Tímarit Máls og menningar - 01.11.1974, Blaðsíða 116
Málfríður Einarsdóttir
Þjóðhátíð
Kæra Anna.
Ekki má ég láta hjá líða að gera þig hluttakanda í þeim miklu hátíðahöld-
um, sem fram fóru á Þingvöllum, helgasta stað íslensku þjóðarinnar, í gær,
við mikla hrifningu og fögnuð allra þátttakenda (nema eins) og sólskin af
skafheiðum himni (oftast) sem öllu fólki þótti auka á fegurð landslagsins
(nema einum sérvitringi) og glæða vongleði og ættjarðarást mannfjöldans
svo hjörtun ætluðu að springa af því (nema eitt).
Svo sem fyrir 44 árum var ég viðstödd þarna, og þótt ég sé nú gömul orðin
og sumir kalli mig afgamla, er ég hressari núna en ég var þá. Þá átti ég ekki
von á að lifa til næsta vors, núna er dauðinn óendanlega fjarlægur (að mér
þykir). Þá var dælt í mig sjúkleiksgróðri af mikilli natni, en lækningaað-
ferðir hálf böngulegar þá. Já mikil er sú furða að þrek mitt skuli hafa
staðist. Þreki manns, því er ekki saman fisjað.
Þá var þarna önnur þjóð en núna og miklu fámennari, ekki nærri því eins
rík og vér erum orðin, skár talandi að mig minnir (?), meiri ljóðavinir,
baksandi við það sí og æ að komast inn á menntunarbrautina en komust vænt-
anlega ekki neitt, því enginn dregur sig upp á hári sjálfs sín (nema einn
lygalaupur). Um þetta orti ein fróm sál þetta erindi:
Jón Eiríksson fæddist á Skálafelli hér
og seinna varð hann fremstur landsins sona,
og dæmi hans lýsa oss sem vera ber
menntunarbrautina - megum vér það vona.
Þá stóðu, eins og núna, pótintátar á paldri, með penum orðum og vindi
skeknu hári, því gola var á og ekki eins heitt og í gær. Annars var allt eins;
bærinn stóð þarna og Valhöll (rangnefni, því ekki er vopnbitnum ætlað að
safnast þar saman, að boði kvenna, sem því eiga að ráða hverjir fá að koma
inn, og heita valkyrjur, heldur er hús þetta eingöngu ætlað lifendum), gróð-
urinn rúinn og ljótur, hálfskrældur af þurrkinum, allt í ógnarlegri grámósku
og ófagurt útlits. í rauninni er fátt sem Þingvelli prýðir nema lundurinn
106