Saga - 1987, Blaðsíða 267
RITFREGNIR
265
fyrstu myndir sinnar gerðar af íslenskum staðháttum og því athyglisverðir
marksteinar? I ferðabók Henry Labonnes eru líka nokkrar athyglisverðar
málmstungur, sem ekki hafa verið teknar með, t.a.m. götumynd á bls. 67 og
mynd af Hruna, bls. 119.
Málmstungumyndir Carl F. Serensens af konungskomunni 1874 hafa verið
smækkaðar um of til þess að njóta sín. Þá má geta þess, að trérista af Firði í
Seyðisfirði, sem eignuð er Andrew ]. Symington, mun ekki vera eftir hann
heldur W./. Linton, samkvæmt því sem stendur á titilblaði ferðabókar hans.
Fremst í bókinni er formáli, þar sem höfundur gerir grein fyrir verkefni
sínu, ferðasögum yfirleitt og myndefni þeirra, en víkur um leið að hinu sér-
stæða, íslandsferðum og listaverkum sem tengjast þeim. Hverjum lista-
manni fylgir síðan stutt frásögn, þar sem sagt er frá íslandsför hans og greint
frá örlögum myndanna, hvar þær birtust fyrst og hver urðu afdrif þeirra á
síðari ferli. Þetta er greinargott yfirlit svo langt sem það nær, en stundum
hefði ekki verið úr vegi að segja dálítið nánar frá einstökum ferðum og leyfa
lesandanum að fylgjast með listamönnunum um landið. Inn í frásagnir þess-
ar hafa slæðst nokkrar villur og virðast sumar þeirra stafa af skökkum þýð-
ingum á hinum enska texta höfundarins. Þannig er Hans Frisak gerður að
skipstjóra á bls. 33. Hann var kapteinn í dansk-norska landhernum og vann
hér árum saman að strandmælingum. Á bls. 67 segir frá klyfsöðlum, en þar
mun átt við reiðinga eins og sjá má á myndinni á næstu síðu. Á bls. 48 segir
frá því, að Englendingar hafi sökkt danska flotanum árið 1807. Þeir tóku
hann og höfðu heim með sér. Þá segir að Frakkar hafi stundað þorsk- og
hvalveiðar við ísland frá upphafi 19. aldar (bls. 56). Þessar veiðar hófust
löngu fyrr, og upp úr miðri 18. öld voru þeir farnir að senda hingað herskip
til eftirlits með fiskiflota sínum. Það er heldur ekki rétt að Kristján VIII. hafi
sent krónprinsinn til íslands árið 1834 (bls. 58). Það gerði Friðrik VI. enda
kom Kristján VIII. ekki til ríkis fyrr en fimm árum síðar. Á bls. 77 hefur fallið
niður lína í íslenska textanum. Allt er þetta í rauninni smávægilegt, en þó til
óprýði á bók sem er jafn prýðileg að öðru leyti.
Á bls. 76 segir frá því, að þegar Napóleon Frakkaprins var hér á ferð árið
1856, hafi hann farið þess á leit við stiftamtmann, að franski fiskiflotinn fengi
Arnarhól til þess að verka þar fisk sinn. Fyrir þessari sögusögn er borinn hol-
lenskur skipstjóri, sem hingað kom um sömu mundir með ríkisarfa
Hollands. Þetta er í rauninni skondin saga, þar sem um tún stiftamtmanns-
ins sjálfs var að ræða. En skyldi þetta ekki fremur byggt á misskilningi eða
orðrómi, sem hollensku gestunum hefur borist til eyrna? Sagan er að
minnsta kosti ekki kunn af öðrum heimildum, en alkunnugt að Frakkar sóttu
fast að fá hér aðstöðu í landi vegna fiskveiða sinna, og var margt um það
skrafað fyrir opnum tjöldum og vafalaust ekki síður manna á milli.
Með bók þessari eins og hinni fyrri hefur Frank Ponzi unnið ágætt verk.
Það hefur ugglaust verið snúningasamt að hafa uppi á sumum myndanna,
þó að aðrar hafi verið nær hendi. Það er ekkert áhlaupaverk að leita land úr
landi, spyrjast fyrir, rannsaka söfn og afla góðra ljósmynda af því sem finnst.
Og er þá að lokum eftir að skila þeim gegnum prentvélar svo vel fari.
Þótt hér að framan hafi verið gerðar nokkrar athugasemdir við lesmál