Milli mála - 01.01.2011, Side 102
102
henni við hirðina þar sem hún hitti drottninguna. Ida Pfeiffer hefur
líklega ekki verið af nægi lega fínum austurrískum ættum til þess
að eiga greiðan aðgang að samfélagi heldra fólksins á Íslandi og í
samskiptum sínum við stift amtmanninn hefur hún ekki náð að
vekja áhuga hans á því að aðstoða sig. Hann hafði ráðið henni frá
förinni og því ekki fundist hann skuldbundinn henni á neinn hátt.
Ida Pfeiffer lagði sig ekki fram um að kynnast Íslendingum.
Ina von Grumbkow lýsir upplifun sinni og föruneytis síns á
hverjum stað, hún segir frá rannsóknum Hans Reck á jarðfræði
lands ins og hvar og hvernig hún teiknaði íslenska náttúru. Sam-
skipti fylgdarmanns við heimamenn, þar sem hún getur sér oft til
um umræðuefnið, ratar einnig í lýsingar hennar, hún lýsir máltíðum
þeirra á ferðalaginu, gerir góð skil erfiðinu við að koma farangrin-
um á milli staða, svo að ekki sé minnst á lýsingar á líðan og ástandi
hestanna. Lýsingar Idu Pfeiffer eru einnig mjög ítarlegar, við fangs-
efnunum er lýst af stakri nákvæmni og eru þær að því leyti mjög
góð heimild um það sem fyrir augu bar. Frásögn hennar ber vott um
ríka athyglisgáfu og hefur að geyma ýmsan fróðleik. Ágætt dæmi
um það eru lýsingar hennar á íslenskum híbýlum sem hún flokkar
í „evrópsk“ og „íslensk“. Húsakynni danskra embættismanna og
fólks úr yfirstéttinni minntu hana á evrópskan stíl og þeim lýsir
hún ekki eins nákvæmlega og íslensku torfbæjunum23 sem hún
kynnist í Reykjavík. Þessi lýsing gefur góða vísbendingu um það
hversu gerólík húsakynnin voru þeim sem hún átti að venjast og
hversu framandi þau hafa verið í hennar augum:
Næst kom ég inn í nokkra kofanna [sic], sem reyndust vera miklu mun
íslenzkari. Þeir eru litlir og lágir, hlaðnir úr hraungrýti og torfi og þekjan
öll grasi gróin. Það hefði auðveldlega mátt villast á þeim og náttúrulegum
mishæðum á jörðinni, ef tréstromparnir, lágar dyrnar og hartnær ósýnilegir
gluggarnir hefðu ekki ljóstrað því upp, að þeir voru mannahíbýli.24
Ina von Grumbkow lýsir ekki heimilum alþýðufólks, en af lýsingu
hennar á heimsókn til Havsteensfólksins við Akureyri að dæma er
23 Ida Pfeiffer kallar torfbæina ‘die Kote’ og ‘die Koten’ á þýsku.
24 Ida Pfeiffer, Íslandsferð fyrir 100 árum, bls. 9.
Í FÓTSPOR FERðALANGA