Milli mála - 01.01.2011, Blaðsíða 16
16
Hvað felst í því að taka ekki þátt í leiknum? Svarið er einfalt, segir
Camus, hann neitar að segja ósatt. Að segja ósatt er ekki einungis
að segja það sem ekki er, það er líka, og enn fremur,
að segja meira en það sem er og þegar maðurinn á í hlut, meira en við
finnum. Það gerum við öll, alla daga, til að einfalda lífið. Meursault vill
ekki einfalda lífið, þótt halda mætti hið gagnstæða. Hann talar hreint út,
neitar að fela tilfinningar sínar og umsvifalaust finnst samfélaginu hann
ógna sér.14
Camus bætir svo við: „Það væri því ekki fjarri lagi að lesa Útlend-
inginn eins og sögu um mann sem án nokkurs hetjuskapar fellst á að
deyja fyrir sannleikann.“15 Sá sannleikur er ekki morðið á arabanum,
sem bindur þó enda á hversdagslega tilveru Meursault og líf hans,
heldur viðhorf hans til ýmissa þátta tilverunnar.
Þegar Meursault er spurður hvort hann vilji sjá móður sína áður
en hún verður jörðuð neitar hann án þess að vita hvers vegna. Þegar
Marie spyr hvort hann elski hana segir hann að það hafi enga merk-
ingu og að öllum líkindum elski hann hana ekki; þegar hún spyr
hvort hann vilji giftast henni er honum sama. Við réttarhöldin er
hann spurður hvort hann sjái eftir því að hafa drepið arabann og
hann svarar að honum finnist það frekar leiðinlegt en að hann iðrist
þess. Það felst ákveðin kaldhæðni í því að deyja fyrir sannleika af
þessu tagi og því er freistandi að leysa upp nafn söguhetjunnar og
lesa úr því meurs sot (‘deyðu heimskur’) sem hljómar eins í frönsku.
Við það fær Meursault kómískt yfirbragð og þótt fáum stökkvi bros
við lestur Útlendingsins má hafa í huga orð höfundarins þegar hann
var spurður árið 1959 hvort þeim sem fjölluðu um verk hans hefði
sést yfir eitthvert þema sem væri mikilvægt í hans augum:
„Húmorinn“, svaraði Camus.16 Í riti sínu In Search of Authenticity
túlkar Jacob Golomb svar Camus á þann veg að hér eigi höfundur
við kaldhæðni eða íroníu og vissulega er nóg af henni í Útlendingnum.17
14 Sama rit, bls. 215.
15 Sama rit, bls. 216.
16 Three Interviews, í Albert Camus, Lyrical and Critical Essays, ritstj. Philip Thody, New York:
Vintage Books, 1970, bls. 345–365, hér bls. 362.
17 Jacob Golomb, In Search of Authenticity. From Kierkegaard to Camus, London og New York:
Routledge, 1995, bls. 181.
ÚTLENDINGUR OG ÓVITI