Tímarit Máls og menningar - 01.07.1962, Page 26
ÞÓRIR RAGNARSSON
Þokan
Hún settist ekki hjá honum á dívaninn eins og hann hafði búizt við, heldur
á stólinn við dyrnar. Kannski hafði hana grunað að hann vildi, vera
einn. Hversu oft hafði hann ekki sagt henni að hann vildi vera einn. Oftar en
einu sinni hafði hann jafnvel sagt henni að koma ekki aftur. Hann hafði sært
hana viljandi með takmarkalausri grimmd. Hann gat alltaf séð þegar orð
hans hæfðu í mark. Hann sá það í augum hennar, í öllum svip hennar, það fór
eitthvað að titra innra með henni, eitthvað viðkvæmt og brothætt. Það var á
slíkum stundum að djöfulskapurinn greip hann, hann varð fagnandi, sigur-
viss og öruggur, þá ætlaði hann að særa tár úr augum hennar, og hann ætlaði
ekki að sýna henni meðaumkun, einungis móta hana með hendi sinni, sveigja
hana til undirgefni, en hún hafði aldrei tárazt, ekki sýnt nein merki þess. Þrátt
fyrir allt var hún ósigrandi. Hann sá það alltaf betur og betur. í huganum
hafði hann líkt henni við vindinn, eða þokureykinn sem lagðist eins og fín-
gerð, táin ull í lautirnar inn með firðinum. Einhvern veginn þannig var hún.
Hún sigraði með mýktinni, hún var í rauninni ósnertanleg.
Hún var ekki einu sinni að hafa fyrir því að fara úr kápunni. Hún hafði
grun um hamskipti. Hún var í rauðri kápu sem raunar var of lítil henni og
með bleikan klút um hálsinn. Hún hafði sagt halló þegar hún kom inn fyrir og
stungið vettlingunum í vasann. Þau höfðu ekki sézt í tvo daga. Hann hafði
ekkert sagt, aðeins horft á hana með myrkva og leiða í svipnum. Hún var
átján ára, en virtist miklu eldri, munnsvipur hennar var dálítið dapurlegur,
en hún átti líka sín hvarflandi bros. Augun voru grá og lygn. Hún studdi hendi
undir kinn og horfði á hann þar sem hann sat slyttislega með hnakkann við
vegginn. Hún brosti. Hann vissi varla hvort það var samúðarbros. „Eigum
við ekki að tala saman?“ spurði hún. Hún stóð upp og gekk út að glugganum,
drap hendinni á gluggakistuna og horfði út. Það var byrjað að rökkva í her-
216