Læknablaðið : fylgirit - 01.06.2010, Qupperneq 96
Boston City Hospital 1909. Fremst sést Harrison Avenue, en aftan viö spítalann er Albany Street. Til liægri er Massachusetts
Avenue, en til vinstri er E. Concord Avenue.
meðferðar þunglyndissjúkling, sem af einhverjum
ástæðum varð mun betri. Sjúklingurinn var
vinur Abraham Flexners (1866-1959), sem sá
um styrkveitingar Rockefellerstofnunarinnar.101
Skoðun Flexners var sú, að háskólakennarar í
læknisfræði ættu að hafa aðstöðu til að helga sig
klínískri kennslu og rannsóknum. Hann fékk
mikið álit á Cobb eftir lækningu vinar síns, og
þegar hann fékk fregnir af hugmyndum um nýja
prófessorsstöðu á Harvard, sem var í hans anda,
var ákveðið árið 1925, að Rockefellerstofnunin
fjármagnaði stöðuna. Deildin þurfti nýtt húsnæði,
og var ákveðið að byggja það við BCH. Árið 1930
flutti taugadeildin inn í nýja húsnæðið með Cobb
sem yfirmann.
Cobb var ekki aðgerðarlaus þau fimm ár, sem
það tók að reisa bygginguna. Árið 1923 hafði hann
farið til Evrópu á Rockefellerstyrk og verið þar
næstu tvö árin. Hann var sex mánuði í London
á Queen Square hjá Henry Head, sex mánuði í
París hjá Jacques Jean Lhermitte (1877-1959) á
Salpétriére og sex mánuði í Berlín hjá Oskar og
Cécile Vogt á Neurobiologisches Universitats-
Laboratorium. Eftir heimkomuna hélt hann áfram
að byggja upp rannsóknarstöð í taugameinafræði
við Harvard. Áhersla var lögð á rannsóknir á
flogaveiki. Dýramódel voru notuð af mikilli
hugkvæmni. Byrjað var að nota heilarit. Þarna
störfuðu með Cobb margir brautryðjendur eins
og taugalæknarnir William Gordon Lennox
(1884-1960) og Frederic Andrews Gibbs (1903-
1992) og taugalífeðlisfræðingurinn Hallowell
Davis (1896-1992), sem lýstu fyrstir oddum og
hægum bylgjum í heilariti sjúklinga með petit
mal flogaveiki.102 Albert Melvin Grass (1910-
1992) var rafmagnsverkfræðingur deildarinnar.
Hann smíðaði heilaritstæki fyrir deildina, en
stofnaði síðan Grass Instrument Company og
hóf framleiðslu heilaritstækja í stórum stíl.67 H.
Houston Merritt byrjaði í taugalæknisfræði á
BCH 1928, og Tracy Jackson Putnam hóf þar störf
sem taugalæknir og taugaskurðlæknir 1930. Sá
samstarfsmaður, sem Cobb hafði mestar mætur
á, var Harold G. Wolff, en hann er best þekktur
fyrir rannsóknir á mígreni. Hann var tvö ár hjá
Cobb í Boston, fór eftir það til Adolf Meyers í
Baltimore. Hann var síðan eitt ár hjá Pavlov í
Leníngrad og eitt ár hjá Otto Loewi (1873-1961) í
Graz í Austurríki. Wolff varð prófessor á Cornell
í New York og eftirmaður Foster Kennedys.
Cobb fékk áhuga á sálkönnun og fór sjálfur í
meðferð. Stam hafði hrjáð hann frá barnæsku,
og það eina, sem hafði hjálpað honum verulega,
var sálkönnunin. Árið 1934 yfirgaf hann BCH
og fór yfir á MGH og stofnaði þar geðdeild.
Við starfi yfirmanns á taugadeildinni á BCH
tók Tracy Jackson Putnam, bróðursonur fyrsta
prófessorsins í taugalækningum á MGH eins og
áður segir. Putnam og H. Houston Merritt hófu
samvinnu um að finna lyf við flogaveiki. Fram að
þessu höfðu menn notað brómíð og barbitúröt,
en aukaáhrifin voru mikil. Þeir framkölluðu flog
hjá köttum með rafstuði og ákvörðuðu síðan
breytingu á straumstyrkleika, sem þurfti til að
framkalla flog, eftir að hafa gefið köttunum
mismunandi lyf. Þeir komust að því, að phenytoin
hækkaði krampaþröskuldinn margfalt miðað
við önnur lyf og hafði tiltölulega lítil aukaáhrif.
96 LÆKNAblaðið 2010/96 Fylgirit 64