Tímarit Máls og menningar - 01.05.1962, Page 39
LITLA BÓKIN UM SÁLINA OG HALLDÓR LAXNESS
maður nálgast það að vera manna
ríkastur af taó, samkvæmt skilningi
Halldórs.
„Það er ólánið sem því veldur að
menn fara í ferðalög,“ segir amma
við drenginn Álfgrím. Það er ekki
laust við að Halldór Kiljan Laxness
hafi lent í ferðalögum, í víðtækasta
skilningi orðsins: um lönd og menn-
ingartímabil, um stefnur og skoðanir.
Hann hefur ekki fengið að vera kyrr
í eilífðarsælu einhvers Brekkukots, og
hefur sjálfsagt ekki viljað það heldur.
Kyrrðin og afskiptaleysið hafa yfir-
leitt ekki sett svip sinn á feril hans.
En þessi baráttunnar maður hlýtur
að hafa lagt mikið af eigin reynslu í
eftirfarandi orð Álfgríms um Björn
afa:
Þessi þegjandi nœrvera hans á
hverjum lófastórum bletti í Brekku-
kotspartinum, — það var einsog að
liggja við stjóra; sálin átti í honum
það öryggi sem hún girntist. Enn
þann dag í dag þá finst mér oft einsog
hurð standi á hálfa gátt einhvers-
staðar skáhalt við mig eða á bakvið
mig; og hann afi minn sé þar inni
eitthvað að duðra.
Þessi nærverutilfinning, þetta ör-
yggi nálægt óbrotnu, falslausu al-
þýðufólki eins og afa og ömmu í
Brekkukoti er í ætt við kjarna lífsins,
já, því ekki við — taó. En ætli sú
reynsla hafi ekki verið eitt traustasta
hald skáldsins í lífinu og um leið
megingjörð í hinni stórbrotnu bar-
áttu hans fyrir mannlegum verðmæt-
um?
131