Andvari - 01.01.1999, Blaðsíða 41
andvari
EINAR ÓLAFUR SVEINSSON
39
augljós áhugi hans á að endurskoða skýringar Finns á einstökum vís-
um.
Tvennt má telja til sérkenna á formálum íslenzkra fornrita, annað
er tilraunir til að ákvarða tímatal þeirra atburða sem sagt er frá í
hverri einstakri sögu, hitt er leitin að höfundi. Hið síðara má að vissu
leyti kalla rökrétta afleiðingu af því viðhorfi að sögurnar séu verk
höfunda sem hafi í þeim tjáð lífsskoðanir sínar og ýmis áhrif úr sam-
tímanum. Vandinn er sá að höfundanna er hvergi getið og leit að
þeim verður oftast fálm í myrkri en niðurstöðurnar til lítils nýtar
þegar fátt er vitað um hina ætluðu höfunda. Rannsókn á tímatali,
eins og um sagnfræðirit væri að ræða, skýtur hins vegar nokkuð
skökku við þetta grundvallarviðhorf. Sama má raunar segja um ýmis-
legt af þeim skýringum sem fylgja textunum, þar sem gerð er grein
fyrir persónum sem getið er í öðrum ritum. Einari Olafi hefur
bersýnilega verið þetta misræmi ljóst, því að nokkur afsökunar- og
efasemdatónn er í upphafi kaflans um tímatal í formála Brennu-
Njáls sögu:
Sú hefur verið venja í þessari útgáfu íslenzkra fornrita að fjalla um tímatal
atburðanna. Forðum daga litu menn á allar hinar betri fornsögur líkt og
spegilmyndir atburðanna, réttar spegilmyndir að mestu, svo sem samtíma-
heimildir væru eða betri, ósnortnar af öldunum milli atburða og ritunartíma.
í Njálu er þrædd röð atburða, en að öðru leyti er tímatal þar bersýnilega
aukaatriði. Það væri hæpið að eyða miklu rúmi í þetta efni, en margir munu
þó ætlast til þess, að um það sé fjallað nokkuð hér í formálanum, enda má
vera, að það geti orðið til skilnings á sögunni (lxi-lxii).
bm höfundarleitina gegnir nokkuð öðru máli en tímatalið. Kalla má
að sú túlkunaraðferð sem leitar að kjarna listaverka í sálarlífi höf-
dndarins þurfi mjög á nafngreindum höfundi að halda til skilnings á
yerkunum. Röksemdafærsla Sigurðar Nordals í formála Egils sögu
fyrir því að Snorri sé höfundur hefur líka eggjað nemendur hans að
reyna að fjölga nafngreindum höfundum íslendingasagna. Einar
sinnir þessu ekki mjög mikið í formálum sínum. Hann fjallar nokkuð
u/n uppruna Laxdælu í formála hennar og telur höfundinn líkan
Ólafi Þórðarsyni hvítaskáldi að menntun og lífsreynslu og jafnvel
eiginleikum en gerist þó enginn málflutningsmaður. Eyrbyggju vill
Einar Ólafur gera eldri en flestir aðrir sem um hana hafa fjallað, og
stóð nokkuð fast á þeirri skoðun sinni. Svo er að sjá sem hann sé all-