaldanna og væntan-
lega leggi hann því einnig lið að
rekstrarformi RÚV verði breytt á
þann hátt sem allir stjórnendur þess
kjósa, það er í hlutafélag í ríkiseign.
Þess megi vænta, að framsóknar-
menn fjalli um þessi mál á flokks-
þingi sínu þegar einnig verði gengið
til þess að kjósa varaformann. Ráð-
herra segir að nú sé verið að hrinda í
framkvæmd nýjum útvarpslögum og
næsta skref sé að hann leggi fram
frumvarp til breytinga á lögum um
RÚV þegar stjórnarflokkarnir hafi
komist að sameiginlegri niðurstöðu.
Afnám afnotagjalda
Ríkisútvarpsins
Menntamála-
ráðherra tek-
ur undir sjón-
armið Guðna
♦ ♦ ♦