Andvari - 01.01.1999, Blaðsíða 99
ANDVARI
GUÐFEÐUR ÍSLENSKS FLOKKAKERFIS
97
fyrsti formaður hans hafði óskað. Pótt ekki hafi ríkt einhugur í flokknum
um afnám markaðsfrelsis í landbúnaði var þó greinilegt að meirihluti þing-
manna hans, með formann flokksins næstu þrjá áratugina í fararbroddi, var
á þeirri skoðun að óheft samkeppni ætti ekki við í þessum atvinnuvegi.
Ekki er með þessu sagt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þar með boðað afnám
frjálsrar samkeppni á öllum sviðum efnahagslífsins, en afstaða hans til laga-
setningar um afurðasölu gróf þó óhjákvæmilega undan trúnni á óskeikul-
leik og óskoraða yfirburði hins frjálsa markaðar. Segja má líka að trú Jóns
Þorlákssonar á markaðinn hafi ekki náð fullum yfirráðum í Sjálfstæðis-
flokknum fyrr en á síðustu árum, þegar nýir vindar í alþjóðastjórnmálum
hafa grafið undan viðskiptahöftum og ríkisrekstri. Að því leytinu má segja
að Jón Þorláksson hafi sannarlega verið á undan sínum tíma og um stund-
arsakir a. m. k. hefur hið áður „úrelta orðatiltæki“ nú öðlast almenna við-
urkenningu á vettvangi stjórnmálanna.
Vökumenn og sjösofendur
Stjórnmála þriðja áratugarins er oftast minnst fyrir hörð og óvægin per-
sónuleg átök og hatrammar rimmur pólitískra andstæðinga, en áratugurinn
var þó ekki síður tími háleitra hugsjóna í íslenskum stjórnmálum. Þar var
tekist á um grundvallarskipulag íslensks þjóðfélags fremur en stundarhags-
muni einstakra kjördæma, einstaklinga eða þjóðfélagshópa. Á hinum borg-
aralega væng stjórnmálanna voru Jón Þorláksson og Jónas Jónsson frá
Hriflu helstu hugmyndasmiðir þessara ára, en líta má á þá sem guðfeður
nútíma flokkakerfis á íslandi. Báðir voru þeir einlægir stuðningsmenn lýð-
ræðis og um leið harðir andstæðingar þjóðnýtingar framleiðslutækja, en
skoðanir þeirra áttu fátt annað sameiginlegt. Jón var þannig helsti formæl-
undi frjálsrar samkeppni í íslenskri pólitík á þriðja áratugnum, en að hans
ruati var óheftur markaður forsenda fyrir framförum og velmegun í þjóðfé-
laginu. Samkvæmt stjórnmálakenningum Jónasar leiddi samkeppnin aftur á
móti óhjákvæmilega til óþolandi misskiptingar auðs, sem á endanum hlaut
að grafa undan stoðum iðnaðarþjóðfélagsins. Öfluga samvinnuhreyfingu,
byggða á frjálsum samtökum smáframleiðenda og verkafólks, taldi hann
einu vörnina gegn þessari þróun, vegna þess að hún tryggði aukið réttlæti í
samfélaginu og möguleika vinnandi fólks til að móta sína eigin framtíð í
frjálsum samtökum.
Hugmyndir Jóns Þorlákssonar og Jónasar frá Hriflu buðu kjósendum
mjög skýra kosti í kosningum á fyrstu árum fullveldisins, enda var ekki
annað að sjá en að þeir flokkar sem þeir veittu forystu hafi fallist á pólit-