Tímarit lögfræðinga - 01.12.2002, Page 55
vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfir-
manna eða eðli máls. Þá er tekið fram að þagnarskylda haldist þótt látið sé af starfi.
I yfir 80 lögum og enn fleiri reglugerðum má síðan finna ákvæði um þagnarskyldu
ákveðinna starfsmanna eða starfstétta sem í flestum tilvikum staðfesta einungis
efnislega það sem felst í fyrmefndri 18. gr. laga nr. 70/1996.
Gallinn við 18. gr. laga nr. 70/1996 er sá að í ákvæðinu felst vísiregla sem flókið er
að beita þar sem reglan getur ekki um þær upplýsingar sem þagnarskylda á að ríkja
um. Reglan getur heldur ekki um þá hagsmuni sem vemda á með trúnaði. Af þeim
sökum getur oft leikið mikill vafi á því til hvaða upplýsinga ákvæðið tekur.
Fyrir nokkrum árum glímdu bæði Norðmenn og Danir við sambærilegan vanda. Ur
honum var leyst bæði í Noregi og Danmörku með því að setja sérstakan kafla í
stjórnsýslulög ríkjanna um þagnarskyldu. Þar voru ákvæðin nánar útfærð þannig að
skýrara varð til hvaða upplýsinga þagnarskylda tók. Um leið voru felld úr lögum og
reglugerðum fjöldamörg ófullkomin ákvæði um þagnarskyldu. Með þessu fékkst í
senn samræming og einföldun á gildandi reglum auk þess sem nýju reglumar voru
gerðar mun skýrari.
I Danmörku voru um leið gerðar breytingar á ákvæði því er varðar refsiverð brot á
þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Akvæðin voru gerð skýrari og auk þess látin
taka til þriðja manns, sem ekki telst hlutdeildarmaður í þagnarskyldubroti opinbers
starfsmanns, en notfærir sér upplýsingar fengnar með slíku broti eða miðlar þeim
með óréttmætum hætti til annarra.
Nefnd forsætisráðherra taldi samkvæmt framangreindu þörf á að afmarka
nánar hugtakið opinber starfsmaður í XIV. kafla almennra hegningarlaga nr.
19/1940 (hgl. hér eftir) „þannig að skilgreining þess hóps opinberra starfs-
manna sem þessi ákvæði tækju til [yrði] skýrari“. Þá taldi nefndin að athuga
þyrfti „einstök ákvæði [XIV. kafla hgl.] með hliðsjón af þeim verndarhags-
munum sem að baki þeim búa og greina hvort þörf [væri] á endurbótum með
þarfir nútímasamfélags í huga“. í dæmaskyni vísar nefndin m.a. til reglna um
þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Að því er varðar fyrra atriðið hefur höf-
undur þessarar greinar á öðrum vettvangi fjallað um skýringu á hugtakinu
opinber starfsmaður og hvort og þá með hvaða hætti gera þurfi breytingar á
framsetningu þess í ákvæðum XIV. kafla hgl.3 * * * Verður því ekki nánar fjallað um
það atriði hér. í þessari grein verður aftur á móti leitast við að gera grein fyrir
öðrum efnisatriðum í verknaðarlýsingum XIV. kafla hgl. og gerð tilraun til að
skýra efni þeirra með vísan til orðalags, lögskýringargagna og dóma. Þá verður
ef ástæða þykir til tekin afstaða til þess hvort og þá hvaða breytinga sé þörf á
einstökum ákvæðum kaflans með tilliti til þeirra sjónarmiða sem nefnd
forsætisráðherra taldi að ætti að vera ráðandi við slíka athugun. Loks verða
niðurstöður dregnar saman.
3 Sjá Róbert R. Spanó: „Lagareglur um refsiábyrgð opinberra starfsmanna11. Úlfljótur. 4. tbl. 52.
árg. (2000), bls. 511-529. Það skal tekið fram að ekki verður fjallað sérstaklega í þessari ritgerð um
refsiákvarðanir dómstóla í tilefni af brotum er varða við ákvæði XIV. kafla hgl. um brot í opinberu
starfi.
359