Læknablaðið - 15.11.2005, Blaðsíða 79
UMRÆÐA & FRÉTTIR / BROSHORNIÐ 63
Barnamagnýl og tvíslá
Hálf barnamagnýl
Þetta var á þeim árum að ekki var búið að upp-
götva hjartamagnýl. Eldri herra sem þekkti heim-
ilislækninn sinn vel og hafði átt gott og farsælt sam-
starf við hann áratugum saman kom í heimsókn og
vildi ræða um lyfin sín.
Gamli maðurinn var vel ern og þurfti að hafa
alla hluti fullkomlega á hreinu.
Læknirinn útbjó lyfjakort og fór síðan yfir kort-
ið, lyf fyrir lyf.
„Svo er alveg nóg fyrir þig að taka hálfa barna-
magnýl á hverju kvöldi,“ sagði læknirinn.
„Hvað á ég þá að gera við hinn helminginn af
töflunni?" spurði sá gamli.
Borðað eftir fæðingu
Frumbyrja sem komin var á tíma var orðin vel þekkt
á fæðingardeildinni vegna þess að hún hafði komið í
fleiri skipti en fimm upp á deild með fæðingarhríðir
sem hættu um leið og hún steig inn fyrir þröskuldinn
á deildinni. Loks kom að því að hún fæddi og allt
gekk eins og í sögu. Þegar fæðingin var afstaðin leit
deildarlæknirinn sem hafði hitt konuna nokkrum
sinnum áður inn til hennar til að óska henni til ham-
ingju. Hin nýorðna móðir sat upp í rúmi sínu eins
og drottning og eiginmaðurinn í stól við hliðina og
bæði brostu þau hringinn. Hjónin voru að ljúka við
matinn þegar læknirinn spurði:
„Jæja, Anna mín, hvað fékkstu?“
Sigri hrósandi svaraði Anna: „Ég fékk mér
spagetti.“
Húðflúr á bringunni
Hraustur og stæltur 35 ára karlmaður kom til lækn-
is í almenna skoðun vegna þess að hann þurfti að
fá heilbrigðisvottorð. Læknirinn gat ekki annað
en tekið eftir risastóru húðflúruðu konuandliti á
bringu mannsins.
„Þetta er mynd af fyrrverandi eiginkonu minni,“
sagði maðurinn.
„Nú á dögum er hægt að fjarlægja svona húðflúr
með sérstakri tækni ef óskað er,“ sagði læknirinn.
„Nei, ekki fyrir mig,“ sagði maðurinn. „Ég lét
tattóvera mig eftir að við skildum. Þegar ég lít í
spegil á morgnana er ég minntur á að gera ekki
sömu vitleysuna aftur að gifta mig.“
Lyfjaofnæmi
Þreytulegur og dálítið sjúskaður maður á miðjum
aldri kom á bráðamóttökuna og var spurður: „Ertu
með ofnæmi fyrir einhverjum lyfjum?"
„Já, ég held að ég sé með ofnæmi fyrir lyfi sem
heitir antabus. Alla vega verð ég fárveikur þegar
ég fæ mér sjúss eftir að hafa tekið lyfið.“
Skoðun eftir áfall
Aðstoðarlæknirinn var að framkvæma taugaskoð-
un á gamalli konu sem talin hafa fengið blóð-
tappa í heilann. Þegar hann kannaði styrkleika í
andlitsvöðvum með því að biðja hana að brosa og
sýna tennurnar gerði hún sér lítið fyrir, galopnaði
munninn, tók út báða gómana og skellti fölsku
tönnunum á borðið.
Læknahúmor
Það er heilög regla að læknir má aldrei vera fynd-
inn á kostnað sjúklings. Stundum er farið býsna
nálægt mörkum þess leyfilega. Ef læknir og sjúk-
lingur þekkja hvor annan vel er minni hætta á að
húmorinn misskiljist. Eftirfarandi saga leiddi til
þess að sjúklingur og læknir gátu hlegið saman vel
og lengi.
Sjúklingur kom til héraðslæknisins sem þótti
ástæða til að skoða hægðasýni frá manninum í
smásjá til að leita að ormaeggjum. „Ormar, ég trúi
því ekki að ég sé með orma,“ hrópaði sjúklingur-
inn upp yfir sig í skelfingu. „Svona, stilltu þig,“
sagði læknirinn, „það gæti verið verra.“ „Verra,
hvað meinarðu?“ spurði maðurinn. „Það hefði
getað verið ég,“ sagði læknirinn sposkur.
Á tvíslá
Sjúkraþjálfarinn var að fara yfir æfingaáætlun með
manni sem hafði slasast á hné. Maðurinn hafði
þurft að fara undir hnífinn og nú var komið að
endurhæfingunni. „Við byrjum á því að æfa okkur
á tvíslánni," sagði sjúkraþjálfarinn. Sjúklingurinn
varð dálítið hikandi þegar hann sagði: „Ég var
aldrei neitt sérstaklega góður í leikfimi.“
Fjölgun í fjölskyldunni
Stundum talar maður af sér og óskar þess heitast af
öllu að geta gufað upp á staðnum.
Ung móðir í góðum holdum kom með veikan
tveggja ára gamlan son sinn til heimilislæknisins.
„Bráðum kem ég svo með nýjan viðskiptavin til
þín,“ sagði konan. „Já mér sýndist þú vera komin
vel á leið, átta mánuðir eða svo, er það ekki?“
spurði læknirinn og horfði gaumgæfilega á kon-
una. „Nei,“ sagði konan og var ekki skemmt, „við
hjónin erum að fara að ættleiða barn.“
Bjarni Jónasson
bjarni.jonasson@hg. is
Bjarni er heimilislæknir
í Garðabæ.
Læknablaðið 2005/91 879