Menntamál - 01.12.1939, Page 34
160
MENNTAMÁL
og ræður þar tækni hvers kennara, en í eðli sínu eiga þær
allar að vera eins.
Öll stærðfræðikennsla á að vera formföst og formfögur.
Hún á að vera hlutbundin og afstæð, ekki sérstæð.*) Hún á
að vera safnandi, ekki sundrandi. Hún á að vera lifandi,
mjúk og sveigjanleg, ekki dauð og stirð.
Ætti að gefa hugmynd um þetta allt með dæmum, væri
það efni í stóra bók, en ekki stutta grein.
Pormlegar stærðfræðiæfingar krefjast spenntrar athygli,
og eru því allerfiðar. Þær ættu því ekki að vera lengi í hvert
sinn, aðeins nokkrar mínútur. Ef viðlíka umfangsmiklar
æfingar þeirri, sem ég tók hér að framan (talan 6), taka
meiri tíma en 10—15 mín., er það vottur leiði eða þreytu,
og slíkt ber vel að varast. Afgangi kennslustundarinnar —
hvort sem það er fyrri hluti hennar eða hinn síðari, má
verja til frjálsra samræðna um þau stærðfræðileg efni, sem
börnin í þann svipinn hafa mestan áhuga á að leysa, helzt
fersk viðfangsefni þeirra sjálfra. Þá er og gott að nota hina
óþrotlegu löngun barnanna til að teikna. Láta 3 eða 4 börn
teikna á töfluna alveg frjálst og fyrirmyndarlaust, en kenn-
arinn og börnin fylgjast með því, sem teiknað er, og athuga
það frá sem flestum hliðum. Séu börnin fá og á ólíku reki,
getur og hvert þeirra teiknað á sitt blað, en kennarinn
gengið á milli, athugað verkin og hjálpað til að vekja við-
fangsefni. Hópmyndir og atburðamyndir eru hentastar til
þessara hluta, en þó er bezt að efnisval barnanna sé í þeirra
vitund frjálst.
Enda þótt mörg börn séu all leikin að reikna, er þau koma
í skóla, einkum þar sem skólaskylda hefst með 10 ára aldri,
er þeim engu síður nauðsynlegt að æfa frumatriði stærð-
fræðinnar skipulega og vel. Þau verða að skilja, að stœrð-
frœðinámið er ekki utanaðnám ákveðinna frœðisetninga,
heldur œfing í skipulagi umhverfis og atburða, og annars
*) Þetta á við byrjunarkennslu.