Þjóðlíf - 01.03.1988, Síða 18
Þjóðlífsmótið í tölvuskák:
INNLENT
Fyrsta tölvumótið á íslandi
Kasparov-fjölskyldan sigursæl á Þjóðlífsmótinu, en Novag
stal senunni. Gífurleg spenna á fyrsta tölvumótinu á ís-
landi.
Spennan var rafmögnuð þegar Kasparov
Express 16 og Novag Forte B hófu síðustu
skákina á fyrsta skáktölvumótinu sem haldið
hefur verið hér á landi. Novag Forte B þurfti
að vinna Kasparov til þess að tryggja sér
sigurinn — og titilinn „Þjóðlífsmeistari í
tölvuskák“. Kasparovtölvan hafði mjög sótt í
sig veðrið seinni hluta mótsins og var til alls
líkleg. Framan af skákinni virtist hún líka
standa betur og jafnvel til vinnings. Novag-
tölvan lék mönnum sínum af fullkomnu
áhugaleysi miðað við þann heiður sem í húfi
var. En eftir að Kasparov Express lék hroða-
lega af sér í 41. leik tók Novagtölvan við sér og
innbyrti vinninginn án mikillar andspyrnu.
Þegar Kasparov blikkaði til merkis um mát
var Novag Forte B orðinn skákmeistari tölva.
Þegar Mikail Botvinnik, þrefaldur heims-
meistari í skák, hætti að tefla opinberlega í
kringum 1970 snéri hann sér m.a. að því að
vinna að þróun skáktölvu. Mikail er enn að
og tölvan hans verður æ fullkomnari og hefur
tekið þátt í heimsmeistarakeppninni í tölvu-
skák með ágætum árangri. Sumir hafa litið
svo á að í raun væri við hæfi að heimsmeistari
snéri sér að því að hanna rafeindaskáksnill-
ing: því fyrr eða síðar kæmi skáktölva fram á
sjónarsviðið sem enginn mannlegur máttur
gæti sigrað.
Ennþá er engin tölva til sem sigrað getur
hinn raunverulega Kasparov — og ekki held-
ur Karpov eða Jóhann Hjartarson. Sterkustu
skáktölvurnar ná á góðum degi að sigra al-
þjóðlega meistara, en ekki meira. Þær tölvur
eru hinsvegar ekki á almennum markaði,
enda bæði miklar um sig og dýrar. Aftur á
móti er hægt að kaupa tölvur hér á landi sem
kosta frá tvöþúsund krónum og upp úr. Og
þessar tölvur er alveg takk bærilega sterkar
— Þjóðlífsmeistarinn ert.a.m. ekki auðunn-
inn á fyrsta styrkleikastigi af fjórtán. Það
fékk undirritaður áhugamaður um skák að
reyna á sjálfum sér . . .
Keppendurnir
Tólf tölvur mættu til leiks á Þjóðlífsmótið,
frá þremur framleiðendum: Novag, Kaspar-
ov og Fidelity. Verð þessara tölva er á bilinu
Davíð og Golíat: Tölvurnar á Þjóölífsmót-
inu voru mismiklar um sig, dæmi um það
er Fidelity Elegance og Nogvag VIP. Sú
fyrrnefnda stendur vel undir nafni, viðar-
klædd og virðuleg. Novag litli er hinsveg-
ar ekki stærri en vasareiknivél.
fjögur til tuttugu og fjögur þúsund og því
mismikið í þær lagt, bæði að útliti og innræti.
Novagtölvurnar sem þátt tóku í mótinu
voru Forte B, Primo, Accord og VIP. Mikils
var vænst af Kasparovtölvunum Turbo King,
Contpanion 3, Express og Turbo 24k, enda
hefur samnefndur heimsmeistari fyrir sitt
leyti lagt blessun sína yfir þær. Fidelitytölv-
urnar státuðu hinsvegar glæsilegustu nöfn-
unum: Elegance, Excellence, Par Excel-
lence og Classic.
Tölvurnar tefldu allar innbyrðis svo sem
sjá á meðfylgjandi mótstöflu. Þeim voru
skammtaðar fimm sekúndur á hvern leik, og
finnist einhverjum það helstil lítið skal á það
bent að sæmileg tölva hugsar jafnmikið á
fimm sekúndum og fótboltalið á heilu
keppnistímabili.
Glæsileg byrjun Forte B
Það er skemmst frá því að segja að Þjóð-
lífsmótið í tölvuskák varð allt eins spennandi
og skákmót atvinnumanna: margar glæsileg-
ar skákir sáu dagsins ljós. Tölvur eru umfram
allt praktískar í skák, þær eru lítið gefnar
fyrir fórnir sem ekki gefa strax í aðra hönd,
annaðhvort mannsvinninga eða mát. Þær
eru oft lengi að dunda við að byggja upp
trausta stöðu en eru hinsvegar mislagnar við
að moða úr henni. Sumar eiga það til að
byrja að þráleika strax í miðtaflinu vegna
skorts á ímyndunarafli. Þær eru síðan eld-
snöggar að koma auga á afleiki hjá andstæð-
ingi sínum og þannig verður viðureign
tveggja skáktölva oft aðeins bið eftir því að
önnur leiki ónákvæmt. Sumar tölvur hafa
býsna þroskað stöðumat og beinlínis ryðja
mótherjanum út af borðinu.
í fyrstu umferð Þjóðlífsmótsins gaf Forte
B fyrirheit um það sem koma skyldi þegar
hún pakkaði Kasparov Turbo snyrtilega
saman. Kasparov Turbo King sýndi hinsveg-
ar hvað býr í þeim frændum með glæsilegum
sigri á aðaltrompi Fidelity, Par Excellence.
Sú tölva hreppti mikinn mótbyr í byrjun: í
annarri umferð varð hún fórnarlamb Forte B
og í næstu tveimur umferðum komu jafntefli.
Þá tók hún sig aldeilis saman í andlitinu og
vann síðustu sjö skákirnar! Það var enda-
sprettur í anda Jan Timmans og Par Excel-
lence stóð svo sannarlega undir nafni.
Forte B var óstöðvandi í byrjun og vann
fyrstu fimm skákirnar. í sjöttu umferð mætti
hún Fidelity Elegance sem hefndi ófara Par
Excellence með sannfærandi sigri. Eftir sex
umferðir áttu fimm tölvur möguleika á að
sigra: Forte B var með 5 vinninga; Kasparov
Express 16, Kasparov Turbo 24 og Fidelity
Elegance voru allar með fjóra og hálfan
vinning og Kasparov Turbo King var með
fjóra.
Kasparovfjölskyldan lenti hinsvegar í erf-
iðleikum síðari hluta mótsins: Turbo 24 tap-
aði fimm síðustu skákunum og Express 16
þremur síðustu. Það var Kasparov Turbo
King sem stóð sig best með góðum enda-
sprett.
Þrjár af tölvunum áttu mjög erfitt upp-
dráttar, ein frá hverjum framleiðenda. Fid-
elity Classic stóðst ekki snúning nútímalegri
tölva og hlaut einungis einn vinning; Novag
Accord fékk hálfum betur og Kasparov
Companion fékk tvo vinninga.
18