Andvari - 01.01.1999, Blaðsíða 15
VÉSTEINN ÓLASON
r
Einar
Olafur Sveinsson
I. Ættir og uppvöxtur - menntun og mótun
Þessir smáþættir hefjast á Höfðabrekkuhálsi. Ég mun hafa verið fjögra ára
og var með fólki, sem var við heyverk þar á hálsinum . . . Fólkið við hey-
verkið hvarf mér og gleymdist. Yfir öllu var djúpur friður. Ég var þarna einn;
ekkert sást nema gilbarmarnir og himinninn og úthafið í suðri. Eitt orð getur
bezt lýst huga mínum: ég undi þarna, ég var einn með alheiminum.
Þannig hefjast minningaþættir undir heitinu „Úr Mýrdal“, sem Einar
01. Sveinsson birti í ritinu ísland í máli og myndum árið 1960 og end-
urprentaðir eru í ritgerðasafni hans Ferð og förunautar 1963. Þættirn-
ir eru perla sem ætti sess skilinn í úrvali þess sem best hefur verið
skrifað á íslensku. Þar birtist skáldið og ritsnillingurinn Einar Ólafur,
bregst við reynslu og tjáir á sinn sérstæða hátt. En það er líka hægt að
lesa þessa þætti sem eins konar myndhverfingu um síkvika skynjun
og þorsta eftir þekkingu á lífinu og skilyrðum þess í heiminum, sem
einkenndi starf fræðimannsins, það starf sem verður meginviðfangs-
efni þessarar greinar. En upphafi ævinnar er markaður staður, og við
upphafið miðast sú stefna sem maðurinn tekur á æviskeiði sínu.
Einar Ól. Sveinsson fæddist að Höfðabrekku í Mýrdal 12. desem-
ber 1899. Faðir hans var Sveinn Ólafsson, f. 4. febr. 1861 á Eystri-
Lyngum í Meðallandi. Forfeðurnir höfðu búið á þeim slóðum, a.m.k.
síðan fyrir Skaftárelda. Þeir voru þremenningar Einar Ólafur og Jó-
hannes Sveinsson Kjarval. Sveinn Ólafsson var góður bóndi og hag-
leiksmaður hinn mesti. Eftir hann eru varðveittir ágætir smíðisgripir,
m.a. í byggðasafninu í Skógum. Einar Ólafur hefur sjálfur lýst föður
sínum eftirminnilega og sagt dálítið frá ætt hans í ritgerð sinni
„Bóndinn í Hvammi“, sem upphaflega birtist í ritinu Faðir minn 1950
og er endurprentuð í Ferð og förunautar. Ekki verður hér reynt að
bæta við þá sögu eða mannlýsinguna, sem þar birtist, en hún er skýr