Tímarit Máls og menningar - 01.06.1994, Blaðsíða 56
ÁrniIbsen
í svefnkamersi Edgars Allans Poe
Hrafninn segir aldrei framar „Nevermore“. Hann situr bara
þarna á priki við gluggann, stoppaður upp og starir á mig
beinskeyttur með augun svört. Hann hefur sagt sitt síðasta
orð og svipur hans segir að hvað sem mér kæmi í hug að segja
megnaði hvorki að hrekja orð hans né laða fram ný úr
þessum spegilhvassa goggi.
Þetta hús er þögn. Þótt daufur ómur berist af tali frá neðri
hæðum, þá gæti það allt eins verið þurr ymur raftanna í
húsinu, of þurr til að mannlegt eyra nemi.
Og þarna, undir súðinni, úti í horni, er flet skáldsins.
Enginn gistir það núna. Hvernig skyldi hann hafa legið, þá
sjaldan hann svaf? Þessi barnalega spurning byrjar að vaxa í
mér þvert gegn vilja mínum og verður ugglaust eins og
kvistur í góðum viði þegar fram líða stundir, fái ég ekki svar.
Ég stari á fletið eins og þar megi vænta svars. Skortir kjark til
að snúa mér undan, horfast enn í augu við hrafninn, fikra
mig að skörinni og smeygja mér ofan á ný. Ég hef aldrei
kynnst jafn þrunginni þögn. Líf hennar kemur innan úr
henni. Loks tekur að móta fyrir mannveru á fletinu. Óljóst.
Afar óljóst. Hún liggur í hnipri, með hnén næstum upp að
bringspölum. Eins og maður sem stirðnaði í draumi um
barn. Svo er veran horfin. Svo er þögnin eðlileg.
Þá er óhætt að fikra sig að skörinni. Aftur á bak, með
augun á fletinu. Forðast að líta á hrafninn í glugganum. Það
marrar í fjölunum á ný. Þröngur stiginn nánast einstigi. Ofan
kemst enginn nema í hnipri á fjórum fótum.
54
TMM 1994:2