Tímarit Máls og menningar - 01.11.1974, Blaðsíða 92
Tímarit Máls og menningar
heimur bera svo mikinn keim af kristni, að jafnvel trúaðir menn eiga hægt
með að draga af þeim lærdóm um mannlegar hvatir, mannlega hegðun og
mannleg vandamál yfirleitt. Það er einnig í algeru samræmi við húmanisma
12. aldar, sem segir í formála að Þiðreks sögu, en hún mun hafa verið gerð á
13. öld: „En hver frásögn mun sýna, að eigi hafi allir menn verið með sömu
náttúru.“ Með því að lesa sögur, getum við kynnzt nýjum einstaklingum, sem
eru sundurleitir að eðli, og um leið öðlumst við betri skilning á fólkinu í
kringum okkur, og að lokum okkur sjálfum.
Eftir þann formála getum við horfið aftur að aðalefni erindisins. Nú er
því oft haldið fram, að hugtökin gœfa og hamingja séu alheiðin að upp-
runa og gegni sömu hlutverkum í Njálu og Laxdælu og þau gerðu fyrir
kristnitöku. Hins vegar hafa formælendur heiðninnar orðið að viðurkenna,
að merking þessara orða hljóti að vera kristin, þegar þau eru notuð í helgra
manna sögum og öðrum þýðingum úr latínu. Samkvæmt þessari skoðun á
orðið hamingja að vera allt annarrar merkingar í Alexanders sögu en Vatns-
dæla sögu, en þetta mikilvæga orð kemur alloft fyrir í báðum sögunum.
Merking orða er engan veginn óháð notkun þeirra, og það væri undarlegt
fyrirbæri, ef íslendingar á 13. öld beittu orðunum gæfa og hamingja í þágu
einnar merkingar í þýddum ritum og annarrar í frumsömdum sögum. Þeir
sem leggja áherzlu á heiðnina í sögunni, virðast gera ráð fyir því, að ham-
ingja manna sé þeim ásköpuð af einhverjum yfirnáttúrlegum öflum. Gæfu-
menn eiga sem sé að vera gæddir ævilangri hamingju, og ógæfumenn að ráða
ekki fremur við hamingjuleysi en við meðfædda eiginleika. Slíkur skilning-
ur á eðli gæfunnar er að heita má þveröfugur við kenningar húmanistanna á
12. öld, en þeir lögðu mikla áherzlu á sjálfstæði mannsins og ábyrgð hans á
verkum sínum. Það er hins vegar í fullu samræmi við evrópskar siðfræði-
kenningar sem segir í Hugsvinnsmálum:
Ógæfu sinni
veldur einn saman.
Engum er illt skapað.
Eins og annars staðar í siðfræði miðalda, þá er hér um næsta raunsætt við-
horf að ræða, en hins vegar leggja formælendur heiðninnar þann skilning í
orðið ógœfa, að ekki sé unnt að skýra það til hlítar nema gripið sé til hjá-
trúar og forneskju.
Samkvæmt kenningum Ágústínusar og annarra lærðra manna gegnir hug-
takið hamingja lykilhlutverki í siðfræðinni, því að það er ein af megin-
82