Frjáls verslun - 01.01.2009, Page 83
F R J Á L S V E R S L U N • 1 . T B L . 2 0 0 9 83
sótt ýmis námskeið. Það er svo mikilvægt
að sá sem missir vinnuna haldi sér í þeim
farvegi þar sem flest af því sem hann gerir sé
einhvern veginn vottað. Þegar hann kemur í
atvinnuviðtal er hann kannski spurður hvað
hann hafi verið að gera undanfarna átta
mánuði og þá getur hann afhent möppuna.“
Hafa yfirsýn
Sigríður segir að mikilvægt sé fyrir
atvinnulausa einstaklinga að halda
reglulegum svefni og ganga til hvers dags
sem vinnudagur væri. „Þá er mikilvægt
að hafa yfirsýn yfir það í hvað maður ver
tíma sínum,“ en það er einmitt það sem
hugmyndafræðin gengur út á. „Þeim mun
fleiri jákvæðar lífsvenjur og þeim mun betur
sem viðkomandi tekst að halda hinum
neikvæðu og slæmu lífsvenjum frá, þeim
mun meiri möguleika á hann. Vissulega eru
atvinnulausir án yfirmanns og vinnufélaga
en þá er bara að hugsa þetta tímabundna
ástand þannig að menn setji okkur og
mentorinn í staðinn fyrir yfirmanninn
og að félagarnir í „Nýttu kraftinn“ komi
í stað vinnufélaga. Það sem er erfiðast í
þessu er sorgin og höfnunin en það sem er
næsterfiðast er að hafa ekki hlutverk. Þess
vegna er um að gera að eiga við sorgina og
búa sér til hlutverk.“
Tímabundið á varamannabekk
Sigríður er í launalausu leyfi og hefur lært
ýmislegt á undirbúningi og síðar tilrauna-
ferlinu með „Nýttu kraftinn“. „Fyrst og
fremst hef ég kynnst mörgum sem misst
hafa vinnuna. Þetta er glæsilegur hópur
sem heldur áfram sínum hetjudáðum og
nú við erfiðar aðstæður. Upphaflega hug-
myndin okkar var að standa sjálfar að nám-
skeiðum, ýmist til sjálfsuppbyggingar eða
til að efla almenna færni á vinnumarkaði.
Það reyndist algjör óþarfi því stéttarfélögin
og Vinnumálastofnun standa að frábærum
námskeiðum og okkar eina hlutverk er að
aðstoða námsráðgjafana við að mæla með
þeim. Sjálfsprottin fyrirtæki og starfsemi af
ýmsum toga hafa aukið framboðið og ég
hvet alla til að máta sig við sem flest, upplifa
starfsþjálfunina sem felst í sjálfboðastörfum,
læra að stofna fyrirtæki, sækja námskeið til
að víkka hugann, finna nýtt áhugamál eða
læra eitthvað alveg nýtt frá grunni með það í
huga að breyta um starfsvettvang. Mikilvæg-
ast er að forðast einangrun og mentorarnir
okkar eru leið til að halda sér í tengslum við
vinnumarkaðinn með því að hitta mentor-
inn á hans vinnustað. Sumum finnst óþægi-
legt að vera spurðir hvað þeir séu að gera.
Við því er ósköp einfalt svar fyrir þá sem eru
í „Nýttu kraftinn“ en allir geta sagt að þeir
séu leikmennirnir á vellinum sem sitja sem
stendur á varamannabekk en verða flautaðir
inn á völlinn von bráðar.“
María Björk Óskarsdóttir og Sigríður Snævarr standa að „Nýttu kraftinn“. Á námskeiðinu byggja þær upp kraft og jákvæðni fyrir atvinnulausa.