Tímarit Máls og menningar - 01.03.1951, Blaðsíða 15
HVAR STENDUR ÍSLAND?
5
um fram. Hvar sem þjóðir brjóta af sér okið, þá fjötra sem liggja á
vísindum og eðlilegri hagþróun, verða framfarir meiri en við látum
okkur dreyma um. Fyrir mannkyninu er á þessari öld lokið upp auði
sem býður því allsnægtir hvar sem leyft er að rétta út hendurnar eftir
honum. En ávextir falla ekki úr skýjum, heldur spretta á lifandi trjám,
og þjóðir er hægt að slíta úr tengslum við þróunina, halda þeim í
ánauð, binda krafta þeirra, og jafnvel særa þær til ólífis í styrjöld.
Eitt af því sem er varasamt fyrir íslendinga, ef þeir vilja sjá fram í
tímann, er að gera sér ekki grein fyrir, með hvaða hætti þeir hafa
öðlazt gæði þessarar aldar. Þau hafa að vísu eins og borizt upp í
hendur, oft án fyrirhafnar, en eru þó ekki komin af sjálfu sér, öðru
nær; kynslóð eftir kynslóð hefur orðið að fórna kröftum, þjást og
falla í valinn,til þess aðvið mættum lifa og njóta ávaxta af þreki þeirra,
vizku og baráttu. Það er varasamt að hafa kannski gleymt því, hver er
sjálf undirstaðan að allri velmegun okkar og gæfu á þessari öld. Kunn-
ugt er að með öldinni komst ísland í tengsl við framfaraþróun um-
heimsins, raunverulega löngu á eftir tímanum. Við það urðu framfarir
hér að ýmsu leyti skyndilegri og hraðari en ella, þar eð vísindi og tækni
annarra þjóða bárust fullgerð í hendur, og hér sem annars staðar hefur
tækniþróunin verið framvinduaflið. En við hefðum eins getað legið
hálfa öld til í miðaldaleginu forna, þrátt fyrir erlend vísindi og véla-
menningu; næg dæmi eru þess um aðrar nýlendur. Undirstöðuskilyrð-
ið er því annað: sigrarnir stig af stigi í sjálfstæðismálum þjóðarinnar.
Það vantar og ekki heldur að þessi staðreynd sé viðurkennd, í orði,
eða nógu oft endurtekin; stjórnmálamenn hafa fyrir löngu hrópað sig
hása um hana á tyllidögum, en hafa um leið eins og dauðsljóvgað eyru
þjóðarinnar fyrir innihaldi hennar. En hún er eins sönn fyrir því, og
þjóðinni hefur aldrei verið jafn nauðsynlegt sem nú að skilja hana til
hlítar. Það var 19. öldin, sjálfstæðisbarátta hennar, sem lagði allan
grundvöllinn að velmegun Islendinga á þessari öld, Jón Sigurðsson
öllum framar sem gaf þjóðinni ísland aftur, endurheimt úr niðurlæg-
ingu og áþján. Verður hvorki vefengt né lögð á það nógsamleg áherzla
að með hverju spori til aukins sj álfsforræðis, í stjórnarfari og verzlun,
fylgdu framfarir, auður og menning, og þó af mestu afli eftir að við
fengum algert fullveldi 1918. Án sjálfsforræðis væru íslendingar ekki
betur á vegi staddir en Grænlendingar; eða enn á 17. aldar stigi. Sjálf-