Uppeldi og menntun - 01.07.2008, Blaðsíða 111
111
HAlldÓRA HARAldSdÓttIR
Á mótum skólastiga
Jóhanna Einarsdóttir. (2007). Lítil börn með skólatöskur:
Tengsl leikskóla og grunnskóla. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Á síðastliðnu ári kom út bókin Lítil börn með skólatöskur. Tengsl leikskóla og grunnskóla
eftir Jóhönnu Einarsdóttur, prófessor við Kennaraháskóla íslands, nú menntavísinda-
svið Háskóla íslands. Jóhanna hefur verið atkvæðamikil í rannsóknum á sviði mennt-
unar leikskólabarna og hún hefur jafnframt rannsakað víðtæk tengsl leikskóla og
grunnskóla frá sjónarhorni barna, kennara og foreldra. Bókin Lítil börn með skólatöskur
er byggð á rannsóknum Jóhönnu auk fjölda annarra rannsókna. Markmið bókarinnar
er að kynna kenningar valinna fræðimanna um skólastarf og niðurstöður rannsókna
um tengsl skólastiganna og menntun ungra barna. Þess er vænst að bókin muni nýtast
í umbótastarfi og við stefnumörkun náms og kennslu barna á mótum skólastiga.
Bókin er í tíu köflum, og er ljóð eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur haft sem inngangur
hvers kafla. í fyrsta hluta bókarinnar gerir Jóhanna grein fyrir uppbyggingu og
sögulegri þróun skólakerfanna tveggja, leikskóla og yngsta stigs grunnskóla. Efnið
sækir hún í lög og reglugerðir, námsáætlanir stofnananna og eigin rannsóknir á við-
horfum kennara til starfs síns auk fjölda erlendra rannsókna. Þarna er fjallað um það
sem sameinar skólastigin en ekki síður það sem greinir þau að. Jóhanna kemst að því
að þessar skólastofnanir, sem nú eru hvorartveggju skilgreindar sem uppeldis- og
menntastofnanir, eru sprottnar úr ólíkum jarðvegi hvað varðar hlutverk, hugmynda-
fræði og starfsleiðir, og hafa því þróast á ólíkan hátt. Niðurstaða rannsóknar Jóhönnu
á starfsháttum leik- og grunnskólakennara kemur ekki á óvart en er umhugsunarverð.
Þar kemur m.a. fram
… að einn meginmunurinn á starfsháttum leik- og grunnskólakennara liggi í því
valdi sem kennararnir hafa yfir starfi sínu og því valdi sem börnin hafa yfir námi
sínu. Valdefling (e. empowering) barnanna var augljósari í leikskólanum. Börnin
höfðu meira ákvörðunarvald yfir því sem þau fengust við. Áætlanir og skipulag
var sveigjanlegra og börnin gátu haft stjórn á og valið viðfangsefni (Jóhanna
Einarsdóttir, 2007, bls. 60).
í miðhluta bókarinnar kynnir Jóhanna kenningar fræðimanna og leggur áherslu á
hugtökin tengsl, reynslu og samhengi. Hún lýsir fyrst vistkerfiskenningu Bronfen-
brenner, en rök fyrir mikilvægi þess að brúa skólastigin eru gjarnan byggð á henni.
Jóhanna notar síðan hugmyndafræði Dewey til þess að sýna fram á mikilvægi reynslu
Uppeldi og menntun
17. árgangur 2. hefti, 2008