Félagsbréf - 01.07.1957, Blaðsíða 10
8
FÉLAGSBRÉF
frumlegur og fágaður stíll er ekkert takmark í sjálfum sér,
form ekki heldur. Við dæmum ekki náungann eftir fötum,
sem hann kann að klæðast, heldur þeirri persónu, sem hann
hefur að geyma. Við eigum ekki heldur að dæma bókmenntir
eftir stíl og formi eingöngu, heldur fyrst eftir því lífi, sem
í þeim er að finna, eftir þeim mannlega þroska, sem í þeim
er fólginn. 0g það er hlutverk íslenzkra skálda og rithöfunda
að skapa íslenzkar bókmenntir, en til að skapa íslenzkar bók-
menntir verða þeir að hafa til að bera íslenzka reynslu, þekkja
íslenzkt líf eins og því er lifað í „þjóðardjúpinu" sem Kiljan
kallaði svo í nóbelsverðlaunaræðunni. Það er kannski hægt
að læra vinnubrögð í París, læra að verða stíl- og formsnill-
ingur, en slík snilli er íslenzku skáldi eða rithöfundi einskis-
virði nema hann eigi hið innra með sér, í huga sínum og þó
umfram allt í hjarta sínu þann mannlega þroska og þau þjóð-
legu verðmæti, sem ein geta orðið efniviður sannra íslenzkra
bókmennta".
Ýmsir af hinum yngri stallbræðrum Jónasar eiga því miður
ekki þetta sjónarmið með honum. Þeir virðast sumir hverjir
ausa nær eingöngu af erlendum bókmenntalindum og leita jafn-
framt ekki nógu víða að fyrirmyndum. En fátt er hættulegra
ungum höfundi en einblína á einn meistara, þótt mikill sé, og
skapa verk sín, vitandi og óafvitandi, í hans mynd. Þetta getur
eyðilagt höfundarframtíð þeirra eða tafið þroska þeirra um
ófyrirsjáanlegan, en dýrmætan tíma.
Elztir þeirra höfunda, sem gáfu út smásagnasöfn í vetur, eru
Jakob Thorarensen og Halldór Stefánsson, báðir gamlir og grónir
smásagnahöfundar með fullmótuð höfundareinkenni.
Þótt Jakob Thorarensen væri lengi kunnastur fyrir ljóð sín,
og fyrstu áratugina á rithöfundabrautinni aðeins kunnur fyrir
þau, hefur hann á öðrum fjórðungi aldarinnar unnið sér álit
sem smásagnahöfundur, og hafa komið út eigi færri en sex
sagnasöfn eftir hann, að því með töldu, sem hér um ræðir.
Sjónarmið eldri kynslóðarinnar setja svipmót sitt á sögur