Morgunblaðið - 03.03.2001, Blaðsíða 50

Morgunblaðið - 03.03.2001, Blaðsíða 50
MINNINGAR 50 LAUGARDAGUR 3. MARS 2001 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Kjartan Sig-tryggsson bóndi á Hrauni í Aðaldal fæddist á Jarlsstöð- um í sömu sveit 11. janúar 1904. Hann lést á Heilbrigðis- stofnun Þingeyinga á Húsavík 24. febrúar síðastliðinn. Foreldr- ar hans voru Sigríð- ur Jónína Jónsdóttir, f. 25.5. 1866, d. 28.7. 1922, og Sigtryggur Björnsson, f. 9.4. 1873, d. 4.3. 1940. Systkini Kjartans voru: Þuríður Sigurveig, Björn, Jón og Friðrik, þau eru öll látin. Hinn 27. júlí 1929 kvæntist Kjartan Jónasínu Þorbjörgu Sig- urðardóttur frá Hrauni, f. 28.5.1903, d. 5.8. 1991. Foreldrar hennar voru Kristín Þorgríms- dóttir frá Nesi, f. 23.8. 1870, d. 4.8. 1948, og Sigurður Jónasson í Hrauni, f. 24.9. 1865, d. 4.8. 1946. Börn Kjartans og Jónasínu eru: 1) Hólmgrímur, f. 29.3. 1932, bóndi í Hrauni. Eiginkona hans er Kristbjörg Freydís Steingríms- dóttir, f. 21.9. 1931. Dætur þeirra eru a) Arndís Álfheiður, maki Methúsalem Einarsson. Þeirra dætur eru Elín Dögg og Hólmdís Freyja. b) Harpa Þorbjörg, maki Rafn Stefánsson. Börn þeirra eru Oddný Björg og Stefán Grímur. 2) Kristín, f. 21.2. 1940, maki Trausti Jónsson, f. 3.2. 1941. Börn þeirra eru: a) Kjartan, sam- býliskona hans er Erla Bjarna- dóttir, dóttir þeirra er Kristín. b) Björk, sambýlismaður hennar er Árni Grétar Árnason, þeirra dótt- ir er Kara Rún. Kjartan var bóndi í Hrauni frá árinu 1929–1991. Útför Kjartans fer fram frá Neskirkju í Aðaldal í dag og hefst athöfnin klukkan 13. Kæri Kjartan. Örfá kveðjuorð til þín. Burtför svo aldraðs manns sem þú varst orðinn vekur tilfinningu saknaðar fremur en sorgar, því þú varst búinn að vinna langan starfs- dag og farinn að þrá þá hvíld sem þú nú hefur öðlast. Samt er eigingirni mín svo mikil að ég hefði viljað heyra ennþá fótatakið þitt niður stigann á morgnana. Þú raulaðir oftast lagstúf á leiðinni fram í eldhúsið til mín, það var svo notalegt á að hlýða. Þú leist út um eldhúsgluggann, gáðir til veð- urs og spurðir: „Er þetta góður dag- ur?“ Það er margs að minnast frá því ég fyrst kom í Hraun og til þessa dags og allar eru þær minningar góðar. Við unnum oft saman í utan- bæjarstörfunum eins og eðlilegt er á sveitabæ. Með þér var gott að vinna, þú varst verklaginn og þér vannst vel þótt þú virtist aldrei vera að flýta þér. Vinnan með þér varð skemmtun því þú varst afar fróður og hafðir frá mörgu að segja. Sjaldan komu þó frásagnir óumbeðið. Hvílík ógrynni sem þú kunnir af kveðskap og oftast vissir þú allt um tildrög og tilefni að vísunum og kvæðunum. Minni þitt var trútt, það þurfti ekki að efast um að rétt væri farið með allt sem þú sagðir frá. Þú varst mikill dugnaðar- forkur, sívinnandi, alltaf fannstu næg verkefni og vannst þau frekar sjálfur en kalla aðra til. Á seinni ár- um varð stangveiðin þér hugleikin. Sennilega hefur þér fundist að þá fyrst mættir þú taka þér tíma frá meira aðkallandi störfum. Þú varst fengsæll veiðimaður, lagnin brást þér ekki við veiðarnar fremur en annað sem þú tókst þér fyrir hendur. Margar ánægjustundir áttir þú með veiðistöng á bökkum Laxár, ég minnist þess hve fallega þú kastaðir flugunni jafnvel með gömlu bambus- stönginni sem nú til dags mundi ekki þykja lipurt veiðitæki. Heimilisbrag- urinn hjá ykkur Jónasínu einkennd- ist af glaðværð og hlýju. Mér er minnisstætt hve einlægt og innilega þið fögnuðuð gestum, enda var jafn- an gestkvæmt á heimili ykkar. Þú hlýtur að hafa saknað hennar mikið, en á það minntist þú aldrei. Þér var ekki tamt að bera tilfinningar þínar á torg. Þú varst skapfestumaður en jafnlyndur og dagfarsprúður. Öllum sem kynntust þér þótti vænt um þig, ég minnist þess ekki að hafa heyrt nokkurn mann leggja þér lastyrði. Ævintýri líkastar eru allar þær framfarir og breytingar á lífsháttum og kjörum sem fólk af þinni kynslóð hefur upplifað. Lífsbaráttan fyrrum var hörð og líkamlegt erfiði meira en nútímafólk, vant vélvæðingu og þæg- indum, getur gert sér í hugarlund. Óbugaður komst þú frá því erfiði og kannski var það einmitt það sem efldi þér þrek til að ná níutíu og sjö ára aldri og hafa fótavist þar til tveim mánuðum fyrir andlát þitt. Ég veit að þú hefðir kosið að fá að sofna síðasta blundinn í rúminu þínu heima en slíku ráðum við ekki. Það er hugg- un að vita að þú hlaust góða umönn- un þar sem þú síðast dvaldist. „Ég á gott,“ voru seinustu orðin sem þú sagðir við mig í þessu lífi. Þegar ég lít til baka finnst mér að einmitt þetta jákvæða hugarfar og hversu sáttur þú ætíð varst við kjör þín, um- hverfi þitt og samferðafólk á ævi- skeiðinu hafi einkennt allt þitt líf. Vertu kært kvaddur. Kristbjörg F. Steingrímsdóttir. Vetrarmorgunn. – Litlir fætur trítla kaldan stigann niður í „gamla eldhús“. – Kaffiilmur. – Afi kominn á fætur, hitar upp kaffi frá kvöldinu áður á eldavélinni, hellir í stóran bolla, síðan á undirskálina. Sýpur á. Svart kaffi með miklum sykri. Tekur upp tóbaksdósirnar. Fær sér í nefið. – Miðdagslúr. – „Afi ekki sofna strax, við ætlum að lesa.“ Skriðið með gamla slitna stafrófskverið hans pabba í afaból. Stafir mynda orð, orð setningar. Eftir það fær ekki nokkur bók í bókaskápnum frið. – Vetur. – Mamma og pabbi á þorrablóti. Afi og amma halda lítið þorrablót heima með okkur systrun- um. Sögur, leikir, söngur. Danslög í útvarpinu. Aldnir fætur – ungir fætur. Óli Skans, vínarkrus, polki, vals og ræll. – Vor. – Fyrsta sóleyjan gægist upp úr túninu á leiðinni suður í fjárhúsin. Lítil hönd í hrjúfri vinnulúinni hendi. Jarmur. Skeifa, Botna, Gul- leit, Fönn. Afi þekkir allar ærnar með nafni. Hlaðan með tröppum upp í fjárhúsgarðann. „Minnkar stabbinn minn...“ Afi kemst með stór hneppi. Stuttir handleggir reyna líka að ná svona miklu í fangið. Gefið á garð- ann, sest á garðabandið við hlöðu- dyrnar. Höfum hljótt. Ef til vill rek- ur mórauða hagamúsin, sem býr í veggnum við hrútaspilið, snjáldrið fram úr holunni sinni. Göngum hægt um. Ef til vill er einhver ærin að fara að bera. Ekki styggja féð. – Vor. – Alltaf farið í hólmana á af- mælisdegi ömmu. Afi þekkir alla fuglana og eggin þeirra. Ekki taka of mörg egg. Breiða vel yfir hreiðrin aftur. Amma fær vönd af hófsóleyjum. – Vorkvöld. – Afi á leið suður túnið með stóru þungu flugustöngina. Bambusstöng, heimaútbúin. Það er ljúft að eiga stund á bökkum Lax- ár eftir langan vinnudag. Kannski fást nokkrar bröndur. Aukaatriði. Kvöldið er fagurt og friðsælt. Afi með sína rána í hvorri hendi, fullar af silungi tilbúnum í reyk. Ilmur af reyktum silungi berst frá reykkofanum í sunnangolunni. – Sumar. – Söngur í hverfistein- inum. Afi brýnir ljáinn. Garðurinn sleginn. Langir skárar. Snúið, rifjað, rakað, sett í föng og sæti. Gömlu vinnubrögðin í heiðri höfð. Ilmur af nýslegnu grasi. Afi kemur ótrúlegu magni af heyi í strigapokann. Þétt- troðnum pokanum lyft á bakið, borið í fjós eða fjárhús. Kjarngóð tugga. Afi á hestarakstrarvélinni. Afi á „gamla Fegga“, eina vélknúna far- artækinu sem ég sá hann nokkru sinni stýra. Söngurinn yfirgnæfir vélarhljóðið. Ættjarðarlög. Afi að moka í heyblásarann. Af- þakkar skýrt að ungir handleggir leysi hann af. Ekki fyrr en á níræð- isaldri með semingi þó. Tekur við stjórn á skömmtun úr heyhleðslu- vagninum. Tækninýjung: Matari við heyhleðsluvagninn. „Hvað á langafi nú að gera?“ spyr langafastrákur. – Haust. – Afi að smala í hrauninu. Sporléttur á stíg- vélum eða gúmmískóm. Alltaf hálfhlaupandi. Best að hann fari í Skógarhraunið. Ósérhlífinn. – Hraunsréttardagur. – Afi snemma á fótum. Margt að skipu- leggja. Hann ásamt fleirum búinn að eyða ófáum stundum í að laga gömlu réttarveggina. Hagræða steinum í hleðslu. Bílar – hestar – fólk streymir að. Sumir koma heim á eftir, þiggja kaffi og ræða hvernig féð hafi komið af fjalli. Gestkvæmt hjá afa og ömmu. Dúkað borð í stofunni, kaffi og sæta- brauð. Koníakstár í glasi. Stofan fyllist af glaðværum hlátri og spjalli. Sagðar sögur. Afi segir svo skemmtilega frá. Persónur lifna við í frásögninni. Málrómur og svipbrigði skila sér. Sögur af fólki sem hann hefur verið samtíða. Gamlar sögur – nýjar sög- ur. – Jól. – Bók og rauður vasaklútur í jólapakka afa. Afi tekur mikið í nefið. Gengið í kringum jólatréð. Afi for- söngvari. „Það er svo gaman þegar koma jólin...“ Raddsterkur – lagviss. Afi raular alltaf fyrir munni sér þegar hann kemur niður stigann á morgnana og gengur til náða á kvöldin. Gamlar vísur og hendingar úr ljóðum. Það er eins og hann kunni vísu eða ljóðabrot sem hæfir hverju verki – hverju tilefni. Jafnlyndur, reiðist sjaldan, og þá aðeins ef rík ástæða er til. Hæglátur og hlýr. Æðrulaus og stilltur mætir hann sorginni, sem knýr dyra eftir rúmlega 60 ára hjónaband. Tilfinningar sínar á hann einn með sjálfum sér. Myndir og minningar fylla hug- ann. Leiðir hefur skilið, en eftir stendur þakklæti. Þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samfylgdar afa svo lengi. Megi afi minn hvíla í friði. Arndís Á. Hólmgrímsdóttir. Að eiga góða að er ómetanlegt. Að missa ástvin er óbætanlegt. Að eiga góðar minningar er gulls ígildi. Já, afi minn, minningarnar um þig eru mér fjársjóður. Lítil, dýrmæt minn- ingarbrot um þig sækja á hugann. Ég sé þig fyrir mér fyrir mér við hin ýmsu störf, með hey í poka, silung á rá á leið í reykkofann, með orfið að slá í kringum bæinn eða hrífuna að raka dreif sem þér fannst óþarft að færi til spillis. Eða í eldhúsinu hjá ömmu að drekka svart kaffi með miklum sykri og kenna mér vísur, eða þegar ég sat hjá rúminu þínu þegar þú fékkst þér miðdegisblund- inn og horfði – ekki hlustaði heldur horfði – á þig hrjóta. Eða þorrablóts- kvöldin þegar þið amma höfðuð heimaþorrablót með okkur systrun- um og kennduð okkur að dansa gömlu dansana eftir danslögunum í útvarpinu. Eða hvernig þú söngst „Í Betlehem …“ við jólatréð, eða sýndir okkur hvernig hægt væri að hoppa á rassinum. Eða hvernig þú tókst í nef- ið – og stundum líka í vörina – og varst þá kannski ekkert að hugsa um það hvort afleyðingar þeirrar neyslu sæust framan í þér. Eða hvernig þú sagðir „Já, já Jón minn“ þegar þér leist ekki á blikuna. Með þér kynnt- ist ég líka ýmsum vinnubrögðum sem flestir af minni kynslóð þekkja lítið til. Aldrei man ég eftir að hafa fengið það á tilfinninguna að ég væri að flækjast fyrir þér við störf þín þó ég fylgdi þér stundum fast eftir. Ekki fyrr en ég varð fullorðin. Rúm- lega tvítug, var ég í heimsókn og fór að moka í heyblásarann, þá komst þú, kominn undir áttrætt, ýttir mér í burtu og taldir þetta ekkert kven- mannsverk! En þegar ég vildi nokkr- um árum seinna moka inn heyinu gegn því að þú hefðir auga með árs- gamalli dóttur minni þá gafst þú mér eftir það verk sem þú taldir erfiðara, – að gæta barnsins! Þú vannst öll þín störf af alúð og natni. Það var nú ekki látunum fyrir að fara hjá þér en samt vannst þér vel. Þó gat maður yfirleitt heyrt hvar þú varst að verki því þá raulaðir þú fyrir munni þér. Stundum var það bara eitthvert merkingarlaust humm en stundum líka gamlar vísur og ljóð. Gamlar sóknarvísur, sem ortar höfðu verið um hvern bæ í sveitinni, voru ofar- lega á vinsældalistanum, stundum líka gamanvísur og ljóð sem e.t.v. höfðu verið flutt á einhverrri skemmtun þegar þú varst ungur. Þvílíkt minni! Þú kunnir líka ógrynni af sögum, alvörusögum um alvöru- fólk. Sögum um skrýtna karla og kerlingar sem þú hafðir kynnst á þínum yngri árum eða sem þú hafðir heyrt um. Það var hrein unun að hlusta og horfa á þig segja frá. Þú hermdir eftir málróm og töktum sögupersónunnar og svipbrigðin sem fylgdu voru ekki síðri. En þú sagðir líka frá venjulegu fólki og daglegu lífi þess, sögur af samferða- fólki þínu og ýmsu sem á daga þess hafði drifið. En frásagnir af sjálfum þér voru sjaldgæfari. Þær komu helst ekki nema innt væri eftir. En þannig varst þú bara, lítillátur og gerðir ekki miklar kröfur þér til handa. Ef til vill hafa lífsskilyrði þín í uppvextinum átt þátt í að móta þig á þann veg. Þú fórst ungur að heiman frá foreldrum og systkinum í vist á öðrum bæjum, fyrst til frændfólks en síðan aðra bæi í nágrenninu og sem unglingur einn vetur á Grenivík. Alltaf hélstu samt góðum tengslum við foreldra og systkini. Það er svo margt sem ég vildi hafa vitað betur um þig, spurt meira, skyggnst betur inn í huga þinn, ekki einhverja at- burði, heldur hvernig þér leið, hvað þú hugsaðir, hverjir voru draumar þínir og þrár. Það eru ekki mörg ár síðan ég komst að því að þú hefðir átt hljóðfæri, harmoniku og meira að segja spilað á böllum. Ég sem hafði bara heyrt þig spila á munnhörpu, já og reyndar á hárgreiðu – alveg listi- lega. Sl. sumar spurði ég þig hvað hefði orðið um harmonikkuna. Hún var seld þegar þú hófst búskap. Ung- ur bóndi hefur þurft á öllum sínum fjármunum að halda við upphaf bú- skapar. Ég spurði hvort þú hefðir aldrei velt því fyrir þér að kaupa aðra seinna. „Nei, nei, nei, nei,“ sagðir þú og hristir höfuðið, hleyptir svo í brýrnar eins og þér einum var lagið og horfðir út um gluggann, augnaráðið varð fjarrænt. Ég skrapp eitthvað frá og kom inn skömmu síðar, þú sast enn við borðið og horfðir út, leist síðan á mig og sagðir „Það voru ekki peningar, elsk- an mín, ekki tími.“ Já, það er satt, þá var ekki 40 stunda vinnuvika og Visa-raðgreiðslur til að láta draum- ana rætast. Það eina sem ég man að þú hafir gert sem telja mætti til frí- stundagamans var að skreppa með stöng að ánni, fyrst man ég eftir að þú áttir gamla heimatilbúna bamb- usstöng, þunga og mikla. Ekki gerð- ir þú þó víðreist um landið og spreyttir þig á veiðum í misdýrum laxveiðiám. Við Laxá hafðir þú alið mestallan þinn aldur, fyrst á Jarls- stöðum síðan í Hrauni og áin sú dugði þér alveg. Það gerði ekkert svo mikið þó ekki fengist alltaf fiskur, ró- leg stund við ána á björtu vorkvöldi var nóg, aflinn var bónus. Lífinu öllu mættir þú af einstöku æðruleysi. Þú varst ekki skaplaus en sjaldan sá ég þig reiðast og þá ekki nema ærin ástæða væri til. Ofsakæti var heldur ekki hluti af skapferli þínu en þú kunnir vel að gleðjast í góðra vina hópi. Fjölskylda og vinir var þér alltaf mikls virði og hjóna- band ykkar ömmu einkenndist af al- úð, samheldni og trygglyndi. Er sorgin knúði dyra mættir þú henni af æðruleysi og stillingu. Þú varst sanngjarn og lagðir gott orð með flestum sem þú áttir samleið með en þeim sem gerðu eitthvað á hluta þinn eða þinna eða sýndi af sér ódreng- skap á einhvern hátt vandaðir þú kannski ekki kveðjurnar. Yfirleitt held ég þó að þú hafir áunnið þér vin- semd og virðingu þeirra sem þú hafðir samskipti við. Að búa að skap- ferli eins og þessu tel ég kost og það að vakna syngjandi að morgni og ganga syngjandi til hvílu að kvöldi hlýtur að bera vott um ró og jafn- vægi hugans. Megi sem flestir öðlast slíkt. Þegar ég fylgi þér síðustu skrefin ætla ég að raula í huganum eitthvað af því sem ég var svo vön að heyra frá þér þegar þú komst niður stigann þinn að morgni eða þegar þú gekkst upp að kveldi. Elsku afi minn, hafðu þökk fyrir allt og allt. Hvíldu í friði. Harpa Þorbjörg Hólmgrímsdóttir. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. (V. Briem.) Elsku langafi minn. Upp í hugann koma myndir og minningabrot frá þeim tæpu 28 ár- um sem við áttum saman. Ég var ekki gömul þegar ég fór að fylgja þér í fjárhúsin og fjósið þar sem ég aðstoðaði þig við að fylla hey- pokana og gefa kálfunum. Á meðan raulaðir þú og fórst með vísur sem ég lærði smám saman. Síðan tölti ég á eftir þér milli húsanna og hermdi eftir göngulagi þínu, örlítið hokin og með hendur fyrir aftan bak. Það var líka alltaf mjög sérstakt að fara með þér að smala í hrauninu þar sem þú, hátt á áttræðisaldri, hljópst um hraunið og við hin áttum erfitt með að fylgja þér eftir. Ósjaldan kom ég upp til ykkar langömmu til að skoða í dótakassann ykkar sem meðal annars innihélt leggi og kjálka. Yfirleitt endaði það með því að stofan hjá ykkur var und- irlögð af dýrum og girðingum. Til að bæta í safnið tálgaðir þú út fugla úr ýsubeini sem við létum synda á ímynduðum pollum á stofugólfinu. Þegar ég var orðin eldri og farin að kenna spurðir þú oft hvort það væri ekki erfitt að kenna þessum krakkaormum og síðan kímdir þú. Þegar ég hitti þig síðast fyrir hálf- um mánuði huldir þú kalda fingur mína með höndum þínum og hitaðir mér og upp í hugann komu minn- ingar um það hve oft þú hefðir gert þetta áður. Ósjaldan fylgdi líka vísan sem hefst á orðunum „Kristín litla komdu hér með kalda fingur þína“. Það er erfitt að kveðja og hugsa til þess að ég heyri ekki lengur hægt fótatak þitt þegar þú komst raulandi niður stigann á leið í mat eða kaffi en minningarnar um þig lifa í hjarta mér um ókomna tíð. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (V. Briem.) Elín Dögg. Elsku langafi minn. Það er svo erfitt að þurfa að kveðja. Sérstak- lega þegar það eru svo margar góðar minningar. Minningin um það þegar þú sast hjá mér þegar ég var veik heima og þú fórst með vísur og sagð- ir sögur. Þú labbaðir alla leið upp á loft til mín bara til að vera hjá mér þegar við vorum ein í bænum. Ég man ekki vísurnar eða sögurnar en ég vildi að ég hefði lagt þær betur á minnið. Síðan fækkaði ferðunum í Hraun smátt og smátt eftir því sem ég varð eldri og samverustundirnar urðu færri. Samt var alltaf gott að setjast niður hjá þér við eldhúsborð- ið og horfa á þig drekka kaffið þitt, sérstaklega ef við vorum ein. Þá fórstu með vísur, sagðir frá eða við bara þögðum og horfðum út á hólm- ana. Elsku afi minn, nú er húsið þitt tómt og ég get ekki lengur horft upp í eldhúsgluggann og séð þig brosa til mín þegar ég kem inn úr húsunum. Núna ertu með langömmu og ég vona að þið lítið niður til okkar annað slagið. Hvíldu í friði, langafi minn. Oddný Björg. Langafi. Langafinn sem var svo blíður og hjartahlýr. Þegar ég heils- aði þér þegar við komum til ykkar og þegar við fórum og þú gafst mér þús- undkall og sagðir: ,,Eyddu þessu nú KJARTAN SIGTRYGGSSON
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72
Blaðsíða 73
Blaðsíða 74
Blaðsíða 75
Blaðsíða 76
Blaðsíða 77
Blaðsíða 78
Blaðsíða 79
Blaðsíða 80
Blaðsíða 81
Blaðsíða 82
Blaðsíða 83
Blaðsíða 84

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.