Menntamál - 01.08.1962, Blaðsíða 65
MENNTAMÁL
155
ánægju hann getur haft af náminu og sjá um, að fljótt
náist gagnlegur og skemmtilegur árangur. Ef kennarinn
hefur undirbúið námsferð í stað þess að láta tilleiðast að
koma í gönguferð í góðu veðri, er á svipstundu búið að
breyta tilgangslausu rölti í skemmtilegt nám. Og nú skul-
um við athuga nokkur atriði sem lúta að undirbúningi,
framkvæmd og mati slíkra leiðangra.
Námsferð er aðferð, sem hægt er að beita við flestar
námsgreinar. Á vorin og haustin má fara grasaferðir,
rannsaka fjöruna, athuga fuglalíf, skoða ýmis fyrirbæri
almennrar landafræði, svo sem ár, hraun, gígi, uppblástur,
hveri, veðrun og framburð. Það er hægt að skoða höfn,
fiskverkunarstöðvar, verksmiðjur og ýmiss konar stofn-
anir í sambandi við átthagafræði og félagsfræði. Safn-
ferðir eru nauðsynlegur liður í listnámi, sögu og bók-
menntum, sömuleiðis heimsóknir á sögustaði og athugun
á landslagi, sem yrkisefni skálda og listamanna.
Kostir námsferðar eru fyrst og fremst þessir:
I. Hún er sameiginlegt framtak kennara og nemanda,
þar sem nemandinn er virkur aðili, en kennarinn
ráðgjafi og leiðbeinandi.
II. Hún sýnir hluti og fyrirbæri í eðlilegu umhverfi.
III. Hún gefur nemandanum kost á að læra um og kynn-
ast af eigin raun hlutum, fólki, fyrirkomulagi,
starfsaðferðum, atvinnugreinum og umhverfi.
IV. Hún sýnir réttar stærðir, eðlilega liti, efni og hreyf-
ingu.
V. Hún gefur kennaranum tækifæri til að setja fyrir
félagsverkefni, sem færri eða fleiri leysa sameigin-
lega og gefa nemendum hlutdeild í raunverulegu
þjóðfélagsstarfi.
VI. Hún býður upp á hlutstæða, raunverulega, nothæfa
þekkingu, sem tengir orð og athöfn hvort öðru var-
anlega.