Tímarit Máls og menningar - 01.11.1974, Blaðsíða 13
Þóroddur Guðmundsson
Kertið, harpan og hjartað
Til minningar um Guðmund BöSvarsson
Líkt Norna-Gesti gamla, þeim sem góða kertið átti,
það sem entist honum lengur en aldir fullar þrjár,
svo var þér gefið ljósavax í vöggugjöf og tannfé,
er varð oss mörgum leiðarblys um lífsins Kaldadal,
úr myrkri Surtarhellis vorrar blindu eiginelsku
og vísaði oss veginn til þíns kærleiks Kirkjubóls,
unz kerti þinnar ævi brann að lokum o’ní stjakann.
Sem Orfevs forðum hörpu sló og hrærði steina og tré,
svo fékkstu jafnt með gígju þinni grjótið til að hrífast
sem runna Hvítársíðu og hlyni Húsafells
við flautublástur, langspilsleik, er strengi þína stilltir.
A vængjum þeirra óma gaztu arnsúg löngum dregið
og sjónarljósum svifað um Ok og Eiríksjökul
frá enginu þínu græna um sólrík sumarkveld.
Að sönnu eins og Shelley skáld, er átti einstakt hjarta:
því eldur fékk ei grandað, sem hans lík á bál var lagt,
svo barst þú og í brjósti negg, sem bila aldrei kunni,
þótt logar um það læstust af völdum vítisglóðar,
er stríð og hatur stærðu,
hvort sem Bergþórshvoll var brenndur
eða borgir austur í Japan voru gerðar að öskuhrúgum.
Sem öðlingurinn Síðu-Hallur, sá er drenginn missti,
en vildi leggja ógildan og treysta tryggð og grið,
þú áttir mikinn göfugleik sem frelsis-friðarvinur.