Tímarit lögfræðinga - 01.12.1999, Blaðsíða 22
gilda um viðkomandi athafnasvið. Hafi tjónvaldur brotið gegn fyrirmælum laga
eða reglugerða sem ætlað er að treysta öryggi á tilteknu athafnasviði aukast lík-
ur á að skaðabótaábyrgð teljist hafa stofnast.
Við beitingu sakarreglunnar er almennt litið svo á að tjónþoli þurfi að sýna
fram á að hegðun tjónvalds sé saknæm, þ.e. tjónþoli beri sönnunarbyrðina í
því efni. Hann verður því að sýna fram á að tjónvaldurinn hafi hegðað sér á ann-
an hátt heldur en góður og gegn maður hefði gert í sömu aðstöðu og að hin sak-
næma háttsemi hafi leitt til tjónsins. í sumum tilvikum hafa dómstólar snúið
sönnunarbyrðinni við að þessu leyti og ber þá tjónvaldi að sanna að hegðun hafi
ekki verið saknæm. Þetta er helst talið koma til greina á athafnasviðum þar sem
gera verður alveg sérstakar kröfur til aðila um að fara með gát. Þegar svona
háttar er oft rætt um að dómstólar beiti sakarlíkindareglu.2
Til eru aðrar reglur en sakarlíkindareglur sem gera bótaábyrgð tiltekinna
aðila ríkari en vera myndi samkvæmt sakarreglunni. Er hér um að ræða reglur
sem leggja ábyrgð á tjónvald þótt hann hafi alls ekki hagað sér öðru vísi en
ætlast mátti til af honum. Skaðabótaábyrgðin er þá hlutlæg. Slík ábyrgð kemur
yfirleitt ekki til nema fyrir hendi sé bein lagaheimild. Regla 88. gr., sbr. 1. mgr.
90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, er dæmi um þetta. Hún kveður á um að
skráður eigandi ökutækis skuli bera ábyrgð á tjóni sem hlýst af notkun þess
enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni öku-
manns. Auk þess má nefna reglur 6. og 10. gr. laga nr. 25/1991 um skaðsemis-
ábyrgð en samkvæmt þessum lagaákvæðum bera framleiðandi og dreifingar-
aðili vöru, að nánari skilyrðum uppfylltum, ábyrgð á tjóni sem rakið verður til
ágalla á vörunni, án þess að þar þurfi að sanna sök þeirra.
Sá sem krefst bóta getur farið í mál við tjónvald neiti tjónvaldur greiðslu.
Slík dómsmál eru að jafnaði einkamál sem bótakrefjandi höfðar á eigin áhættu.
Tjónþoli verður þá að sýna fram á, að fyrir hendi sé bótaregla sem leiði til bóta-
skyldu og að tjónvaldur hafi í reynd brotið gegn reglunni. 1 tilfelli sakarregl-
unnar getur þetta stundum reynst erfitt. Sé um sakarlíkindareglu eða hlutlæga
bótareglu að ræða er málið einfaldara. Þá þarf tjónþoli eftir atvikum einungis að
sýna fram á að tjón hafi orðið og það stafi af notkun ökutækis, sbr. 88. gr. um-
ferðarlaga, eða að vara teljist haldin ágalla, sbr. 6. gr. laganna um skaðsemis-
ábyrgð.3
Hafi tjónþoli fyrir slys hegðað sér á einhvem þann hátt, sem sýnir að honum
var kunnugt eða mátti vera kunnugt um að hætta væri á slysi, án þess þó að
hann hafi breytt hegðun sinni, er talað um áhættutöku tjónþola (accept af
risiko). Áhættutaka felur það í sér að tjónþoli er talinn hafa óbeint fallist á að
2 í H 1970 3 getur að líta dæmi um beitingu ólögfestrar sakarlíkindareglu. Þar sprakk flaska í öl-
gerð með þeim afleiðingum að starfsmaður slasaðist. Bótaábyrgð var lögð á ölgerðina þar sem hún
var ekki talin hafa gert það fyllilega sennilegt að gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir
til að verjast því að slík sprenging ætti sér stað.
3 Dæmi um vöru sem teldist haldin ágalla er til dæmis gosflaska sem springur fyrirvaralaust í loft
upp, sbr. H 1974 977.
302