Uppeldi og menntun - 01.01.1998, Page 86
TÓBAKSREYKINGAR REYKVÍSKRA UNGMENNA
stöður rannsóknarinnar sýna að árið 1994 (í mars) reykti tæpur fimmtungur nem-
enda í 9. bekkjum grunnskóla Reykjavíkur, tæplega fjórðungur ári síðar (í janúar
1995) þegar unglingarnir voru komnir í 10. bekk og þriðjungur þeirra tæpum
tveimur árum síðar (nóvember 1996). Niðurstöður erlendra rannsókna á reykingum
ungmenna á Vesturlöndum benda einnig til að reykingar meðal þeirra hafi aukist
hin síðari ár (til dæmis Johnston 1995, Robertson og Skinner 1996).
Fólki sem byrjar að reykja á unglingsaldri er hætt við að reykja á fullorðinsárum
þar sem það hefur ánetjast nikótíninu (sjá til dæmis Elders, Perry, Eriksen og Giov-
ino 1994). Jafnframt er það líklegra til að taka þátt í annarri áhættuhegðun eins og
neyslu áfengis og sterkari vímuefna (sjá til dæmis Donnermeyer 1992, Elders o.fl.
1994, Kandel og Wu 1995, Newcomb og Bentler 1989). Sambærilegar niðurstöður
koma fram í rannsókn okkar hér á landi (Sigrún Aðalbjarnardóttir o.fl. 1997). Reyk-
vískir unglingar sem reykja daglega neyta einnig nær allir áfengis (96-100%). Um
80% þeirra sem byrja að reykja 15 ára eða yngri hafa prófað hass við 17 ára aldur á
móti 10% þeirra sem ekki reykja við 17 ára aldur. Þá kom fram að um 40% þeirra
sem byrja að reykja 15 ára eða yngri hafa prófað amfetamín við 17 ára aldur á móti
5% þeirra sem ekki reykja.
Ahyggjur af reykingum unglinga eru því ekki aðeins bundnar því að þeir bíði
tjón á heilsu sinni þegar til lengri tíma er litið (sbr. til dæmis líkur á lungnakrabba)
heldur einnig sterkum vísbendingum um að reykingar tengist neyslu þeirra á öðrum
löglegum og ólöglegum vímuefnum (sjá til dæmis Doherty og Allen 1994). Af þess-
um ástæðum er mikilvægt fyrir stjórnsýslu landsins í heilbrigðis-, félags- og mervnta-
málum, sem stendur fyrir stefnumótun og forvarnarstarfi, að stundaðar séu rann-
sóknir á ýmsum félagslegum, uppeldislegum og sálfræðilegum þáttum, sem áhrif
geta haft á tóbaksreykingar ungmenna. Ein forsenda þess að þróa árangursríkt for-
varnarstarf er sú að greina áreiðanlega þætti sem tengjast og jafnvel spá fyrir um
hvort unglingar byrja að reykja. Hér verður áhersla lögð á að athuga þátt heimilisins,
einkum hvort mismunandi uppeldishættir og reykingar foreldra tengjast líkum á
því að unglingur byrji að reykja. Jafnframt verður hugað að áhrifum reykinga vina.
BAKGRUNNUR
I rannsóknum þar sem könnuð eru áhrif þátta á reykingar unglinga gefa þver-
sniðsrannsóknir takmarkaðar upplýsingar (sjá til dæmis Conrad, Flay og Hill 1992,
De Civita og Pagani 1996, Doherty og Allen 1994). í slíkum rannsóknum er aðeins
hægt að athuga stöðuna eins og hún er á tilteknum tíma, svo sem tengsl þátta við
reykingar 14 ára ungmenna, en ekki er unnt að fylgjast með breytingum á þessum
tengslum í sama hópi, þar sem honum er ekki fylgt eftir. Ekki er heldur hægt í
þversniðsrannsóknum að skoða hvort tilteknir þættir spái fyrir um hvort ungmenni
byrji að reykja síðar. Rannsóknir með langtímasniði leyfa að slík atburðarás sé
athuguð, þótt gætilega þurfi að fara í ályktunum um beint orsakasamband. Vegna
þessa munar á eðli þversniðs- og langtímarannsókna verða hér eingöngu til um-
ræðu niðurstöður langtímarannsókna.
í rannsókn Bertrand og Abernathy (1993) kom fram að samskiptaþættir eins og
84