Frjáls verslun - 01.05.2008, Blaðsíða 139
F R J Á L S V E R S L U N • 5 . T B L . 2 0 0 8 139
r í k u s t u k o n u r n o r e g s
Mille-Marie Treschow hefur lengi verið kölluð „ríkasta kona Noregs“. Titillinn er alltaf hafður í gæsalöppum. Mille-Marie er ríkust í þeim skilningi að hún stýrir sínum peningum sjálf. Hún á miklar eignir og stundar
sjálf viðskipti. Hrein eign á síðasta skattári var metin á 36 milljarða
íslenskra króna. Hún hefur á síðustu árum notað að jafnaði um þrjá
milljarða á ári til heimilishalds og fjárfestinga. Þetta er séreign hennar
í hjónabandinu með kaupmanninum Stein Erik Hagen. Eign hans,
sem næstríkasta manns Noregs, er einnig séreign. Þetta eru hjón sem
stunda viðskipti hvort fyrir sig.
En Mille-Marie er ekki í raun og veru ríkasta kona Noregs. Aðrar
konur eru ríkari. Þessar ríkari konur eiga það allar sameiginlegt að
vera erfingjar skipakónga og eign þeirra felst í hlutafé sem bræður,
eiginmenn eða frændur stjórna. Ríkasta kona Noregs á lista síðasta
árs heitir Helene Odfjell. Þetta segir mikið um stöðu norskra kvenna
í viðskiptum. Þær sitja á gömlum peningum sem yfirleitt má rekja
til skipafélaga frá næstsíðustu öld og þær halda sig til hlés. Karlarnir
stjórna.
Mille-Marie Treschow er þarna undantekning þótt hún hafi líka
fengið auðæfi sín í arf. Hún á sig sjálf – 54 ára gömul kona í við-
skiptum. Hún er til dæmis eina konan úr hópi ríkustu kvennanna í
Noregi sem er árlega boðið á ársfund Seðlabankans. Gestalistinn þar
er líka listinn yfir áhrifamesta fólkið í landinu.
Ættarnafnið Treschow þýðir tréskór og upphaflega er þetta ætt
danskra skósmiða sem hét ýmist Hans eða Nils – Hansen eða Nilsen.
Þegar þeir urðu ríkir tóku þeir upp ættarnafnið Treschow. Árið 1812
keypti einn þeirra sér aðalsnafnbót. Michael sonur hans flutti árið
1837 til Noregs og gerðist athafnamaður. Hann eignaðist mikil
lönd við Larvík í Vestfold, vestan Óslóar, og græddi á timbursölu og
síðar járnvinnslu. Hann lét byggja sér herragarðinn Fritzöhus, 2302
fermetra á þremur hæðum með 75 herbergjum og 170 hektara garði.
Það er enn stærsta íbúðarhús í einkaeigu í Noregi. Konungshöllin er
stærri en garðurinn þar er minni.
Mille-Marie er 6. ættliður frá þessum fyrsta Treschow í Noregi.
Hún býr nú í Fritzöhus ásamt eiginmanni sínum, Stein Erik Hagen.
Þau gengu í hjónaband árið 2004 en voru bæði gift áður – Mille-
Marie þrisvar. Hún á tvö börn frá öðru hjónabandi sínu.
Gestir í brúðkaupi þeirra hjóna voru 300 og þar á meðal forsætis-
ráðherrann þáverandi – Kjell Magne Bondevik. Fjármálaráðherra var
þar líka. Bondevik er nú sjálfstætt starfandi friðarboði og fær ókeypis
skrifstofu hjá þeim hjónum í Ósló. Þau hafa sambönd.
Mille-Marie er stundum kölluð „skógarbarónessan“. Það er vegna
þeirra miklu skóga sem hún á. Hún á einnig iðnfyrirtæki sem sérhæfir
sig í sölu á steinhellum og auk þess byggingavöruverslanir. Mille-
Marie á fyrirtæki sitt að fullu sjálf. Hún er þar stjórnarformaður og
forstjóri og ræður og rekur að vild. Með eiginmanni sínum á hún þó
eitt lítið fyrirtæki sem stendur fyrir byggingu lúxushótels í Larvík.
Mille-Marie var á yngri árum kunn handboltakona og hún er að
sjálfsögðu hestakona. Á sumrum stundar hún siglingar.
Þrátt fyrir aðskilinn rekstur fyrirtækjanna eru þau Mille-Marie
og Stein-Erik oft nefnd í sömu andrá og þau þykja samhent hjón.
Þó eru uppruni þeirra ólíkur. Hún er aðalskona – hann upphaflega
matvörukaupmaður.
Mille-Marie
treschow
Þær Mille-Marie Treschow, ríkasta kona Noregs,
og Grete Faremo sem nefnd hefur verið stjórnar-
kona Noregs eru ævinlega báðar ofarlega á lista
yfir áhrifamestu konur Noregs. En hverjar eru þær?
tExti: gísli kristjánsson
Mille-Marie Treschow.