Morgunblaðið - 18.05.2001, Blaðsíða 26
ERLENT
26 FÖSTUDAGUR 18. MAÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
JOHN Prescott varaforsætisráð-
herra lenti í handalögmálum, Tony
Blair forsætisráðherra fékk yfir sig
gríðarlegan reiðilestur frá sam-
býliskonu krabbameinssjúklings,
Jack Straw innanríkisráðherra var
hæddur og smánaður á ráðstefnu
lögreglumanna og William Hague,
leiðtogi Íhaldsflokksins, gafst upp á
að ganga um meðal kjósenda, þegar
reiðir kjósendur kváðu hann í kút-
inn. Og allt gerðist þetta á einum
degi. Í stað þess að birta myndir af
Blair að kynna stefnuskrá flokksins
á forsíðunum í gær birtu blöðin
myndir af reiðum Prescott með
eggjarauðu í hárinu eða liggjandi í
slagsmálum.
Það er heldur betur farið að hitna
í kolunum í kosningabaráttu, sem
ýmsir spáðu að yrði einkar daufleg
og litlaus. Í samtali við morgun-
fréttaþátt BBC4 sagði fyrrverandi
leiðtogi Frjálslynda demókrata-
flokksins, Paddy Ashdown, sem
sjálfur hefur orðið fyrir árás á kosn-
ingaferðalagi, að stjórnmálamenn
og fréttamenn virtust lifa í loftbólu,
sem kjósendur kæmust ekki að.
Atburðirnir nú bæru ekki vitni
um afskiptaleysi, heldur um örvænt-
ingu kjósenda, sem fyndist þeir ekki
komast í tæri við stjórnmálamenn.
Lætur engan eiga
neitt inni hjá sér
Egg og hveiti eru hefðbundin bar-
áttutæki í breskum stjórnmálum,
svo eggjakastið nú var ekkert ein-
stakt. John Prescott hefur löngum
verið þekktur fyrir að láta engan
eiga neitt inni hjá sér. Það kom þó
ýmsum á óvart að hann væri jafn
snöggur upp á lagið og raun bar
vitni í fyrradag þegar mótmælandi
kastaði að honum eggi.
Prescott hafði verið á ferðalagi í
Norður-Wales allan daginn og 50–
60 manna hópur er mótmælti bens-
ínverði og landsbyggðarstefnu
Verkamannaflokksins fylgt honum
allan daginn. Prescott var að ganga
frá bíl og inn í hús og gekk þá eftir
gangstétt, þar sem nokkrir mót-
mælendur höfðu raðað sér upp. Á
sjónvarpsmyndum má sjá hvernig
maður úr hópnum tók upp egg og
braut aftan á höfði ráðherrans, sem
sneri sér þá snarlega við og gaf við-
komandi vænt vinstrihandarhögg.
Mótmælandinn tók líka hraustlega á
móti og hafði næstum Prescott und-
ir, þegar þeir voru skildir.
Á eftir harmaði Prescott atburð-
inn og reyndi ekki að verja gerðir
sínar. Hann hefði fundið höggið og
bleytan úr egginu fannst honum
vera blóð. Hann áleit því að hann
ætti hendur sínar að verja. Prescott
er Verkamannaflokksmaður af
gamla skólanum, ekki jafn fægður
og gljáandi og Blair og er stjórninni
mikill styrkur í samskiptum við
kjósendur, því hans ímynd tengist
gömlu flokksímyndinni.
Á blaðamannafundi í gærmorgun
varði Blair gerðir Prescotts og alveg
síðan atburðurinn spurðist út hefur
líkinga- og boxmál stöðugt verið á
allra vörum í fjölmiðlum. Allir vissu
að Prescott væri sláandi stjórnmála-
maður, en ekki að hann gæti slegið
svona fast. Hague sagði að allir
stjórnmálamenn í kosningabaráttu
væru vanir uppákomum af þessu
tagi og ráð hans til Prescott væri að
kæla sig niður.
Hörmungadagur
Verkamannaflokksins
En það voru fleiri en Prescott
sem áttu slæman dag í fyrradag.
Jack Straw innanríkisráðherra ætl-
aði sér að taka þúsund lögreglu-
menn á ráðstefnu með trompi og
ausa yfir þá tölum og dæmum um
afrekaskrá stjórnarinnar, en mót-
tökurnar urðu aðrar en ætlað hafði
verið, svo það var Straw hin mesta
raun að komast í gegnum 40 mín-
útna langa ræðu sína.
Straw var ekki nema rétt byrj-
aður, að segja þingheimi að stjórn
Verkamannaflokksins væri fyrsta
stjórnin í hálfa öld, sem hefði tekist
að draga úr glæpum á fyrsta kjör-
tímabili sínu, þegar lögreglumenn-
irnir fóru að hvísla og pískra. Verra
var það þegar ráðherrann kom að
einstökum afrekum, því þá voru
reknir upp hæðnishlátrar í salnum.
Síðan tóku við frammíköll eins og
„bull og vitleysa“, hæðnislegt
„hugsa sér“ og loks hægt og þungt
klapp, sem setti ráðherrann svo út
af laginu að hann sleppti úr hluta
ræðunnar, sem hafði verið dreift til
fréttamanna, auk þess sem hann
reyndi að svara fyrir sig með því að
segja „jú víst …“ Á sama tíma var
Blair í heimsókn á spítala í Birm-
ingham, þar sem hann hafði kynnt
stefnuskrá flokksins í bleikri flóð-
lýsingu og það voru vísast myndirn-
ar þaðan, sem kosningabaráttu-
stjórarnir höfðu gert ráð fyrir sem
forsíðumyndum í gær. Hann heim-
sótti nýja viðbyggingu til að sjá
áþreifanleg dæmi þess að stefna
flokksins í heilbrigðismálum, eitt
stærsta kosningaloforðið, hefði skil-
að sér. En hinni 38 ára Sharron
Storer fannst að forsætisráð-
herrann ætti að sjá aðra hlið spít-
alans og lýsti því fyrir honum hvern-
ig aðbúð sambýlismaður hennar,
sem er með krabbamein, hefði feng-
ið á yfirfullum spítala, þar sem hann
kæmist ekki á rétta deild, heldur
yrði að liggja á ganginum.
„Mér þykir þetta leitt,“ sagði
Blair afar vandræðalegur, en Storer
hreytti út úr sér að það þætti honum
greinilega ekki, því þá mundi hann
gera eitthvað í málinu og það hefði
hann ekki gert. Hún var líka reið yf-
ir að ráðherrann skoðaði nýja spít-
alaálmu í stað þess að skoða gömlu
álmuna og hafnaði boði hans um að
setjast niður með honum yfir kaffi-
bolla og ræða málið.
Hague mátti þola að lenda innan
um kjósendur, sem kölluðu svo
ákaft fram í fyrir honum að hann
gafst upp á að ganga um eins og
hann hafði ætlað sér.
Allt sýnir þetta að stjórnmála-
áhugann vantar ekki, en kjósendur
eru ekki tilbúnir að mæta stjórn-
málamönnum aðeins við sviðsettar
aðstæður.
Hitnar í kolunum í
bresku kosningunum
London. Morgunblaðið.
Reuters
Menn með boxhanska á höndum bíða eftir John Prescott aðstoðarfor-
sætisráðherra, þó líklega ekki til að lumbra á honum.
AP
Prescott aðstoðarforsætisráðherra í átökum við manninn sem braut eggið á höfði hans.
TILLÖGUR Bandaríkjamanna og
Breta um að slaka á viðskiptabanni
Sameinuðu þjóðanna gegn Írak, sem
verið hefur í gildi í áratug, markar
verulega stefnubreytingu. Enn á þó
eftir að koma í ljós hvernig önnur að-
ildarríki öryggisráðs SÞ taka í tillög-
urnar og búast má við strembnum
samningaviðræðum um framkvæmd
þeirra.
Bretar munu í næstu viku leggja
fram formlega tillögu í öryggisráði
Sameinuðu þjóðanna um að hömlum á
innflutning almenns varnings til
Íraks skuli að mestu aflétt. Einnig er
líklegt að bann við farþegaflugi til
landsins verði afnumið, en það hefur
um langt skeið verið hunsað. Áfram
yrði þó bannað að flytja vopn og her-
gögn til Íraks.
The New York Times hafði í gær
eftir Richard Boucher, talsmanni
bandaríska utanríkisráðuneytisins,
að markmið tillagnanna væri að beina
þvingunarúrræðum SÞ alfarið að því
að draga úr þeirri hernaðarógn sem
stafaði af Írak, en aflétta þeim höml-
um sem íþyngdu almenningi í land-
inu.
„Samkvæmt þessum tillögum gæti
Íraksstjórn mætt öllum nauðþurftum
þegna sinna. Ef öryggisráðið sam-
þykkir þær mun Íraksstjórn bera
fulla ábyrgð á þjáningum þegna
sinna,“ hafði The Daily Telegraph í
gær eftir ónafngreindum breskum
embættismanni.
Bandaríkjamenn og Bretar
láta undan þrýstingi
Gagnrýni á viðskiptaþvinganir SÞ
gegn Írak hefur farið vaxandi á und-
anförnum árum. Bent er á að þær hafi
skert lífskjör almennings í landinu
verulega, án þess að veikja stöðu ein-
ræðisherrans Saddams Husseins að
nokkru ráði. Bandaríkjamenn og
Bretar voru orðnir einangraðir í
harðri afstöðu sinni og fréttaskýrend-
um bar saman um það í gær að þeir
væru með tillögunum að láta undan
auknum alþjóðlegum þrýstingi.
Fyrir þeim kann að vaka að bæta
ímynd sína á alþjóðavettvangi, eink-
um í Mið-Austurlöndum, þar sem
andúð gegn Vesturlöndum hefur auk-
ist á síðustu misserum vegna átaka
Ísraela og Palestínumanna.
Stjórn George W. Bush hefur lagt
kapp á að ná samkomulagi um málið
fyrir 4. júní nk., þegar Sameinuðu
þjóðirnar taka ákvörðun um fram-
lengingu á áætluninni um sölu á olíu
fyrir matvæli.
Frá valdatöku Bush hafa embætt-
ismenn Bandaríkjastjórnar einnig
unnið að endurskoðun annarra þátta í
stefnunni gagnvart Írak, þar á meðal
varðandi flugbannssvæðin og áfram-
haldandi stuðning við stjórnarand-
stöðuhreyfingar í landinu.
Ná verður samningum
um ýmis álitaefni
Sendimenn Bandaríkjastjórnar og
Breta hafa á undanförnum mánuðum
átt fundi með fulltrúum hinna
ríkjanna þriggja sem eiga fast sæti í
öryggisráðinu, Frakklandi, Rússlandi
og Kína, til að kynna hugmyndir
þeirra um slökun á viðskiptahömlun-
um. The Washington Post hefur eftir
breskum embættismanni að tillög-
urnar hafi hlotið „fremur jákvæðar
viðtökur“, en ríkin þrjú hafa í vaxandi
mæli talað máli Íraka í öryggisráðinu.
Blaðið segir þó að vænta megi
strangra samningaviðræðna innan
öryggisráðsins um einstök atriði
nýrrar áætlunar.
Bretar og Bandaríkjamenn eru
sagðir hafa lagt tillögu að lista yfir
bannvörur fyrir Rússa, Kínverja og
Frakka. Á honum væru hvers kyns
vopn og hergögn, auk „fjölnota“
hluta, sem hafa bæði almennt og
hernaðarlegt notagildi. Með því er
meðal annars átt við háþróaðan tölvu-
og fjarskiptatæknibúnað og líklegt er
að skoðanir verði skiptar um ná-
kvæmlega hvað eigi að falla undir
þennan flokk.
Einnig vakna spurningar um hvort
leyfa eigi fjárfestingar alþjóðlegra
fyrirtækja í íröskum olíuiðnaði, en
það gæti komið frönskum, rúss-
neskum og kínverskum fyrirtækjum
til góða. Auk þess er búist við að
deilur vakni um hvort greiða eigi er-
lendar skuldir Íraka af reikningi
þeirra hjá SÞ fyrir tekjur af olíusölu.
Rússar eru mjög áfram um það, enda
skulda Írakar þeim nokkra milljarða
dollara.
Írakar líklegir til að
hafna tillögunum
Þá eru ótalin viðbrögð Íraksstjórn-
ar, sem hefur margoft lýst því yfir að
hún muni ekki sætta sig við neitt ann-
að en algjöra niðurfellingu viðskipta-
þvingana.
Tillögur Breta og Bandaríkja-
manna gera ráð fyrir að SÞ muni
áfram fara með umsjón tekna Íraka
af olíusölu og því geta þeir varla unað.
Einnig er þess krafist að vopnaeft-
irlitsmönnum verði leyft að hefja
störf áður en hömlum verður aflétt.
Írakar vísuðu öllum eftirlitsmönnum
úr landi árið 1998 og ólíklegt er talið
að þeir fallist á þetta skilyrði.
Tillögur Breta og Bandaríkjamanna um að slaka á viðskiptaþvingunum SÞ
Veruleg stefnubreyt-
ing gagnvart Írak
S Þ. AP, Daily Telegraph, Washington Post.