Menntamál - 01.08.1962, Blaðsíða 59
MENNTAMAL
149
fyrir svipaðri reynslu. Hins vegar leikur enginn vafi á því,
að mynd af atburði gefur manni gleggstar upplýsingar
um, hvað gerzt hefur, næst því að vera viðstaddur sjálfur.
Vegna almennrar viðurkenningar á þessari staðreynd,
skipar myndin sífellt þýðingarmeira sæti í sambandi við
kennslu skóla og stofnana og yfirleitt allt nútíma upplýs-
ingastarf.
Notkun skýringamynda er á engan hátt nýtt fyrirbæri.
Fyrir þúsundum ára hefur myndin verið eitt allra þýð-
ingarmesta tjáningarform mannsins, þegar hann þurfti
að koma hugsunum sínum á framfæri. Ef til vill hafa
myndir verið næsta tjáningarskeið eftir hermibendingar.
Eftir því sem þjóðfélagið varð margbrotnara og vitneskj-
an um umhverfið fjölbreyttari, hafa takmarkanir bend-
inganna orðið tilfinnanlegri og þörfin fyrir auðskildara
tjáningarform augljósari. Kannski hafa fyrstu myndirn-
ar verið ristar í börk trjánna eða höggnar í stein við al-
faraleið, til þess að vara menn við hættu eða vísa til veg-
ar. En hvað sem líður fyrstu notkun mynda í þágu sam-
félagsins, má telja fullvíst, að einhvers konar myndamál
hafi verið upphaf þeirrar þróunar, sem lokið hefur í bók-
letrinu, sem við búum við í dag.
Hin stöðuga þróun frá því einfalda til þess margbrotna
hefur valdið því, að orðið fjarlægðist uppruna sinn meir
og meir og varð stöðugt óhlutstæðara og torskildara mann-
inum, eftir því sem tímar liðu.
Skólar og menntastofnanir eru þau öfl, sem eiga að
auka skilning okkar á orðum og athöfnum, fella manninn
inn í þann ramma siðfræði og þekkingar, sem gerir hann
hæfan til að lifa í þjóðfélagi hvers tíma.
Menn tjá skoðanir sínar og lýsa viðhorfum sínum með
orðum, en þessi orð eru aðeins tákn hugmynda, sem ekki
er hægt að skilja án þess að hafa öðlazt víðtæka reynslu,
annað hvort fyrir raunverulega upplifun, eða einhvers
konar tæknigerða eftirlíkingu raunveruleikans, svo sem