Tímarit Máls og menningar - 01.11.1974, Blaðsíða 103
Um stafsetningu, íslenskrar tangu
að í minni sveit hafi tíökast að gera greinarmun í framburði eftir því sem
ritað er, þannig að sérhljóðið væri lengra, þar sem eitt n er í endingum, enda
þótt í áherslulausri samstöfu sé, - nálin - langt i, bollinn - stutt i. Eg hygg,
að sá framburður eigi sér fornar rætur. En þótt svo sé, tel ég vonlaust að
gera hann gildandi fyrir alþjóð.
En þegar ég fór að kynna mér færeyskt ritmál, kom mér til hugar, að ef
til vill gætum við farið að eins og þeir að rita aðeins einfalt n í viðskeyttum
greini og endingum lýsingarorða og lýsingarhátta. Björn M. Olsen ræðir
einnig þetta mál í ritgerð sinni. En hann varpar fram þeirri hugmynd að rita
þarna alls staðar nn, og raunar er það í meira samræmi við framburðinn, þar
sem sérhljóðið verður þarna jafnan stutt í framburði flestra manna.
Ársæll heitinn Sigurðsson skólastjóri, var einhver færasti og lærðasti móð-
urmálskennari í barnakennarastétt. Eitt sinn varpaði ég því fram í viðtali við
hann, hvort við gætum ekki tekið hér upp sömu reglu og Færeyingar, en Fær-
eyingar hafa varðveitt hið forna beygingakerfi norræns máls næstum alveg á
sama hátt og við. „Þetta hefur nú stundum hvarflað að mér,“ sagði Ársæll,
„og leyfa þá þeim, sem sýna vilja lærdóm sinn að setja strik yfir eins og áður
tíðkaðist, þegar tákna skyldi tvöfaldan samhljóða.“
Nú hefur einn ágætur fræðimaður Stefán Karlsson varpað fram svipaðri
hugmynd í grein, sem hann birti í Samvinnunni. Ég held því, að þetta atriði
mætti vel hugleiða.
Vissulega mætti ræða fleiri atriði íslenskrar stafsetningar en ég hef gert
hér. Ég hef kosið að ræða þau helst, sem eru tímafrekust í kennslu, en skipta
litlu máli, þegar meta skal menntandi áhrif móðurmálskennslunnar. Auðvitað
mætti fella niður stafinn X, en það tekur því varla að deila um það, hvort svo
skuli gera. Margir mundu eiga erfitt með að venjast þeim orðmyndum, sem
nú eru ritaðar með x, ef farið væri að rita þær með gs eða ks.
Vinir z-unnar hafa haldið því fram, að óhæfa væri að tala um erfiði við
að læra íslenskt mál. Þetta má vissulega til sanns vegar færa, ef nemendur
hafa erindi sem erfiði. En erfiði, sem lítið eða ekkert gefur í aðra hönd, og
helst gæti vakið óbeit og leiða á námsgreininni, væri bjarnargreiði við nem-
endur og síst til þess fallið að auka veg íslenskrar tungu. Ennfremur hefur z
verið talið það til gildis að margir bestu og færustu unnendur íslenskrar
tungu hafi viljað hana feiga og reynt að ráða niðurlögum hennar, en allt hafi
hún staðið af sér. Sér er nú hver röksemdafærslan. Ekki veit ég betur, en að
mestu vitringar allra alda hafi reynt að vinna bug á vanþekkingunni og
heimskunni, og þó lifir heimskan góðu lífi og mun gera enn um skeið.
93