Tímarit Máls og menningar - 01.06.1994, Blaðsíða 17
Raunsæisgagnrýnin gengur út írá því að ljósmyndin sé fullkomin eftirlíking
sem engan svip getur borið annan en þann sem hún hermir svo fullkomlega
eft ir. Að hún geti hvorki bætt við né dregið frá þeim svip sem hluturinn sýnir
af sér og sé því óhjákvæmilega bundin við ásýnd hans. Samkvæmt þessu
viðhorfi er ljósmyndin í senn yfirborðsleg og sviplaus — hún býður ekki upp
á listræna túlkun og ber því sjálf engan svip sem heitið getur.
Gagnrýni mín beinist hins vegar fyrst og fremst að ákveðinni stöðnun og
þröngsýni innan ljósmyndunar sem skert hefur möguleika hennar til
„sjálfskönnunar". Tillögur mínar um aðra sýn og umgjörð en þá sem tíðkast
innan raunsæisrammans ber fremur að skoða sem spurningar en forskriftir.
Ljósmyndir, hvort heldur í raunsæisham eða ekki, geta vissulega oft verið
sviplitlar og innantómar að sjá, en slíkt er engan veginn bundið eðli þeirra
eins og andstæðingar „ljósmyndaraunsæisins" halda gjarnan fram. Ljós-
myndin er ekki eftirlíking heldur raunsýnd hlutar, hún ber samsetta ásýnd
og hefur ávallt möguleika til að draga fram þann hluta ásýndarinnar sem
hún á ein. Þar með opnast henni jafnffamt möguleiki á að yfirstíga „ásýnd-
ina“ sem slíka, sýna sitt innra eðli og jafhvel, ef vel tekst til, eitthvað af eðli
fyrirmyndarinnar líka. Möguleikar hennar til túlkunar kunna að vera minni
en meðal annarra listgreina, en sá munur — ef einhver er — er munur stigs
en ekki eðlis.
Að lokum: Raunsýndin er hin verufræðilega grunnstaða ljósmyndarinnar
en ljósmyndin hefur ýmsa aðra eðliseiginleika til að bera sem einnig verður
að huga að ef skilgreina á stöðu hennar gagnvart veruleikanum og listinni.
Ljósmyndin er á vissan og ótvíræðan hátt skilyrt af veruleikanum en er þó
hvorki eftirlíking né raunsæisþræll. Því reynist sú samlíking sem hér að
ffaman var gerð með Ijósmyndum og skuggamyndunum í helli Platons vera
villandi og fölsk. Hellislíkingin stendur þó enn fyrir sínu en með öfugum
formerkjum—það eru hugmyndir manna um eftirlíkingar sem hafa brugð-
ið upp tálsýn af veruleika ljósmyndarinnar. Sú skuggamynd fellur ekki frá
ljósmyndinni heldur á hana, því eins og Platon benti á, finna þeir seint sanna
þekkingu sem hafa eftirlíkingarnar einar fyrir augum. Dvölin í hellinum
hefur dregist á langinn en leiðin út liggur til sólarinnar, „glóandans“ sem
ljósinu gefur mynd og myndunum ljós. Ljósmyndir eru sólmyndir en ekki
skuggamyndir.
TMM 1994:2
15