Andvari - 01.01.1999, Blaðsíða 97
ANDVARI
GUÐFEÐUR ÍSLENSKS FLOKKAKERFIS
95
að styrkja útflutning á kjöti sem ekki seldist á innanlandsmarkaði. í öðru
lagi fór mjólkurmarkaðurinn í Reykjavík ört vaxandi með stækkun bæjar-
ins og bættum samgöngum á fyrstu áratugum aldarinnar. Ógnaði þessi þró-
un jafnvægi í framleiðslu og verðlagi mjólkur í landinu, bæði vegna þess að
nálægð við markað hafði sífellt meiri áhrif á tekjumöguleika bænda og að
nú sköpuðust nýir möguleikar fyrir stórbú í landbúnaði, sem síðan kippti
starfsgrundvellinum undan smærri búum.57 Yfirlýst markmið laga um sölu
mjólkur og mjólkurvara var annars vegar að draga úr milliliðakostnaði við
mjólkurdreifinguna, sem koma átti bæði neytendum og framleiðendum til
góða, með því að fækka útsölustöðum og binda hana við eina sölumiðstöð
á hverju sölusvæði, og hins vegar að jafna verð til bænda með stýringu
verðs og álagningu verðjöfnunargjalds á neyslumjólk sem nota átti til að
styrkja framleiðslu unninna mjólkurvara úr þeirri mjólk sem ekki var hægt
að flytja beint á markað.58 Á þennan hátt var bundinn endi á þá „óreiðu á
sölunni“ sem ýmsir töldu að ríkti í Reykjavík eða það „að framleiðend-
urnir troði skóinn hver niður af öðrum“,59 jafnframt því að neytendum
neyslumjólkur var gert að auðvelda þeim mjólkurframleiðendum sem ekki
nutu nálægðar við stærri markaðssvæði að breyta framleiðslu sinni í seljan-
lega vöru. Með þessum tvennum lögum voru því helstu afurðir bænda
undanþegnar áhrifum framboðs og eftirspurnar, og þar með var þeim kippt út
af hinum frjálsa markaði.60
Hér verður ekki lagt mat á það hvort þessi lagasetning varð bændum eða
landsmönnum almennt til hagsbóta eða ekki, en um það eru skoðanir
skiptar - sumir hafa látið þess getið að lagasetningin hafi „komið bæði
neytendum og framleiðendum til góða“,61 en aðrir hafa rakið hátt verð
landbúnaðarvara á íslandi nú á tímum og lök kjör bænda til skorts á „að-
haldi hins frjálsa markaðar“ í landbúnaði.62 Það er þó ljóst af setningu þess-
ara laga að árið 1934 var mikill meirihluti þingmanna þeirrar skoðunar að
sjálfvirk vél hins frjálsa markaðar ætti ekki við í íslenskum landbúnaði.
Meðal stuðningsmanna frumvarpsins var stór hluti þingmanna Sjálfstæðis-
flokksins með nýkjörinn formann hans, Ólaf Thors, í broddi fylkingar.63
>,Það er . . . mesti misskilningur hjá hæstv. forsrh., þegar hann talar um, að
Sjálfstfl. í heild sé eitthvað andstæður þessu máli“, sagði t. d. Magnús Guð-
mundsson, þingmaður Skagfirðinga og fyrrverandi dómsmálaráðherra
Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um kjötsölulögin. Mér „virðist," hélt hann
áfram, „að hér hafi staðið þannig á, að það þyrfti að gera ráðstafanir til
þess, að kjötverð yrði ekki lægra en svo, að bændur mættu við una. . . . Það
væri undarlegt, ef Sjálfstfl., sem telur meðal sinna kjósenda meira en helm-
wg allra bænda, vildi skóinn niður af þeim.“64 Flokkurinn skiptist þó í and-
stæðar fylkingar í þessu máli, þar sem þéttbýlisþingmenn hans voru yfirleitt
andsnúnir því á meðan sveitaþingmennirnir studdu það eindregið.65