Tímarit Máls og menningar - 01.11.1974, Blaðsíða 86
Tímarit Máls og menningar
— nema einu sinni. Og um það fjallar harmleikurinn sem Matthías Jochums-
son samdi um Jón Arason. Og þótt ekki skorti lögfræðina jafnvel í þessum
íslenzka harmleik þá réð lífið sjálft úrslitum í lokin. Því að hér var ekki
um það að ræða hvor málsaðilinn ynni málið frá lögfræðilegu sjónarmiði.
Hér varð sá sem tapaði að greiða þau manngjöld, sem talin eru almennt
dýrust bóta, greiða þau með lífi og blóði sjálfs sín.
Matthías Jochumsson samdi leikritið skömmu fyrir síðustu aldamót og
var gefið út á ísafirði árið 1900. Það heitir á titilblaði:
Jón Arason. | Harmsöguleikur | (Tragedia) | í fimm þáttum.
Hann þýddi leikritið á dönsku og sendi það hinum mikla höfðingja í
heimi danskrar bókmenntagagnrýni, Georg Brandes, og bað hann líta á það.
Þeir Matthías og Brandes voru vel málkunnugir og skrifuðust á og hafa bréf
þeirra verið gefin út. Raunar sætir það nokkurri furðu hve vel hefur farið
á með þessum tveim mönnum, trúarskáldinu íslenzka og hinum danska heið-
ingja og umbrotamanni í bókmenntum Norðurlanda. Svo ólíkir sem þeir
voru að uppruna og lífsskoðun mátu þeir hvor annan mikils, og grunur minn
er sá, að Matthías okkar hafi verið einn af fáum klerkum, ef ekki sá eini, er
skrifaðist á við Brandes, hinn andkirkj ulega uppreisnarmann. Brandes lá þá á
sóttarsæng suður í Normandie er honum barst handritið að leikriti Matthíasar
um Jón Arason. Brandes var ekki hréflatur maður og skrifaði Matthíasi um
hæl og sagði honum álit sitt á leiknum. Hann kallaði leikinn et Lœse-Drama,
þ. e. leikrit sem væri fremur ætlað til aflestrar en sýningar. Honum farast
svo orð í bréfi til Matthíasar 25. sept. 1899:
„Já, kæra skáld, ég las leikrit yðar með athygli og ánægju. Þar sem það er
ekki skrifað handa neinu leikhúsi, því vesalings ísland á ekki heldur neitt
leiksvið, þá eru tilsvörin að vísu löng, en leikritið lifir og er í heild mjög
athyglisvert og þér hafið mig fyrir rangri sök er þér haldið að ég hafi ekki
skilið það til fullnustu.“
Nú eru liðnir þrír aldarfjórðungar síðan þessi orð voru rituð. „Det stakkels
Island“ eins og Brandes orðaði það hefur eignazt leikhús, er getur tekið
þetta „les-leikrit“ til glæsilegrar sviðsetningar. Það horfir því mjög til gam-
ans að Islendingar hafa nú átt kost á að horfa á þetta mikla drama íslands-
sögunnar í leikrænu formi þegar sú saga telur ellefu aldir.
Ef maður er ekki alltof smámunasamur, þá er það ekki mjög fjarri réttu
lagi að telja viðburði siðaskipta miðsvæðis í sögu íslands. En í annan stað
valda þeir einhverjum mestu vatnaskilum í tilveru okkar. I öndverðu geng-
um við Noregskonungi á hönd með skilyrðum og áskildum réttindum. í þrjár
76